VON er hópur sem hefur verið starfandi síðan 1998, hann hefur það markmið að vera hagsmunahópur fyrir konur sem gengist hafa undir brjóstastækkanir eða brjóstauppbyggingu eftir veikindi.

VON er hópur sem hefur verið starfandi síðan 1998, hann hefur það markmið að vera hagsmunahópur fyrir konur sem gengist hafa undir brjóstastækkanir eða brjóstauppbyggingu eftir veikindi.

Okkur langar til að byrja á því að fagna því að Morgunblaðið birti grein um sílikonpúða í blaðinu sínu sl. laugardag og var sú frétt frá Reuters-fréttastofunni, reyndar hefur verið allt of lítið fjallað um þessi mál hér á landi og konur því illa upplýstar og betur má ef duga skal. Við erum í alþjóðahóp sem lætur sig þessi mál varða og fáum allar nýjustu upplýsingar um þau mál. Við höfum síðan sent heilbrigðisyfirvöldum þær upplýsingar sem við teljum nauðsynlegtað þau fái og má þá nefna heilbrigðisnefnd Alþingis, heilbrigðisráðherra og landlæknisembættið, þannig að vitneskja um þessi mál er til hér á landi.

En við höfum unnið að þessum málum í sjálfboðavinnu sem hópur, en það sem við gerðum okkur ekki grein fyrir í upphafi var að þessi vinna byggðist mest upp á netnotkun. Því fylgir mikill kostnaður sem við höfum reynt að kosta sjálfar en svo kom að því, því miður, að við gátum ekki staðið undir þessum kostnaði einar og var því lokað bæði fyrir síma og Netið, en í dag erum við að vinna í þeim málum þannig að hægt verði að halda áfram því það bíður okkar verðugt verkefni. Sem dæmi þá vorum við eina Norðurlandið sem var beðið að senda greinargerð um ástand þessara mála til Evrópuráðsins í Brussel og var það tekið fyrir sl. vor og verður tekið fyrir aftur á haustdögum. Verður afar fróðlegt að vita hvernig þau mál fara.

Fyrir þær konur sem hafa reynt að ná til okkar varðandi Dow Corning þá var málinu vísað áfram til æðra dómstigs í Bandaríkjunum þannig að það mun dragast eitthvað lengur að afgreiða það mál, en það er enn í gangi. Við vonumst til að fá Netið aftur, þannig að við getum fengið nánari fréttir af gangi mála.

Einnig langar okkur til að bæta því við að verið er að gera á vegum FDA (lyfjaeftirliti Bandaríkjanna) afar stóra rannsókn vegna sílikonpúða og taka 13.500 konur þátt í þeirri rannsókn. Munu niðurstöður þeirrar rannsóknar verða birtar árið 2001 og ætti þá að liggja fyrir hvort sílikonpúðar valdi skaða eður ei, þannig að ekki hefur tekist að sanna enn í dag að þeir séu skaðlausir.

Ef fólk hefur áhuga á að lesa sér til um þessi mál er hægt að fara inn á slóðir og lesa margt afar áhugavert t.d. á http://www.info-implants.com/com einnig http://www.MAMNSIF@prodigy.net en þar er einnig hægt að biðja um að fá senda bæklinga sem gott er að lesa yfir áður en konur taka ákvörðun um að fá sílikonpúða. Við vonum að þessar upplýsingar komi einhverjum að gagni svo vonumst við til að mál okkar leysist á farsælan hátt, því þetta málefni þarfnast umræðu. Einnig þarf að birta fleiri greinar en tengjast þessu máli.

F.h. VONAR, SIGRÚN

G. SIGURÐARDÓTTIR,

Krummahólum 4, Reykjavík.

Frá Sigrúnu G. Sigurðardóttur: