Haraldur Ingólfsson ásamt B-A Strömberg, þjálfara Elfsborg.
Haraldur Ingólfsson ásamt B-A Strömberg, þjálfara Elfsborg.
Haraldur Ingólfsson átti stóran þátt í því að Elfsborg féll ekki úr efstu deild á síðasta tímabili, að sögn B-A Strömberg, þjálfara liðsins. "Haraldur hefur átt frekar sveiflukenndan feril hjá okkur," sagði Strömberg í samtali við Morgunblaðið.

Haraldur Ingólfsson átti stóran þátt í því að Elfsborg féll ekki úr efstu deild á síðasta tímabili, að sögn B-A Strömberg, þjálfara liðsins.

"Haraldur hefur átt frekar sveiflukenndan feril hjá okkur," sagði Strömberg í samtali við Morgunblaðið. "Hann hefur lítið verið í byrjunarliðinu á þessu keppnistímabili en er alltaf í hópnum. Í fyrrahaust, þegar ég tók við, spilaði hann mikið, átti mjög góða leiki og stóran þátt í því að við héldum okkur í deildinni, skoraði fimm mörk og átti sjö stoðsendingar í síðustu 10 leikjunum. Það er mjög góður árangur."

"Haraldur er góður sóknarmaður, með marga góða eiginleika, t.d. góða boltatækni, skot og sendingar og við notum hann mikið í aukaspyrnum og öðrum föstum leikatriðum. Það má segja að hann sé dæmigerður kantmaður," segir Strömberg.

"En jafngóður og hann er í sóknarleik þá eru gallar í varnarleik hans. Að vísu er hann vinnusamur og getur hlaupið mikið en það vantar talsvert á tæklingarnar hjá honum og hann á erfitt með að vinna boltann af andstæðingi."

Hvernig sérðu fyrir þér framtíð Haralds hjá Elfsborg?

"Samningurinn hans rennur út í haust og á næstunni hefjast viðræður millli hans og stjórnarinnar. Niðurstöður þeirra viðræðna munu ráðast af peningamálunum. Það er verkefni stjórnarinnar er að sjá okkur fyrir leikmannahóp innan ákveðins fjárhagsramma. Ef ég réði þessu hins vegar einn hefur Haraldur það marga góða eiginleika sem leikmaður að ég vil gjarnan hafa hann í þessum hópi."

Nú eruð þið skammt á eftir toppliðunum í deildinni og eigið góðar líkur á Evrópusæti. Hvernig líst þér á framhaldið?

"Ég held ekki að við eigum mjög mikla möguleika á Evrópusæti," segir Strömberg. "Við höfum verið of veikir varnarlega og fengið á okkur of mikið af mörkum. Við þurfum að bæta úr því til þess að vera trúverðugir í toppbaráttunni og í Evrópukeppni. Síðustu umferðirnar í deildinni verða erfiðar, þá mætum við sterkustu liðunum. Nei, ég á ekki von á að við kaupum leikmenn til að styrkja okkur varnarlega heldur leggjum áherslu á að vinna með þá leikmenn sem við höfum."

Strömberg kom til Íslands í sumar sem einn af þjálfurum sænska unglingalandsliðsins.

"Það gekk ekki nógu vel því við töpuðum 1-0. Íslandi hefur farið mikið fram sem knattspyrnuþjóð. Það er í raun ótrúlegt og frábært að svo lítil þjóð hafi komið fram svo margir góðir knattspyrnumenn. Vitaskuld sá ég í íslenska unglingaliðinu menn sem við vildum gjarnan nota í Elfsborg en þeir eru flestir þegar samningsbundnir erlendum liðum þannig að ekkert slíkt er til skoðunar," segir Strömberg.