Pokémon-aðdáendur verða líklega ánægðir að vita að Hal Laboratories gáfu nýlega út Pokémon-leik fyrir Nintendo 64, Nintendo gefur leikinn út í Evrópu og nefnist hann Pokémon Stadium.

MEÐ Pokémon Stadium fylgir sérstakur Nintendo Transfer Pak sem gerir spilurum kleift að flytja Pokémon-skrímslin sín frá Game Boy-tölvunum yfir á 64. Fjölmargir valmöguleikar standa svo spilurum til boða, hægt er að spila í Stadium Mode þar sem áttatíu viðureignir eru háðar í fjórum riðlum. Einnig er hægt að keppa á móti öllum þjálfurunum sem eru til í Pokémon-heiminum, þannig er hægt að vinna átta frekar sjaldgæf Pokémon og geyma á tölvunni eða flytja yfir á Game Boy-hylkið, hægt er að raða Pokémonunum sínum upp á nýtt og skoða skrá með upplýsingum og myndum af hverju einasta Pokémon sem búið hefur verið til.

Svo geta mest fjórir keppendur barist hver við annan samtímis. Hægt er að skoða kort sem sýnir líklegustu staðina til þess að veiða Pokémon í Game Boy-leikjunum, spila Game Boy-leikina á sjónvarpsskjánum, finna leyniborð með áttatíu viðureignum í viðbót og margt fleira.

Til þess að koma í veg fyrir að allur leikurinn yrði unninn með kraftmestu Pokémon-skrímslunum setti Nintendo inn mikið af nýjum reglum sem ekki eru til staðar í Game Boy-útgáfunni. Núna þarf því að spara þá bestu fyrir erfiðustu viðureignirnar og skipuleggja sig mun betur. Þess má geta að þetta verður væntanlega staðall í næstu kynslóð Pokémon-leikja fyrir Game Boy Advanced-tölvurnar. Einnig er hægt að stilla hraða leiksins svo að það taki skrímslin styttri tíma að lækna sig og svo framvegis.

Grafík leiksins er mjög flott, allar orrusturnar eru í þrívídd og allar hreyfingar mjög vel gerðar. Sumir hlutar leiksins eru mjög flóknir, sérstaklega fyrir einhvern sem veit ekki neitt um Pokémon (eins og greinarhöfund) en þó er hægt að fá hjálp við flesta hluta leiksins og allt er mjög stílhreint og fínt. Bardagarnir verða þó flottastir þegar lengra er komið og skrímslin læra almennilegar árásir.

Smáatriði leiksins eru mörg og ótrúlega flott, þegar maður loksins tekur eftir þeim. Hljóð leiksinns er gott. Tónlistin er sú sama og í sjónvarpsþáttunum um Pokémon og baráttu- og Pokémon-hljóðin líka. Kynnirinn er þó mjög pirrandi og það er ekki hægt að slökkva á honum. Ef einhvað gerist á skjánum eru svona níutíu prósent líkur á að spilarinn skilji hvað er að gerast, en samt vill kynnirinn alltaf vera að segja manni allt. Setningar eins og: "Það er munur á hversu mörg Pokémon spilarar eiga eftir" fengu greinarhöfund til þess að langa að slökkva á tölvunni.

Þar sem Pokémon Stadium hefur engan söguþráð og lítið annað gerist en orrusturnar sjálfar er afar ólíklegt að nokkur nema þeir sem eiga Game Boy-leikina og hafa brennandi áhuga á Pokémon hafi gaman af þessum leik. Enginn ætti heldur að búast við því að geta bara tekið upp stýripinnann og haft gaman af leiknum til að byrja með.