EIGENDUR nýja tvö þúsund fermetra kvikmyndaversins sem reist hefur verið í Grafarvogi telja að ekki séu forsendur fyrir rekstri kvikmyndaversins eins og sakir standa og íhuga nú sölu á því.

EIGENDUR nýja tvö þúsund fermetra kvikmyndaversins sem reist hefur verið í Grafarvogi telja að ekki séu forsendur fyrir rekstri kvikmyndaversins eins og sakir standa og íhuga nú sölu á því. Að sögn Jóns Þórs Hannessonar, forstjóra Saga-Film, eins stærsta eiganda kvikmyndaversins, hafa nokkrir aðilar sýnt áhuga á því að kaupa verið til annarra nota en kvikmyndagerðar.

Jón Þór segir einkum þrjár ástæður fyrir því að eigendur versins meti það sem svo að ekki séu lengur forsendur fyrir rekstri versins. Í fyrsta lagi sé óvissa um framkvæmd nýrra laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi sem samþykkt voru á Alþingi vorið 1999. Markmið laganna var eins og kunnugt er að laða að erlenda aðila til að framleiða kvikmyndir eða sjónvarpsefni hér á landi með því að endurgreiða tímabundið hluta af innlendum framleiðslukostnaði. Vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar ESA við lögin hafa þau enn ekki öðlast gildi og þar með ekki náð tilgangi sínum. Í öðru lagi hafi áhugi íslenskra kvikmyndagerðarmanna á kvikmyndaverinu verið lítill og í þriðja lagi segir Jón Þór að áform borgaryfirvalda um að reisa fjölnota hús í Laugardalnum dragi úr möguleikum til að leigja verið út til annarra nota en til kvikmyndagerðar, samkeppni frá borgaryfirvöldum hafi kippt stoðunum undan þessum hluta rekstursins.

Fyrsta skóflustungan að byggingu versins var tekin 14. ágúst 1999 og voru miklar væntingar bundnar við rekstur versins þegar framkvæmdir við það hófust. Jón Þór segir það því vonbrigði að kvikmyndagerðarmenn hafi ekki sýnt því meiri áhuga. "Það hefur sýnt sig að verið er mjög góður og þægilegur vinnustaður," segir hann og telur ennfremur að menn geri sér ekki grein fyrir því hve gott sé að hafa aðgang að slíku veri við gerð kvikmyndar. Það geti til að mynda dregið úr kostnaði við gerð kvikmyndarinnar.