B&L hefur komið upp nýrri vefsíðu fyrir Bílaland, sem verslar með notaðar bifreiðar. Vefsíðan gefur kaupendum notaðra bifreiða kost á að skoða alla notaða bíla á skrá, og nota leitarvél sem hefur uppi á bílum eftir merkjum, árgerðum eða verði.

B&L hefur komið upp nýrri vefsíðu fyrir Bílaland, sem verslar með notaðar bifreiðar. Vefsíðan gefur kaupendum notaðra bifreiða kost á að skoða alla notaða bíla á skrá, og nota leitarvél sem hefur uppi á bílum eftir merkjum, árgerðum eða verði. Þá er unnt að gera tilboð í bíla og senda fyrirspurnir til sölumanna, svo fátt eitt sé nefnt.

Á vefnum er boðið upp á mismunandi flokka notaðra bíla þ.e.a.s. 7 stjarna bíla, sumarbíla, skólabíla, vetrarbíla, tilboðsbíla og bíla dagsins. 7 stjarna bílarnir eru allir með sérstök gæðavottorð frá Frumherja hf. og eru með allt að 3 ára ábyrgð. Sumarbílarnir hafa verið vandlega yfirfarnir af fagmönnum Bílalands og eru allir búnir nýjum geislaspilara, álfelgum og nýjum radial-sumardekkjum. Skólabílar eru ódýrari og hagkvæmari kostur fyrir námsfólk. Vetrarbílar Bílalands verða kynntir nánar þegar líða fer á haustið. Tilboðsbílar Bílalands eru seldir í því ástandi sem þeir voru í þegar B&L keypti þá og að sjálfsögðu seldir á lágmarksverði. Að lokum verður boðið daglega upp á bíl dagsins á sérstöku tilboðsverði, segir í fréttatilkynningu.

Á heimasíðu Bílalands er jafnframt hægt að nálgast ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir kaupendur að notuðum bílum. Til dæmis er þar að finna ábendingar um hvernig á að bera sig að við upplýsingaöflun, tilboðsgerð, ástandsskoðun, eigendaskipti og svo mætti lengi telja. Þar er að auki að finna gátlista fyrir bílakaupendur, segir í tilkynningunni.