Einsöngslög, aríur og dúettar eftir Purcell, Sigvalda Kaldalóns, Schumann, Brahms og Rossini; 20 lög úr Ljóðakornum (1981) eftir Atla Heimi Sveinsson. Hulda Björk Garðarsdóttir sópran, Sigríður Aðalsteinsdóttir mezzosópran; Jónas Ingimundarson, píanó. Sunnudaginn 24. september kl. 20.

TÍBRÁRÖÐ Tónlistarhúss Kópavogs, Við slaghörpuna, gat státað af tónleikum á sunnudagskvöld sem með réttu hefðu ekki aðeins átt að laða margfalt fleiri áheyrendur en létu sig sjá í varla þriðjungsfullum salnum, heldur hefðu einnig mátt fara víðar, og jafnvel um nágrannalöndin í landsuðri. Að vísu var efnisskráin sumpart frekar hefðbundin en þó víða skemmtileg. Hitt var þó veigameira, að söngkonurnar voru eftir öllu að dæma á þvílíkri uppleið, að raungæðin virtust komin langt fram úr þeim takmarkaða orðstír sem miðlungsaðsóknin benti til. Gefur slíkt enn sem oftar tilefni til að harma hversu lítið sýnist vera um forvitna hlustendur í klassísku músíklífi hér sem þora að taka áhættu, í stað þess að einblína á lummur og lárviðarnöfn.

Hulda Björk Garðarsdóttir og Sigríður Aðalsteinsdóttir hafa áður sungið saman með góðum árangri, enda hæfa raddirnar hvor annarri ljómandi vel. Þær hófu tónleikana á glaðlegum nótum með fyrsta af þrem dúettum eftir Henry Purcell í umritun Brittens, Sound the Trumpet úr Afmælisóð Purcells til Maríu Bretadrottningar, Lost is my quiet úr The Indian Queen og What can we poor females do?, sem upphaflega var fyrir sópran og bassa en neðri röddinni hér væntanlega lyft upp um áttund. Fyrsti dúettinn var svolítið hrár og sá næsti hefði kallað á ögn sléttari tónmyndun í samræmi við angurværan barokkstíl, en annars var vel og samtaka sungið af smitandi ferskleika.

Hulda Björk söng næst fjögur lög eftir Sigvalda Kaldalóns með reisn og aðdáunarverðum skýrum texta af sópran að vera, og bar af túlkun hennar í Ég lít í anda liðna tíð, sem skilaði depurð lagsins án minnsta votts af þeirri væmni sem stundum vill fylgja. Sigríður tók upp Kaldalónsþráðinn með öðrum þrem lögum hans og náði hæst með meitlaðri og hæfilega tilfinningahlaðinni útlagningu af Betlikerlingunni.

Robert Schumann skrifaði þónokkuð af samsöngslögum fyrir kvenraddir, og fluttu þær stöllur saman tvo dúetta, hina glettnu rómönzu Erste Begegnung (upphaflega fyrir sópran og barýton?) sem lét ljúft og frísklega í eyrum, og hinn ljúfsára Liebesgram, þar sem víbratóið var hins vegar fullblómlegt að smekk undirritaðs. Johannes Brahms lét einnig vel að semja fyrir kvenraddir, enda stjórnaði hann Frauenchor síðustu árin sín í Hamborg, og dúettarnir Die Meere, sjarmerandi bátssöngur, og þó sérstaklega Die Schwestern í polkaskoppandi bæheimskum þjóðlagastíl voru sungnir af eldhressu fjöri og gáska, er hefðu sómt sér hið bezta í líflegri óperettuuppfærslu á t.d. Sumar í Týról.

Þess var ekki getið í tónleikaskrá hvort, og þá hvað, hefði verið umritað af dúettunum fyrir sópran og alt, og kannski tittlingaskítur að fara fram á slíkt, þó að sagt geti sitthvað um upprunalega hugsun á tilurðartíma. Né heldur var frá greint, að smálögin tuttugu eftir Atla Heimi Sveinsson, sem mynduðu meiripart dagskrár eftir hlé, voru úr 31 lags barnasöngvasafni hans Ljóðakorn (1981), sem Kristinn Sigmundsson gerði fleygt eftir að það hafði legið óbætt hjá garði um árabil. Síðan hefur sýnt sig að míníatúrur þessar eiga sér fleiri túlkunarmöguleika en halda mætti, þótt láti lítið yfir sér við fyrstu sýn. Söngvarinn, og raunar píanóleikarinn líka, þurfa þar að bregða hami á sannfærandi hátt með stuttu millibili, og þótt fáir skáki Kristni í þeim efnum, var eftirtektarvert hvað þær Sigríður og Hulda fengu fram margar ólíkar hliðar úr þessum örperlum. Að vísu jafnaðist umstillingarvandinn nokkuð við að þær sungu allt til skiptis (en lítilsháttar saman í síðustu lögunum), og fékk hvor þannig aukið ráðrúm til að undirbúa sitt næsta gervi.

Sem von var náði sumt hærra en annað, enda lögin flest stutt, og sum örstutt, en geta mætti á stangli af hálfu Huldu Bjarkar gáskans í Við stokkinn og Afi gamli, hins frumlega Fiskiróðurs, Desembers fyrir fallegan sléttsöng og Hausts fyrir vel með farinn talsöng. Úr hlut Sigríðar mætti nefna andrúmsríkið í Öll börn sofa (= Sofa urtubörn á útskerjum), líðandi slétta og fallega tónmyndun í Ljóð, innlifaða túlkun hennar á snjallri tónsetningu Atla á hinu íbyggna litla ljóði Sigurðar A. Magnússonar Krotað í sand og húmorinn í Kisa mín. Þar síðast var píanóið raunar í sterkasta lagi, og sömuleiðis í Bráðum kemur, Afi gamli, Fína kisa og Eignir karls, og kann fyrri samvist við þrumubassa Kristins þar að hafa setið eftir í annars tillitssömum og oft bráðsmellnum undirleik Jónasar Ingimundarsonar.

Síðast sungu þær stöllur tvo söngva frá sjávarsíðu eftir Rossini og gerðu glimrandi vel, fyrst bátssönginn La Pesca, en fóru síðan á kostum, bæði raddlega og með viðeigandi kómískum fettum, í La regata veneziana, þar sem heitmeyjar tveggja ræðara fylgjast með unnustum sínum frá landi og hleypa þeim kapp í kinn, og var það ekki ónýt tímasetning nú á yfirstandandi Ólympíuleikum í Sydney.

Ríkarður Ö. Pálsson