Eins og sjá má eru keppendur bara fólk eins og ég og þú
Eins og sjá má eru keppendur bara fólk eins og ég og þú
SVO virðist sem kvikmyndirnar The Truman Show og EDtv hafi skuggalega hliðstæðu við raunveruleikann ef marka má nýjasta æðið sem nú bylur á skjánum, nánar tiltekið á Skjá einum.

SVO virðist sem kvikmyndirnar The Truman Show og EDtv hafi skuggalega hliðstæðu við raunveruleikann ef marka má nýjasta æðið sem nú bylur á skjánum, nánar tiltekið á Skjá einum. Þátturinn Survivor hefur undanfarnar vikur verið á milli tannanna á sjónvarpsáhugafólki og sitt sýnist hverjum - er þetta tóm vitleysa eða hreinasta snilld?

Bygging þáttanna er annars á þá leið að sextán sjálfboðaliðum er komið fyrir á afskekktri eyðieyju. Þar eiga þeir svo að draga fram lífið á eigin hugviti og líkamsburðum í 39 daga ásamt því að keppast við að bola hver öðrum úr keppni. Allt þar til að einn maður stendur eftir - milljón dollurum ríkari.

Hið augljósa aðdráttarafl svona raunveruleikasjónvarps (e. reality tv) felst að sjálfsögðu í því að "aðalleikararnir" eru ósköp venjulegt fólk - Jónar og Gunnur sem hinn almenni áhorfandi á auðvelt með að spegla sig í - og því eðlilega æstur í að vita hvernig þeim muni reiða af.

Annar viðlíka þáttur sem nýtur mikilla vinsælda erlendis um þessar mundir er Big Brother, þar sem sjónvarpsvélar fylgjast með sjálfboðaliðum sem gert er að búa saman í húsi í 9 vikur. Það virðist því bara vera tímaspursmál hvenær ALVÖRU Truman Show-þætti verði hleypt af stokkunum.