Palm-lófatölvufyrirtækið, www.palm.com , hefur greint frá því að það sé að vinna með RealVision í Hong Kong og ætlun fyrirtækjanna sé að búa til farsíma sem verður hægt að koma fyrir í lófatölvunum.

Palm-lófatölvufyrirtækið, www.palm.com , hefur greint frá því að það sé að vinna með RealVision í Hong Kong og ætlun fyrirtækjanna sé að búa til farsíma sem verður hægt að koma fyrir í lófatölvunum. Tæknin er með þeim hætti að íhlut er komið fyrir aftan á tegundunum V og Vx og tengt með raðtengi. Þá fylgir heyrnartól svo notendur geti horft á skjá tölvunnar á meðan þeir tala. Þá er gert ráð fyrir að senda og taka á móti stuttum skilaboðum og upplýsingum af Netinu. Þá er Palm í samvinnu við Motorola um að framleiða farsíma sem getur tengst Netinu, en slíkur sími er væntanlegur árið 2002.

Bach-vefsetur

Búið er að opna viðamikið tónlistarsafn á Netinu til heiðurs þýska tónlistarmanninum Johann Sebastian Bach, sem nefnt er Bach Digital Project, www.bachdigitalproject.org . Á vefsetrinu, sem er sagt eitt það víðfeðmasta sinnar tegundar, er í raun gagnagrunnur yfir handrit tónlistarmannsins, sem lést fyrir 250 árum og valdar útsetningar. Tölvufyrirtækið IBM, ríkisbókasafnið í Berlín í Þýskalandi ásamt sex öðrum stofnunum í Þýskalandi og Bretlandi stóðu að vefsetrinu.

Höfundur Tsjernobyl-vírussins handtekinn

Yfirvöld í Taívan hafa handtekið Chen Ing-Hau, sem er þekktur fyrir að hafa búið til alræmdan Tsjernobyl-vírus. Hann veldur óskunda í tölvum á sama degi ár hvert og kjarnorkuslysið í Tsjernobyl varð á sínum tíma. Vírusinn olli gríðarlega miklu tjóni víða er honum var hleypt af stað í fyrra. Má nefna að tjón af völdum vírussins í S-Kóreu nam 20 milljörðum ísl. króna á síðasta ári. Þrátt fyrir tjón komst höfundur hjá refsingu því yfirvöld í Taívan lögðu ekki fram neina kæru. Chen var hins vegar handtekinn í síðustu viku því landi hans, sem fékk vírusinnn í tölvuna sína í apríl, lagði fram kæru. Ef Chen verður fundinn sekur fyrir eyðileggingarstarfsemi getur hann þurft að dúsa allt að þrjú ár í fangelsi.

420 milljónir farsíma seldar

Gert er ráð fyrir að um 420 milljónir farsíma verði seldar í heiminum á þessu ári. Mikil sala var á farsímum í heiminum frá mars og fram í júní, en þá seldust 98 milljónir síma. Nokia er stærsti framleiðandinn á þessu tímabili, seldi 27 milljónir farsíma. Motorola var í öðru sæti, seldi 15 milljónir og Ericsson seldi 10 milljónir. Þá seldu Panasonic, Alcatel, Siemens og NEC fimm milljónir farsíma hvert, að því er fram kemur í netmiðlinum The Register. Aðrir framleiðendur seldu minna.