[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
F JÖLSKYLDAN er ein af meginstoðum vestrænna samfélaga. Líku er farið með fjölmiðla og óhætt er að segja að sjónvarpið sé þar með sterkustu stöðuna.

FJÖLSKYLDAN er ein af meginstoðum vestrænna samfélaga. Líku er farið með fjölmiðla og óhætt er að segja að sjónvarpið sé þar með sterkustu stöðuna. Með þetta tvennt í huga er ekki að ósekju að þeir sjónvarpsþættir sem hafa haft fjölskyldudrama sem viðfang séu með allra vinsælasta afþreyingarefni sem sjónvarpið hefur getið af sér síðan saga þess hófst. Gildir þá einu hvort um er að ræða fjöldaframleiddar léttsápur eins og Guiding Light og Bold and the Beautiful, þætti sem taka á fólki "eins og mér og þér" eins og Coronian Street og Neighbours, eða þá sögur af ofurríku fólki eins og Dallas og Falcon Crest. Þessir þættir nutu og njóta gríðarmikilla vinsælda og trúfastir aðdáendur fylkja sér um þá í tonnavís.

Að mörgu leyti lúta svona þættir nokkuð skýrum reglum og lögmálum en þó hefur það gerst að menn hafa markmiðsbundið reynt að brjóta þau upp og eru hinir ótrúlegu þættir Twin Peaks líklega besta dæmið um slíka tilraun.

Sálarháski Tonys

Mánudaginn 2. október kl. 22.15 mun Ríkissjónvarpið hefja sýningar á bandarísku framhaldsþáttunum Sopranos sem hafa verið lofi ausnir nær stanslaust síðan þeim var ýtt úr vör þar vestra. Þáttaröðin er að hefja sitt þriðja tímabil í Bandaríkjunum en hún var tilnefnd til 16 Grammy-verðlauna í fyrra, 18 í ár og vann svo nýlega til þrennra verðlauna hjá Screen Actors Guild.

Þátturinn þykir vera það nýstárlegur og ferskur að menn hafa helst leitað til hinna súrrealísku þátta Twin Peaks, sem getið var hér áðan, til að finna hliðstæðu. Handrit, kvikmyndataka, persónusköpun, leikur - allt er þetta afbragð að mati þeirra sem séð hafa.

Þættirnir segja sögu Tony nokkurs Soprano, háttsetts meðlims mafíunnar í New Jersey. Sálartetrið er orðið fremur aumt hjá karli vegna stöðugrar togstreitu, bæði innan mafíufjölskyldunnar og hans eigin. Dag einn þyrmir gersamlega yfir Tony og hann afræður því að leita sér hjálpar hjá sálfræðingi.

Einkalíf Tonys stendur völtum fótum svo ekki sé nú meira sagt og flækjurnar leynast í hverju skúmaskoti. Hjónabandið hangir nokkurn vegin á bláþræði, hann er giftur kjarnakonunni Carmelu en hún og dóttirin Meadow rífast stöðugt. Sonurinn Anthony er heldur enginn eftirbátur í þessum efnum og hann og systir hans rífast einnig af hjartans list. Til að bæta gráu ofan á dimmu þrungið sálarlíf Tony veit sonurinn svo ekki af mafíutengslum föður síns. Við þetta allt saman bætist svo stöðugur taugatrekkingur er Tony tekst á við valdataflið og innherjapólitíkina sem er eðlilegur fylgifiskur glæpalífsins. Ungur frændi hans, Christopher, er metnaðargjarn ungkrimmi sem gerir allt vitlaust án þess að spyrja kóng eða prest, annar eldri frændi hans lætur einnig illa að stjórn og mamma hans neitar að fara á elliheimili! Og svo eru það keppinautarnir í hinni mafíuklíkunni...

Bruce Springsteen?

Leikarahópurinn í Sopranos samanstendur af leikurum sem einhverjir ættu að kannast við úr kvikmyndaheiminum þó enginn þeirra myndi teljast þungavigtarmaður í þeirri deildinni. Þekktasta nafnið er líklega Lorraine Bracco sem leikur hér hlutverk sálfræðingsins sem fær það erfiða hlutverk að greiða úr sálarflækjum Tony. Bracco hefur leikið í myndum eins og Basketball Diaries, Even Cowgirls Get The Blues, Medicine Man, Someone to Watch Over Me og Goodfellas en sú mynd skilaði henni tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir bestan leik í aukahlutverki. Tony sjálfur er leikinn af James Gandolfini, fremur lítt þekktum leikara sem hefur landað nokkrum sterkum aukahlutverkum í gegnum tíðina ásamt því að leika nokkuð á sviði. Myndirnar sem hægt er að sjá hann í eru t.d. Crimson Tide, Terminal Velocity, True Romance og Fallen.

Af öðrum leikurum ber helst að telja gamla brýnið Dominic Chianese (Godfather pt. II m.a.) og glöggir Bruce Springsteen aðdáendur munu efalaust kannast við hausklútshetjuna Steve Van Zandt, gítarleikarann úr hljómsveit Springsteen, E-Street Band, en hann leikur einn af skósveinum Tonys.