Þótt sjálfvirkni aukist sífellt í rækjuvinnslu kemur ekkert tæki alveg í staðinn fyrir vökul augu og fljótar hendur.
Þótt sjálfvirkni aukist sífellt í rækjuvinnslu kemur ekkert tæki alveg í staðinn fyrir vökul augu og fljótar hendur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
UNNIÐ hefur verið að breytingum á rækjuvinnslu Hólmadrangs ehf. á Hólmavík á þessu ári. Markmiðið með breytingunum er að auka framleiðsluna þannig að unnt verði að vinna úr 4.000-4.500 tonnum af rækju á ári í stað um 3.000 tonna meðalframleiðslu undanfarin ár.

Hólmadrangur hf., sem til varð í þáverandi mynd fyrir fimm árum með sameiningu fiskvinnslu Kaupfélags Steingrímsfjarðar og Hraðfrystihúss Drangsness við útgerðarfélagið Hólmadrang, sameinaðist Útgerðarfélagi Akureyringa hf. um síðustu áramót. Í byrjun apríl stofnaði ÚA dótturfélagið Hólmadrang ehf. til að taka við landeignum og rekstri á Ströndum. Ákveðið var að fyrirtækið ræki eingöngu rækjuvinnsluna á Hólmavík. Húsnæðið á Drangsnesi, þar sem rækjuvinnslu hafði verið lokað fyrir tveimur árum, var leigt heimamönnum til saltfiskverkunar og Útgerðarfélag Akureyringa tók við allri útgerð sem Hólmadrangur hafði verið með. Nú er búið að selja flaggskipið, frystitogarann Hólmadrang.

Fjárfest í vinnslunni

Gunnlaugur Sighvatsson, framkvæmdastjóri Hólmadrangs ehf., segir að á undanförnum mánuðum hafi verið unnið að breytingum á rækjuvinnslunni í því skyni að auka afkastagetu hennar. Fimmtu pillunarvélinni var bætt við og fjárfest í öðrum tækjabúnaði til að taka við auknum afköstum. Áætlað er að framleiða úr 4.000 til 4.500 tonnum af hráefni á ári á einni átta tíma vakt. Afköstin höfðu verið aukin áður en að meðaltali hefur verið framleitt úr um 3.000 tonnum af hráefni á ári í þessari verksmiðju.

Þessa dagana er síðan verið að byggja við rækjuvinnsluna 300 fermetra hús á einni hæð. Í viðbyggingunni verða skrifstofur fyrirtækisins til húsa og aðstaða fyrir starfsfólk. Starfsmannaaðstaðan er í eldri hluta frystihússins og var komið að lagfæringum á henni. Það húsnæði verður nú tekið undir annað. Skrifstofurnar eru í leiguhúsnæði og segir Gunnlaugur gott að geta haft þær í nánari tengslum við vinnsluna.

Hólmadrangur ehf. er eina rækjuvinnslan á vegum ÚA og fær vinnslan töluvert hráefni frá móðurfélaginu. Þannig kemur allur afli Svalbaks sem er að veiðum á Flæmingjagrunni til Hólmavíkur. Einnig afli Rauðanúps sem er á úthafsrækjuveiðum á Íslandsmiðum. Þá er keypt hráefni á markaði.

Meiri hluti af innfjarðarrækjunni á Húnaflóa, um 1.000 tonn á ári, hefur farið til vinnslu hjá Hólmadrangi. Það varð því áfall fyrir fyrirtækið þegar hætta varð veiðum vegna þess hversu stofninn er orðinn lítill. "Útlitið er ekki bjart. Að vísu á eftir að gera rannsóknir í haust en ég geri mér ekki vonir um að veiðar verði hafnar í vetur," segir Gunnlaugur.

Hann vill ekki hafa mörg orð um afkomu rækjuvinnslunnar um þessar mundir, segir að róðurinn hafi þyngst vegna lækkunar á afurðaverði á árinu. Hins vegar hafi þetta verið ár breytinga hjá Hólmadrangi og vinnslan ekki samfelld vegna þess og það hafi sín áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins.

Öflugur bakhjarl

Gunnlaugur segir að samskiptin við móðurfélagið, ÚA á Akureyri, hafi verið mjög góð og það sé mikill stuðningur í því að hafa öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem eignaraðila á bak við sig, það létti hráefnisöflun og komi á ýmsan annan hátt til góða. "Ég veit að það er fullur hugur í þeim að byggja upp þessa vinnslu. Hér hefur verið fjárfest töluvert til þess að hún geti borið sig og ég bind vonir við að okkur takist að ná markmiðum okkar um arðbæran rekstur," segir Gunnlaugur Sighvatsson.