[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
The Arrogance of Power: The Secret World of Richard Nixon. Höfundur: Anthony Summers. Útgefandi: Viking. 640 bls.

ÆVINLEGA er tiltekinn einstaklingur horfir löngunaraugum til embætta tekur rotnunin að setja mark sitt á framgöngu hans." Þessa speki um vilja stjórnmálamannsins til valda og leit hans að upphafningu, sem svo oft verður siðlaus, lét Thomas Jefferson frá sér fara árið 1799, tveimur árum áður en hann varð þriðji forseti Bandaríkjanna.

Sá maður, sem átti eftir að verða 37. forseti þessa mikla ríkis, horfði löngunaraugum til fjölmarga embætta á ævi sinni og rotnunin tók, að sögn, snemma að gera vart við sig. Svo fór að lokum að maðurinn varð gegnrotinn; öldungis siðlaus valdasjúklingur sigraði í forsetakosningunum í Bandaríkjunum haustið 1968 og er hann hraktist með skömm úr Hvíta húsinu rúmum fimm árum eftir að hafa svarið embættiseiðinn, hafði hann brotið flest þau lög, sem brjótanleg voru, logið, svikið og misnotað svo gjörsamlega valdið, er honum var treyst fyrir, að enn eru Bandaríkin ekki söm eftir.

Richard M. Nixon brást öllum, sem nærri honum stóðu. Hann brást bandarísku þjóðinni, stuðningsmönnum sínum, aðstoðarmönnunum, vinum sínum og fjölskyldu. Og hann brást sjálfum sér og foreldrum sínum, sem sennilega varð honum erfiðasta reynslan þegar Watergate-fárið var afstaðið og hann hóf varfærnislega baráttu sína fyrir því að öðlast virðingu á ný; baráttu, sem lauk með sigri, er arftakar hans á forsetastóli voru viðstaddir útför hans 20 árum síðar, árið 1994.

Fréttamaðurinn Anthony Summers rekur þessa sögu alla í nokkuð ítarlegri nýrri bók um Richard Nixon. "The Arrogance of Power" hefur vakið nokkra athygli og fullyrðingar höfundarins um að Nixon hafi drukkið ótæpilega og neytt lyfja, sem höfðu áhrif á geð hans og persónu, hafa kallað fram mótmæli frá fjölskyldu forsetans fyrrverandi. Þá hefur og verið andmælt þeim fullyrðingum höfundarins að Nixon hafi oftar en einu sinni lagt hendur á eiginkonu sína, Pat Nixon, bandarísku fyrirmyndarhúsmóðurina, sem forsetinn var svo stoltur af að hefði ítrekað verið lofsungin í tímaritinu óviðjafnanlega Good Housekeeping.

Ógeðfelldur valdasjúklingur

Í bók Anthony Summers, sem er einkum þekktur fyrir myrka sögu sína um ævi J. Edgar Hoover og hefur starfað fyrir BBC, er dregin upp vægt til orða tekið ógeðfelld mynd af 37. forseta Bandaríkjanna. Ef lýsing Summers er rétt var Richard Nixon, drykkfelldur (og trúlega geðbilaður) valdasjúklingur; maður, sem þekkti engar siðferðisviðmiðanir og var með öllu tilfinningalaus; einfari sem þjáðist af ofsóknarbrjálæði. Nixon var gjörsamlega siðlaus í allri sinni pólitísku framgöngu, þáði leynilegar peningagreiðslur frá glæpamönnum og jafnvel morðingjum og þekkti engin takmörk er hann hugðist klekkja á andstæðingum sínum. Hann var hrokagikkur, sem safnaði um sig siðleysingjum og ruddum, sem fóru í einu og öllu að óskum hans; maður, sem bar ekki minnstu virðingu fyrir stjórnarskránni og hefði jafnvel getað steypt Bandaríkjunum í glötun.

Margt í bók Anthony Summers er vel gert og víða er heimildasöfnunin sannfærandi. Aðrir kaflar vekja hins vegar upp efasemdir og tortryggni. Saga þess efnis, að Nixon hafi í eitt skiptið við opinbert tækifæri ekki þekkt eiginkonu sína og heilsað henni hljómar kunnuglega enda hefur hún einnig verið sögð um Ronald Reagan, sem ekki átti að hafa þekkt son sinn er sá hinn sami útskrifaðist úr skóla.

Annað í bók Summers er betur skjalfest og sumt verður tæpast dregið í efa. Þrátt fyrir að öðru væri jafnan haldið fram drakk Nixon ótæpilega og það sama gerði eiginkona hans á köflum. Forsetinn þjáðist af viðvarandi svefnleysi og notaði áfengi og svefnlyf svo ógætilega að oftlega sofnaði hann í miðjum samtölum við undirsáta sína.

Ljóst virðist ennfremur að Summers hafi lagt fram trúverðug gögn um að fjármál Nixons hafi lengstum ekki staðist skoðun og að glæpamenn hafi stutt hann með margvíslegum hætti. Þá sýnist tæpast leika á því vafi að Nixon spillti fyrir friðarviðræðum Johnson-stjórnarinnar og Norður-
Víetnama fyrir kosningarnar 1968 og bar þannig á því ábyrgð að stríðið dróst enn á langinn.

Lyfjanotkun

Athygli hafa vakið þær upplýsingar í bók Summers að Nixon hafi löngum notað Dilantin, sem upprunalega mun hafa verið flogalyf, til að vinna gegn depurð og þunglyndi. Nú um stundir þykir það tæpast óeðlilegt að ráðamenn noti lyf til að auðvelda sér lífið og er þess skemmst að minnast er upplýst var að forsætisráðherra Noregs hefði neyðst til að taka sér leyfi frá störfum og sætti lyfjameðferð sökum þunglyndis. Fyrir rúmum 20 árum voru slík lyf hins vegar mun "grófari" en þau, sem nú eru notuð og aukaverkanir í mörgum tilfellum hastarlegar. Vart verður dregið í efa að Nixon neytti lyfja og að sú neysla var í meira lagi ógætileg. Forsetinn þoldi illa áfengi og virðist oftlega hafa verið drukkinn eða undir áhrifum lyfja á mikilvægum stundum á ferli sínum.

Upplýsingar þess efnis að forsetinn hafi gengið í skrokk á konu sinni eru hins vegar hvorki studdar ítarlegum né traustum heimildum.

Watergate-málið og endalok Nixon-tímabilsins er hér rakið á þokkalega ítarlegan hátt en fátt nýtt kemur fram í frásögn Summers. Hann heldur því fram að mikill ótti hafi verið tekinn að gera vart við sig í Hvíta húsinu og á meðal þingheims síðustu dagana og vikurnar, sem Nixon gegndi embætti. Forsetinn hafi litla sem enga stjórn haft hvorki á sjálfum sér né umhverfinu og menn hafi óttast að hann blési jafnvel til hernaðar án tilefnis.

Annað er kunnuglegt. Nixon hlaut um margt undarlegt uppeldi. Sókn sína til frekari pólitískra metorða hóf hann með því að eyðileggja líf Alger Hiss, starfsmanns utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, á þeim forsendum að hann væri sovéskur njósnari. Enn í dag er deilt um hvort Hiss hafi verið á mála hjá Sovétmönnum. Kommúnistahræðslu Bandaríkjamanna nýtti Nixon sér út í ystu æsar og reyndi það jafnvel eftir að draga tók úr móðursýkislegum ótta við Sovétríkin, sem hann og menn á borð við Joseph McCarthy ólu á af fullkominni ósvífni.

Eftir þetta jókst rotnun persónuleika Nixons í réttu hlutfalli við þau embætti, sem hann hafði löngun á, svo vísað sé til orða Jeffersons.

Bók Anthony Summers er ekki ævisaga í hefðbundinni merkingu þess orðs. Hér er fjallað um skuggahliðarnar á persónu Nixons í réttri tímaröð en lítið sem ekkert sagt frá framgöngu hans í embættum að öðru leyti. Einungis er stuttlega minnst á helstu afrek forsetans, "opnunina" gagnvart Kína og slökunarstefnuna, sem þeir Nixon og Henry Kissinger innleiddu gagnvart Sovétríkjunum. Raunar heldur Summers því fram að slökunarstefnuna og samningana við Kína og Sovétríkin megi einkum rekja til aðdáunar Nixons á Charles de Gaulle Frakklandsforseta.

Þannig mætti áfram telja; í bók Anthony Summers er ekkert jákvætt að finna um Richard M. Nixon.

Afrek og persónugallar

Svarar bók Anthony Summers áleitnustu spurningunum varðandi Richard Nixon? Þótt rakið sé hvernig persónugallar hans, skapofsi og hneigð til ofsóknaræðis mótuðu viðbrögð hans og framgöngu á mörgum mikilvægum stundum gerir höfundurinn enga tilraun til að setja þessi persónueinkenni í samhengi við þann mikla árangur, sem Nixon náði á mörgum sviðum. Það vill oft gleymast, að Nixon breytti miklu í Bandaríkjunum og að hann var í raun heldur "frjálslyndur" forseti. Nixon hafði t.a.m. forustu um lögvernduð lágmarkslaun og það var hann, sem fylgdi eftir löggjöf um jöfn borgararéttindi kynþáttanna. Nixon batt og enda á herskyldu í Bandaríkjunum. Um þessa hlið á persónu forsetans fjallar höfundurinn ekki og hann leiðir nær algjörlega hjá sér framgöngu Nixons í Kína og Sovétríkjunum og þau tímamót, sem þeim ferðum fylgdu. Hefði þó mátt ætla að þar væri úr nógum efniviði að vinna.

Anthony Summers segir lesendum sínum aukinheldur ekkert um það hvernig það gerðist að jafn hæfur og stólpagreindur maður og Richard M. Nixon fylltist slíku hatri og hefndarþorsta, sem kallaði yfir hann svo niðurlægjandi endalok og það gjörsamlega að óþörfu. Að auki gerir höfundurinn nánast enga tilraun til að skýra hvernig svo slægur og illa innrættur maður, miðað við lýsingu Anthony Summers, gat gert svo fáránleg mistök, sem Watergate-innbrotið var og þó einkum hljóðritanirnar, sem endanlega urðu til þess að steypa Nixon í glötun.

Líklegasta skýringin á hatri og hefndarþorsta Nixons er ósigur hans í forsetakosningunum árið 1960 þegar vinir Kennedy-klíkunnar stálu mjög trúlega af honum sigrinum og fengu hann í hendur John F. Kennedy. Í huga Nixons varð Kennedy-fjölskyldan og hin frjálslynda "stjórnmála-elíta" austurstrandarinnar samnefnari fyrir allt það, sem hann hataði og fyrirleit. Beint og röklegt framhald af þessu var síðan fyrirlitning hans á fjölmiðlum, sem hann taldi til hættulegustu óvina sinna. Tengsl hneigðar stjórnmálamanna til ofsóknaræðis og frjálsrar fjölmiðlunar er að sönnu merkilegt rannsóknarefni.

Umfjöllun Anthony Summers um þetta er ófullnægjandi að því leyti sem hún leiðir fátt nýtt í ljós og skortir dýpt.

Ekki verður um það deilt að Richard Nixon var stórkostlega gallaður maður, sem kallaði raunverulega ógæfu yfir þjóð sína að því marki sem Watergate-málið leiddi til þess að traust á stjórnmálamönnum í Bandaríkjunum beið mikinn hnekki. Um áhrif þessa eru menn enn að rita lærðar bækur í Bandaríkjunum. (Áhugamönnum um áhrif Watergate-málsins skal bent á nýjustu bók Bob Woodward, "Shadow", útg. Simon & Schuster 1999).

En Nixon var jafnframt margbrotinn og flókinn persónuleiki, einstakur maður, sem hafði rómantískar hugmyndir um leiðtogann og hlutskipti hans og taldi lífið endalausa baráttu. Þær níu bækur, er hann lét eftir sig hafa margar að geyma lífspeki og heimssýn, sem er allrar athygli verð.

Bók Anthony Summers er heldur ógnvekjandi lesning og víst er að þar er að finna mörg atriði, sem rannsökuð verða nánar á komandi árum. Heimildavinna sýnist á köflum ekki vera nægilega traust að því marki sem víða er stuðst við orðróm, sögusagnir og fullyrðingar hatursmanna forsetans. Þá skorti hann vitanlega ekki og augljóslega er ævisöguritara Nixons vandi á höndum einfaldlega sökum þess hversu ótalmargt neikvætt hefur verið sagt og birt um manninn.

"The Arrogance of Power" er langt frá því að vera tæmandi ævisaga en setur stjórnmálaferil 37. forseta Bandaríkjanna í nánast skelfilegt samhengi siðleysis, persónugalla og valdhroka. Lýsingin er hins vegar einhliða og greininguna skortir dýpt. Því fer fjarri að ráðgátan Richard M. Nixon hafi verið leyst.