[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
DÓTTURFYRIRTÆKI SH, Icelandic UK í Bretlandi, var stofnað fyrir tveimur árum en það sér aðallega um sölu á sjófrystum fiski og rækju í Bretlandi. Í tengslum við markaðsfund SH voru þrír starfsmenn félagsins kynntir í sérstöku dreifiriti.

DÓTTURFYRIRTÆKI SH, Icelandic UK í Bretlandi, var stofnað fyrir tveimur árum en það sér aðallega um sölu á sjófrystum fiski og rækju í Bretlandi. Í tengslum við markaðsfund SH voru þrír starfsmenn félagsins kynntir í sérstöku dreifiriti. Magni Þór Geirsson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hann segir að almennt séð hafi rekstur fyrirtækisins gengið vel. Gengismál hafi verið hagstæð og þróun í þorskkvóta gagnvart keppinautum okkar. Hann segir að áherzlur í starfseminni hafi breytzt nokkuð og fyrirtækið sé nú orðið sérhæfðara í að selja inn á ákveðna markaðshluta í Bretlandi. Því sé vöruúrvalið aðallega orðið sjófrystur fiskur og pilluð rækja.

"Þetta þýðir þó ekki að við seljum ekki annað því oft á tíðum eru kaupendur okkar að biðja um aðrar vörur svo sem síld og unnar vörur. Nú einbeitum við okkur að því að auka þjónustustigið því það er mjög mikilsmetið á þessum markaði," segir Magni Þór.

Gísli Gíslason er sölustjóri í skelfiskdeild en hún selur fyrst og fremst rækju. Hann segir að salan hafi gengið mjög vel og þegar hafi verið selt meira en allt árið í fyrra. Því stefni í það að heildarsala á rækju verði um 3.000 tonn.

"Það ber að hafa í huga að framboð af pillaðri kaldsjávarrækju hefur aukizt um 30% á ríflega tveimur árum. Þetta hefur gerzt með tilkomu Kanadamanna inn í þennan geira. Rækjan frá Kanada hefur verið stór einfryst rækja sem hefur verið dýrust á markaðnum en með auknu framboði hefur verð á þessum stærðum lækkað," segir Gísli Gíslason.

Nýr sölustjóri flaka hefur verið ráðinn að fyrirtækinu. hann heitir Simon Tomlinson . Hann byrjaði 16 ára gamall að vinna hjá fisksala en eftir nokkra dvöl þar réðst hann til fiskvinnslufyrirtækisins Smales & Son og var þar í sex ár, fyrst sem sölumaður en síðar innkaupastjóri á fiski frá Noregi , Færeyjum , Íslandi og Rússlandi . Hans hlutverk nú er að upplýsa framleiðendur um verð og markaðinn annars vegar og hins vegar yfirumsjón með sölu á flökum, aðallega sjófrystum inn á brezka markaðinn. Hann segir að í flestum tilfellum skipti verð meira máli en gott vörumerki. Hins vegar sé það staðreynd að vörumerki sem standi fyrir stöðug og jöfn gæði nái að meðaltali hærra verði. Icelandic merkið hafi í þessu sambandi almennt jákvæða ímynd á markaðnum.