THE HUNTING OF THE SNARK An Agony in Eight Fits, eftir Lewis Carroll. Myndskreytt af Mervyn Peake. Gefin út af Methuen Publishing Limited. London. 2000. 36 blaðsíður, en 72 með skissum Peakes. Fæst í Máli og menningu.

LEWIS Carroll, eða Charles Lutwidge Dodgson, eins og hann heitir réttu nafni, er eflaust frægastur fyrir að hafa skrifað bækurnar tvær um Lísu í Undralandi; Alice´s Adventures in Wonderland og Through the Looking-Glass and What Alice Found There. Bækurnar nutu mikilla vinsælda á sínum tíma meðal ungu kynslóðarinnar en voru endurvaktar á hippatímanum sem fullorðinslesning þar sem hippunum líkaði draumkenndur fáránleikinn og þóttust sjá að þarna hefði verið sýruhaus í baráttu á móti kerfinu (t.d. er "White Rabbit" með Jefferson Airplane tilvitnun í samnefnda stressaða kanínu í Undralandi). Þeir hefðu náttúrlega ekki getað verið lengra frá sannleikanum þar sem Dodgson var feiminn, miðaldra stærðfræðikennari við Oxford-háskóla sem eyddi grunsamlega miklum tíma með smástelpum (úps, heyrði ég loftbólu springa?)

Hunting of the Snark er örlítið breytt útgáfa af bók sem upprunalega kom út 1941, 43 árum eftir dauða Carroll. Bókin er aðeins eitt langt ljóð og alls ekki einstök því að Carroll gerði þó nokkrar barnaljóðabækur eins og t.d. Phantasmagoria and other poems, Rhyme? and Reason? og Sylvie and Bruno. Og það er eiginlega synd hversu gleymd og vanmetin þessi ljóð eru því að mínu mati hafa vísurnar alltaf verið hans sterkasta hlið. Súrrealísk gamankvæði sem hylla hið fáránlega og kjánalega, leikur að orðum og rökfræði sem gæti rotað hest úr undrun. Algjör forveri gáfulega "silly" húmorsins sem Monty Python tileinkuðu sér seinnameir.

En Hunting of the Snark er ekki bara skringileg og skemmtileg lesning heldur er hún líka frábærlega myndskreytt af Mervyn nokkrum Peake. Sá maður hefur myndskreytt fjöldann allan af bókum auk mikilla bókmenntaafreka en hann skrifaði hina frábæru, gotnesku trílógíu um Gormenghast kastalann, seríu sem líkt og Lísa í Undralandi fetar milliveg barnaefnis og fullorðinsbókmennta. Það er líklega þess vegna sem ég er að kynna þessa bók því að þarna hittast einir tveir merkustu og ímyndunarveikustu höfundar sem ég þekki til að framkalla mjög stutta og pervisna en 100% ánægjulega lesningu.

Ragnar Egilsson