Gunnar, sem hefur safnað hátt í hundrað heilum tölvum, heldur á einum af dýrgripum safnsins, Atari 2600, leikjatölvu frá 1976.
Gunnar, sem hefur safnað hátt í hundrað heilum tölvum, heldur á einum af dýrgripum safnsins, Atari 2600, leikjatölvu frá 1976.
Gunnar Ingvarsson hefur undanfarin þrjú ár sinnt óvenjulegu áhugamáli: Hann safnar gömlum og fágætum tölvum. Á skömmum tíma hefur honum tekist að komast yfir hátt í 100 heilar tölvur. Hann sagðist í samtali við Gísla Þorsteinsson hvergi hættur og hefur á prjónunum að opna safn þar sem þessi tæki verða til sýnis.

FJÖLMARGAR vélanna eru frá níunda áratugnum og ekki að ástæðulausu. Þá var Gunnar að slíta barnsskónum í Reykjavík en hann segist hafa leikið sér í tölvuleikjum frá 10 ára aldri. "Ég spilaði grimmt í spilakassasölunum í kringum 1984-85 og það má segja að allir mínir peningar hafi farið í slíka leiki. Í seinni tíð hafa þessir leikir týnt tölunni hver af öðrum en áhuginn alltaf blundað í mér og það má segja að með þessari söfnunaráráttu sé ég að endurupplifa bernskuár mín. Þetta eru hlutir sem mig langaði alltaf í og nú hef ég loksins tækifæri á að eignast þá."

Upphafið að þessari söfnun má rekja til ársins 1996 er Gunnar komst yfir forrit á Netinu, sem gerði honum kleift að spila gömlu kassaleikina í tölvum. Forritið heitir MAME [Multiple Arcade Machine Emulator] og er hægt að finna á www.mame.net . Það virkar með þeim hætti að rafrásirnar og kubbarnir, sem voru í spilakössunum, eru lesin og búið til forrit sem keyrir fyrir PC-vélar. "Þessi MAME-hermir keyrir 2.500 kassaleiki í dag. Það er því hægðarleikur fyrir hvern sem er að sækja gömlu kassaleikina, eins og Pacman og Donkey Kong og fleiri, af Netinu og spila þá með þessu forriti. Þróunin í þessum netleikjum er hröð og nú er hægt að fá forrit sem gera notanda kleift að spila Nintendo og PlayStation-leiki í PC-tölvum."

Skipti á nýju sjónvarpi og NEGO-vél

Gunnar segir að á ákveðnum tímapunkti hafi hann verið búinn að kynna sér allt sem máli skipti um gömlu leikjavélarnar en fannst það ekki nóg. "Það var því fyrir þremur árum sem ég byrjaði að safna gömlum tölvum, bæði leikjavélum og svo hefðbundnum tölvum, sem hafa verið fluttar inn til Evrópu. Í upphafi náði ég mér í gamlar vélar sem vinir og kunningjar áttu og þegar ég var búinn að ná mér í allar gömlu tölvurnar þeirra hóf ég að inna vinnufélaga mína í Tæknivali eftir því hvort þeir ættu einhvers staðar gamlar tölvur heima hjá sér. Þegar ég var búinn að komast yfir allt sem ég gat hér á landi hóf ég í upphafi ársins að kaupa þessar tölvur í gegnum uppboðssíður á Netinu."

Það kostar nærri 10 þúsund krónur að panta sér meðalvél í gegnum Netið. Gunnar segir ekki dýrt að kaupa vélarnar sjálfar en það sé dýrt að flytja þær inn og tollagjöldin eru að hans sögn há. "Það má segja að fyrir vél sem kostar 2-3 þúsund krónur þurfi ég að borga hátt í 10 þúsund til þess að fá hana inn í landið. Er þar enginn greinarmunur gerður á 20 ára gömlum hlut eða nýrri tölvu sem kemur til landsins." Hann kveðst því leggja talsvert á sig í fjárhagslegu tilliti til þess að eignast tölvur og bendir á að hann hafi meðal annas skipt á tölvu og splunkunýju sjónvarpi. "Ég lét einu sinni nýtt sjónvarpstæki fyrir eina NEGO-leikjatölvu, en slík tölva er verðmæt og sjaldgæf. Það er enn hægt að kaupa slíkar vélar, en nýjar kosta þær milli 40 og 50 þúsund krónur. Ætli ég sé ekki búinn að eyða hátt í eina milljón króna í þetta áhugamál, aðallega á síðustu tveimur árum." Aðspurður hvað eiginkonu hans finnist um þetta áhugamál segir Gunnar að hún láti sér það í léttu rúmi liggja svo lengi sem tölvurnar séu ekki inni á heimili þeirra. Því hafi hann flutt allflestar í geymslu í húsnæði Tæknivals, þar sem hann starfar sem vörustjóri afþreyingar. Hann segist hins vegar enn hafa sex mismunandi tölvur heima við.

Hátt í 100 tölvur sem eru heilar

Aðspurður segist Gunnar búinn að safna um 100 tölvum, leikjavélum og tölvum sem hann segir í fullkomnu ástandi. Þá á hann yfir 50 minni leikjatölvur, sem keyra á rafhlöðum og spilendur geta haldið á og spilað á tveimur kristalsskjám. Í heild kveðst hann eiga því um 200 tölvur af öllum stærðum og gerðum. Hann segir að safnið verði með tíð og tíma æ merkilegra og bendir á ýmsar gerðir tölva sem hann hefur komist yfir. Hann segir að sú tölva sem sé líklegasta sú óvenjulegasta sé Commadore 64s-ferðavél. "Hún er frá 1985 og framleidd í Bandaríkjunum í eitt ár í takmörkuðu upplagi. Ég held að milli 60 og 70 þúsund vélar hafi farið á markaðinn en vegna þess hve bilanatíðni er há í vélunum hefur þeim fækkað með árunum. Þá á ég aðra skemmtilega vél sem heitir Ameca CD-TV, sem er ekki svo gömul en markaðssetningin á henni mistókst og vélin gekk aldrei. Hugsanlega hafa farið um 100 þúsund vélar á markaðinn en þær eru mjög eftirsóttar á uppboðslistum á Netinu. Einnig má nefna ZX 81, sem er frá Sinclair-fyrirtækinu. Sú vél kom út árið 1981 og er fyrirrennari ZX Spectrum, sem kom á markað 1982-3 og varð fyrsta tölvan til þess að hljóta alþjóðahylli. Fyrirtækið var nefnt eftir eiganda þess, Clive Sinclair, sem síðar gerði fyrirtækið gjaldþrota. Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi hætt starfsemi er enn eftirspurn eftir Sinclair-tölvum og ZX 81 er afar eftirsótt í dag. Hún kostaði milli 7 og 8 þúsund krónur út úr verslun er hún kom út á sínum tíma. Hún er seld í gegnum Netið á milli 30 og 35 þúsund krónur, ef tölvan er í góðu ásigkomulagi."

Tölvur með sál

Það er erfitt að bera saman gömlu tölvurnar sem Gunnar safnar og þær sem eru framleiddar í dag. Hann segir að gömlu vélarnar hafi verið framleiddar af frumkvöðlum sem lögðu nótt við nýtan dag við að búa eitthvað til og lögðu sál sína í verkið. "Allt er hins vegar fjöldaframleitt í dag. Glansinn er því að mestu leyti farinn af þessum markaði og allt snýst um markaðssetningu á tölvum. Sem dæmi má nefna PlayStation-leikjavélina, sem er langt í frá öflug vél. Engu að síður er vélin, þökk sé öflugri markaðssetningu, ein mest selda leikjavélin í dag. Það má líkja upphafsárunum í framleiðslu á tölvum við það þegar bíllinn kom fyrst á götuna. Þetta er tími sem kemur aldrei aftur. Það er reyndar ekki langt síðan fyrstu tölvurnar komu á markað en þróunin er svo hröð að þessar gömlu tölvur eru fljótar að hverfa. Það eru ekki margir sem safna svona tölvum en ég veit um einn annan, er býr í Ólafsvík sem hefur safnað tölvum og við erum að velta fyrir okkur að sameina krafta okkar. Ég veit þá um annan á Akureyri, sem mér skilst að safni tölvum, en ég hef ekki haft samband við hann."

Langar að opna tölvusafn

Það er engan bilbug að finna á Gunnari í leit hans að gömlum tölvum, enda margar sem hann hefur ekki komið höndum yfir. "Mér telst til að það séu 1.500 vélar sem hafa verið framleiddar í gegnum árin. Það voru ólíklegustu fyrirtæki og lönd sem framleiddu tölvur á árum áður. Það er því bráðnauðsynlegt að safna tölvum sem þessum. Það er til fólk sem safnar gömlum útvarpstækjum. Það er af hinu góða enda eru þessi tæki fljót að hverfa og ein tölva sem slík er einskis virði. Það er ekki fyrr en búið er að setja á fót heildarsafn sem þessar tölvur öðlast eitthvert gildi. Ég sé fyrir mér í framtíðinni að koma á fót safni þar sem þessar tölvur verða til sýnis. Ég vil hins vegar safna fleiri vélum áður en það verður að veruleika."