Á sínum tíma var Ecco talinn glæsilegasti tölvuleikur heims. Ingvi Matthías Árnason skoðaði nýjustu útgáfu leiksins sem hann segir vera með rosalegri grafík.

FLESTIR Sega-eigendur muna líklega eftir leik að nafni Ecco The Dolphin, ævintýraleik í tvívídd sem var lengi talinn flottasti leikur í heimi fyrir leikjatölvur. Nú er öldin önnur og Ecco The Dolphin hefur verið gefinn út að nýju fyrir Dreamcast-tölvur Sega-fyrirtækisinns, en eykur leikurinn hróður höfrungsins Ecco eða dregur úr honum?

Í Ecco the Dolphin: Defender of the Future taka spilendur sér hlutverk höfrungsins Ecco. Leikurinn gerist í hliðstæðum heimi þar sem menn og höfrungar búa saman í sátt og samlyndi, en Ecco er einn af smáum hópi höfrunga sem eru að reyna að vernda jörðina fyrir árás illskeyttra geimvera.

Ecco verður að ferðast um tímann til þess að sigra geimverurnar og liggur leið hans jafnvel til annarra plánetna. Á leiðinni verður hann að verjast árásum hákarla, kolkrabba, krókódíla og varast allskonar hættur í umhverfinu.

Þrír heimar eru alls í leiknum en hver þeirra skiptist í marga hluta. Til þess að komast á milli hluta verður að leysa ýmiss konar þrautir og öðlast nýja hæfileika á leiðinni. Í hverju borði eru vinveitt dýr sem geta kennt Ecco nýja söngva til þess að stjórna dýrum sjávarins. Einnig eru ýmiss konar kristalar og sérstakir "vitalit"-steinar sem auka orku hans og gera honum kleift að vera lengur í kafi.

Risastór og afar flókin borð

Borðin eru flest hver risastór og afar flókin, sum eru langt neðansjávar í hellum og göngum þar sem Ecco verður að ná sér í loft úr sprungum á veggjunum eða opna skeljar sem eru fullar af súrefni. Til þess að týnast ekki í þessum flókna heimi notast hann við sónarmerki sem búa til kort af umhverfinu.

Afar þægilegt er að stjórna Ecco en þó tekur svolítinn tíma að venjast hlutum eins og að stökkva og snúa sér við á ferð. Þegar búið er að æfa sig nóg er þó fátt skemmtilegra en að synda bara um, hoppa og leika sér.

Grafík leiksins er rosaleg, umhverfið er allt á hreyfingu og sjórinn er ótrúlega flottur. Hreyfingar leiksins eru afar raunverulegar og hefur greinarhöfundur persónulega aldrei séð annað eins. Öðru hverju kemur þó fyrir að tölvan hægir aðeins á sér en það er oftast aðeins í sekúndu eða svo og truflar lítið sem ekkert.

Hljóðið er mjög flott, róleg ambient-tónlist rúllar stöðugt í bakgrunninum og sjórinn bætir inn í sinfóníuna með ýmiss konar "bleytu"-hljóðum. Þau dýr sem Ecco getur talað við tjá sig með hátíðnihljóðum eins og hvalir, en hljóðin voru tekin upp í sædýrasafni.

Aðeins of erfiður

Vandamálið er að Ecco The Dolphin er einfaldlega aðeins of erfiður. Í hverju borði eru krystalar sem tala í gátum sem spilandinn verður að ráða svo hann viti hvað hann á að gera. Venjulega eru gáturnar ekki svo erfiðar en upplýsingarnar sem þær gefa spilendum eru svo litlar að það er fáránlegt. Þetta eykur að vísu ánægjuna þegar maður loksins fattar hvað maður á að gera en verður samt oft ansi þreytandi.

Allir með þolinmæðina í lagi ættu að kíkja á Ecco The Dolphin við fyrsta tækifæri.