NÝ könnun sýnir að aðeins 10% Japana eru hlynnt hvalveiðum og telja að það væri menningarlegur missir ef þeim væri hætt. Í sömu könnun kemur einnig fram að 60% aðspurðra hafa aðeins bragðað hvalkjöt í æsku ef þeir hafa á annað borð smakkað það. Könnunin var samvinnuverkefni Samtaka um verndun dýra og Greenpeace en á annað þúsund manns yfir átján ára aldri voru spurð.

Samkvæmt könnuninni telja 10% aðspurðra að það væri menningarlegur missir ef hvalveiðum yrði hætt á meðan 35% töldu að það yrði lítill sem enginn missir. Aðeins 18% sögðu að þeir væru tilbúnir til að taka þeim viðskiptalegu afleiðingum sem hvalveiðarnar gætu haft í för með sér.

Um 13% sögðust aldrei hafa bragðað hvalkjöt, 48% höfðu aðeins bragðað það í barnæsku og aðeins 1% sagðist borða það einu sinni í mánuði, en enginn sagðist borða það oftar en einu sinni í mánuði. Tæplega 11% styðja hvalveiðar Japana, 14% eru á móti þeim á meðan 39% sögðust hvorki vera með þeim né á móti. Könnunin var framkvæmd af hlutlausu bresku fyrirtæki, Market & opinion research international. Naoko Funahashi, meðlimur Samtaka um verndun dýra, segir að könnunin sýni glöggt að sú fullyrðing japanskra stjórnvalda að hvalkjöt sé hefðbundið japanskt góðgæti eigi ekki við nein rök að styðjast. Þrátt fyrir mikil mótmæli við hvalveiðarnar halda Japanir áfram að veiða hval á sex skipum en hvalirnir sem þeir ætla að veiða eru hrefna, skoruhvalur og búrhvalur.