Í TILEFNI af því að nú höldum við upp á nýtt árþúsund frá fæðingu Jesú Krists, langar mig til að höfða til þeirra sem bera ábyrgð á uppfræðslu þjóðarinnar og fara fram á að boðorðin tíu verði gerð aðgengileg og kennd eins og þau voru í upphafi gefin...

Í TILEFNI af því að nú höldum við upp á nýtt árþúsund frá fæðingu Jesú Krists, langar mig til að höfða til þeirra sem bera ábyrgð á uppfræðslu þjóðarinnar og fara fram á að boðorðin tíu verði gerð aðgengileg og kennd eins og þau voru í upphafi gefin okkur mönnunum.

Lengi hafa þau verið kennd þannig að öðru boðorðinu hefur verið sleppt og tíunda boðorðinu verið skipt í tvennt til að þau væru enn tíu að tölu.

Þetta er hluti af þeim arfi sem þjóðkirkjan fékk frá kaþólsku kirkjunni í gegnum Lúther.

Það er ótrúleg lítilsvirðing við Orð Guðs, að fella niður eitt ýtarlegasta boðorðið og ótrúlegt hvað margir lærðir og leikir hafa vitað það og látið það líðast.

Nú vil ég höfða til réttlætiskenndar og trúfesti ráðamanna kirkjunnar við Orð Drottins og biðja þá að koma því til vegar að þau börn sem fermd verða á þessu nýja árþúsundi fái tækifæri til að læra boðorðin rétt.

Ég vona að þessu verði vel tekið og brugðist hratt við.

Með ósk um blessun Guðs yfir framtak ykkar.

Hér kemur texti boðorðanna úr 20. kafla 2. Mósebókar

1 "Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. 2 Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín. 3 Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma. 4 Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. 5 Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. 6 Þú skalt ekki morð fremja. 7 Þú skalt ekki drýgja hór. 8 Þú skalt ekki stela. 9 Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. 10 Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á."

NÍLS GÍSLASON,

Skógarhlíð 35,Akureyri.

Frá Níls Gíslasyni: