Margrét Örnólfsdóttir ætlar að láta kylfu ráða kasti í tónlistarþættinum "Blindflug".
Margrét Örnólfsdóttir ætlar að láta kylfu ráða kasti í tónlistarþættinum "Blindflug".
MARGRÉT Örnólfsdóttir tónlistarmaður mun stýra nýjum vikulegum tónlistarþáttum á Rás 1 í vetur. Nefnast þeir Blindflug sem er skírskotun í inntak þáttanna en Margrét ætlar einfaldlega að spila hverja þá tónlist sem henni dettur í hug að spila.
MARGRÉT Örnólfsdóttir tónlistarmaður mun stýra nýjum vikulegum tónlistarþáttum á Rás 1 í vetur. Nefnast þeir Blindflug sem er skírskotun í inntak þáttanna en Margrét ætlar einfaldlega að spila hverja þá tónlist sem henni dettur í hug að spila. "Það er engin stefna," segir Margrét. "Ég hendi mér bara fram af hengifluginu á hverjum miðvikudegi og spila eitthvað sem mér finnst áhugavert og skemmtilegt." Ekki amaleg vinnuskilyrði það. "Já," samsinnir Margrét. "Það er líka af því að Ríkisútvarpið er svo frjálslynt, sérstaklega Rás 1." Margrét segir að þetta verði svona hálfgerð kjötsúpa. "Það verður til dæmis engin sérstök skipting hvað varðar klassík eða popp. Þetta getur því verið alveg frá barokki til tölvutónlistar." Það nægir að líta á efni tveggja fyrstu þáttanna til að sannfærast um þessa staðhæfingu. Í fyrsta þættinum verður hinn egypski Mozart kynntur (!) en í þættinum þar á eftir hyggst hún leika tónlist af spiladósum, smáum sem stórum. Margrét hefur blindflugið þann 4. október næstkomandi kl. 10. 15. og þættirnir verða svo endurfluttir sama kvöld kl. 20.30.