Ein af vefmyndum Vigdísar Kristjánsdóttur.
Ein af vefmyndum Vigdísar Kristjánsdóttur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til 1. október. Opið þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 14-18.

STÖLLURNAR Bryndís Jónsdóttir og Guðrún Marinósdóttir skipta með sér safninu þannig að Bryndís er á hæðinni en Guðrún í gryfjunni svokölluðu. Báðar hafa þær viðað að sér hugmyndum úr sveitinni, Bryndís úr safni gamalla búfjármarka en Guðrún úr hrosshári.

Bryndís teflir fram stórum leirkerum og meðalstórum sem að lögun eru eins og staðlaðar grunnmyndir af fjáreyrum með tilheyrandi mörkum. Grunnmyndirnar eru ekki óáþekkar bátum eða kirkjuskipum, en á hlið eru kerin einna líkust eyjum sem rísa úr sæ. Efniviðurinn er brenndur steinleir, en Bryndís teflir fram tveim ólíkum litbrigðum, postulínshvítri húð og yfirborði dökku af koparoxíði. Þannig virka kerin misþung og ólík að inntaki þótt grunnefniviðurinn sé sá sami.

Sem form á gólfi salarins í ASÍ taka hin gerðarlegu ker Bryndísar sig vel út. Í handmótuðum hliðunum, þar sem enn má sjá fingurfarið milli laganna sem mynda veggi ílátanna, er falin sterk náttúruupplifun, enda minna þessi eyrnamerktu form á fuglabjörg landsins.

Það er langur vegur frá stórskornum kerum Bryndísar til fínlegra hrosshársverka Guðrúnar. Hún byggir verk sín á evrópskri skreytihefð þar sem mannshár - að öllum líkindum kvenmannshár - voru fléttuð utan um vír og bundin í eins konar kniplingavirki.

Sum verkin í gryfjunni eru fest á standprjóna á gólfinu meðan önnur mynda snigilkappa á veggnum. Best er þegar Guðrún fléttar úr hárunum blómkrónur og lætur þær mynda eins konar stjörnuþoku á langvegg gryfjunnar. Þá er eins og hún leysi aðferðina úr viðjum handverks og gefi henni listrænan kraft sem nægir til áhrifa. Þá er merkilegt að háraflétturnar eru í eðli sínu "kitsch" eða fáfengilegt listlíki, sem Guðrúnu tekst að blása í nýju og óvæntu lífi.

Þriðja konan í hópnum er Vigdís heitin Kristjánsdóttir vefari, en nokkur verk hennar úr fórum Listasafns ASÍ prýða herbergið við hlið gryfjunnar. Vigdís var brautryðjandi í íslenskum myndvefnaði sem kaus að vinna að list sinni í kyrrþey. Verk hennar lýsa afar vel rómantísku upplagi hennar og náttúruást sem kom fram í fjölda veggteppa af gróðursæld gróandans. Þá er á einum veggnum hin smágerða myndlýsing hennar af Kirkjunni á hafsbotni - La Cathédrale engloutie - byggð á hinni þekktu tíundu Prelúdíu úr Fyrstu bók Debussy, en Vigdís var mikill aðdáandi tónlistar og lék sjálf ágætlega á píanó. Það er bragð að þessari litlu en fallegu sýningu á vefmyndum Vigdísar.

Halldór Björn Runólfsson