RÚNAR Jónsson og Jón Ragnarsson á Subaru Impreza tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð með fullt hús stiga eftir að hafa sigrað haustrallið um helgina.

RÚNAR Jónsson og Jón Ragnarsson á Subaru Impreza tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð með fullt hús stiga eftir að hafa sigrað haustrallið um helgina. Í öðru sæti voru þeir Sigurður Bragi Guðmundsson og Rögnvaldur Pálmason á Rover Metro og á eftir þeim komu Hjörleifur Hilmarsson og Páll Kári Pálsson á Mitsubishi Lancer og er þetta besti árangur þeirra í ralli til þessa. Páll Halldór Halldórsson og Jóhannes Jóhannesson á Mitsubishi Lancer náðu ekki að vera í baráttunni eftir að hafa ekið út af á þriðju sérleið og enduðu þeir í fjórða sæti. Til tíðinda dró í rallinu að Jón Bjarni Hrólfsson og Hlöðver Baldursson á Ford Escort náðu að klára sitt fyrsta rall í sumar og enduðu þeir í fimmta sæti en þeir hafa átt í miklum vandræðum í sumar.

Baldur Jónsson og Geir Óskar Hjartarsson á Subaru Legacy áttu litla möguleika á Íslandsmeistaratitlinum fyrir síðustu keppnina en þeir urðu að hætta keppni eftir að hjólabúnaður gaf sig en þeir hafa sýnt það ásamt þeim Hirti og Ísak að þeir eru ekki langt á eftir þeim feðgum. "Sumarið er búið að vera frábært þótt mann hafi alltaf hungrað í eitthvað aðeins meira því það var möguleiki á því. Ég get kannski sagt það núna að það var ákveðið markmið sem ég var búinn að setja mér, ég ætlaði að reyna að bæta mig það mikið að ég ætlaði að komast fram úr Hirti og Palla. Annað sætið til Íslandsmeistara er frábær árangur. Það er synd að klára síðasta rall eins og við kláruðum það en eftir að hafa skoðað þetta eftir á þá var það nokkuð ljóst að ég hefði lent í þessu fyrr eða síðar, það var tæring í stýrisarmi sem hefði slitnað að lokum - þetta var bara spurning um hvar hann færi," sagði Baldur að keppni lokinni. "Maður hefði viljað klára þetta rall betur þar sem ég og Geir erum að hætta að keyra saman. Geir ætlar að taka sér frí frá þessu og ég þarf að finna mér nýjan mann og þjálfa hann upp. Það er ekki komið í ljós hver það verður en það er ljóst að sá aðili hefur mikið verk að vinna til að ná upp því sem Geir hafði þar sem Geir hafði mjög góð tök í að lesa í mig og ég var farinn að treysta honum 100% í því sem við vorum að gera. Hvaða markmið maður setur sér fyrir næsta tímabil verður að koma í ljós en það er ljóst að maður á ekki nema eitt markmið eftir en hvort að það næst verður bara að koma í ljós," sagði Baldur.

Páll Halldór og Jóhannes ætluðu sér að vera með í þessari baráttu en þeir hafa ekki haft erindi sem erfiði þar sem þeir hafa átt í miklum vandræðum í allt sumar. "Við náðum engan veginn að sýna okkar rétta andlit í þessari keppni frekar en í sumar. Þetta er búið að vera agalegt sumar, endalausar bilanir, allt smávægilegt. Túrbínan fer eftir hádegishlé í dag og við klárum þetta bara til að klára rallið. Við áttum aldrei möguleika á að gera neitt eftir að við fórum útaf á þriðju sérleið á fimmtudaginn og þannig fór sem fór," sagði Páll Halldór eftir en eitt rallið sem þeir þurftu að bíða lægri hlut fyrir bilunum í bílnum. Þetta var síðasta keppni þeirra á þessari bifreið og verður hún seld á næstu dögum, annaðhvort hér heima ef kaupandi finnst, annars verður hún send til Englands og seld þar. Þeir eru nú þegar farnir að skoða kaup á nýjum bíl, Mitsubishi Lancer EVO6.

Hjörtur kemur tvíefldur næsta sumar. Keppnistímabilið einkenndist af miklum hraða og mikilli spennu allt fram að alþjóðarallinu. Hjörtur sagði að gerðar hefðu verið ákveðnar breytingar á bílnum og þeim sjálfum fyrir þetta keppnistímabil og án efa hefur það skilað þeim góðum árangri því þeir voru efstir að stigum fyrir alþjóðarallið og þrátt fyrir að hafa misst af síðustu tveimur keppnunum enduðu þeir í þriðja sæti í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn að keppnistímabilinu loknu. "Það voru ýmis mál sem við vorum ekki ánægðir með í fyrra og við ákváðum að taka á þeim í sumar og það gekk allt eftir. Slagurinn var mikill í sumar og sérstaklega á Sauðárkróki og Hólmavík þar sem ekki er búið að keyra eins oft og þessar leiðir hér fyrir sunnan. Það var virkileg barátta hjá þessum þremur efstu áhöfnum og þrátt fyrir að Palli hafi bætt sig talsvert var heppnin ekki með honum og þetta gekk ekki alveg eftir hjá honum í sumar," sagði Hjörtur en þeir félagar, Hjörtur og Ísak, urðu fyrir því óhappi að velta skoðunarbíl sínum og gátu þeir ekki verið með það sem eftir var tímabilsins sökum áverka sem Hjörtur hlaut. "Þetta var auðvitað mjög óheppilegt þetta slys sem við lentum í og mjög slæmt að geta ekki tekið þátt í alþjóðarallinu þar sem næst verða tvö ár frá því að ég keyrði það síðast en ekki eitt ár, það skiptir máli hver einasti ekni kílómetri á þessum sérleiðum. Við stefnum á að koma aftur næsta sumar og halda áfram þar sem frá var horfið þar sem það verður ekki minni barátta næsta sumar," sagði Hjörtur.

Gunnlaugur Einar Briem skrifar