Bjarki og Jón Hrólfur hafa í sameiningu unnið að ýmsum verkefnum er lúta að tónlist og tónlistarsögu fyrir Netið.
Bjarki og Jón Hrólfur hafa í sameiningu unnið að ýmsum verkefnum er lúta að tónlist og tónlistarsögu fyrir Netið.
Tónlistarvefurinn Musik.is, www.musik.is, var opnaður í upphafi árs 1995. Á rúmlega fimm árum hefur Jón Hrólfur Sigurjónsson tónlistarkennari safnað að sér hátt í sex þúsund slóðum um tónlist og tónlistarmenn, innlenda sem erlenda. Gísli Þorsteinsson ræddi við Jón Hrólf og Bjarka Sveinbjörnsson, tónlistarfræðing sem hafa stofnað fyrirtækið Músik og saga í tengslum við sameiginlegan áhuga þeirra að gera íslenska tónlist og tónlistarsögu aðgengilega á Netinu.

F yrsta útgáfu af musik.is átti sér ekki langan aðdraganda því Jón Hrólfur segir að hann hafi búið vefinn til á nokkrum dögum í jólaleyfi 1994 og komið honum á Netið í upphafi árs 1995. "Ég hafði lengi velt því fyrir mér að opna vef sem yrði nokkurs konar gátt þar sem tónlistaráhugafólk gæti nálgast allt er snerti íslenska tónlist. Það var síðan í jólaleyfinu sem ég tók af skarið og byrjaði að vinna að uppsetningu vefjarins. Ég kunni auðvitað ekkert fyrir mér í forritun en var duglegur að skoða hvernig aðrir fóru að á upphafsdögum Vefjarins og opnaði hann undir mínu persónulega netfangi: rvik.ismennt.is/~jonhs og kallaði vefinn Tónlistarsíðuna en hann fékk í janúar á þessu ári nafnið Musik.is. Þetta hefur því verið áhugamál mitt síðustu árin. Það tók ómældan tíma í upphafi en nú er vinnan orðin auðveldari og ég sest niður fyrir framan tölvuna nokkur kvöld í viku og bæti inn nýjum upplýsingum og tek það sem er orðið úrelt."

Slóðirnar nálgast að verða sex þúsund talsins

Aðspurður um hve mörgum slóðum hann hafi sankað að sér í gegnum árin á musik.is segir Jón Hrólfur þær vera að nálgast sex þúsund um tónlist og tónlistartengt efni, bæði innlent og erlent. Hann segir að sumar gætu reynst dauðar enda væri erfitt að fylgjast með öllum slóðum sem hann er búinn að ná sér í.

Jón Hrólfur segir að markmiðið með tónlistarvefnum sé að búa til eina gátt á Netinu þar sem fólk getur fundið allt sem máli skiptir um íslenska tónlist og þótt víðar væri leitað. "Þá eru hugmyndir um að búa til rannsóknargagnagrunn þar sem hægt er að skoða eldri gerðir af handritum og upplýsingar um tónlist og tónlistarlíf á árum áður."

Jón Hrólfur hóf fyrir nokkru síðan samstarf við Bjarka Sveinbjörnsson tónlistarfræðing en þeir hafa stofnað fyrirtæki í kringum sameiginlegan áhuga þeirra á að gera íslenska tónlist og tónlistarsögu aðgengilega á Vefnum. Þeir eiga fyrirtækið Músik og saga sem þeir segja að hafi að markmiði að fjalla um íslenska tónlist, tónlistarsögu og rannsóknir með aðstoð Netsins. Þeir segjast vera með ýmis verkefni í smíðum sem þeir hafi hug á að setja inn á Netið í nafni fyrirtækisins. Bjarki, sem er dagskrárgerðarmaður á Rás 1, hefur til að mynda unnið að því undanfarin þrjú ár að koma öllum tónlistarhandritum á Landsbókasafni í einn gagnagrunn á Netinu sem verður opnaður í haust. Er sá vefur unninn í samvinnu við Landsbókasafn Íslands - háskólabókasafn og styrktur af Vísindasjóði og fleirum. Þar eru allar myndir af tónlistarhandritum í Landsbókasafni fram að 1800 og allar elstu hljóðritanir á söng sem til eru hér á landi, sú elsta frá 1903. Þar er einnig að finna vaxhólkahljóðritanir af íslenskum sálma- og þjóðlagasöng í upphafi 20. aldar sem Jón Pálsson og Jón Leifs hljóðrituðu. Eru þetta elstu hljóðritanir sem til eru.

Fleiri rannsókna- verkefni í bígerð

"Slíkur grunnur er gott dæmi um það sem við viljum setja inn á vefinn okkar. Þá erum við að vinna að því að gefa út handrit að bók eftir Baldur Andrésson sem heitir Tónlistarsaga Reykjavíkur. Við komumst yfir þetta óútgefna handrit, sem er um 450 vélritaðar síður, á sínum tíma og ætlum okkur að setja það í heild sinni á Netið en við höfum fengið leyfi erfingja Baldurs til að nota það. Í þessari bók er yfirlit yfir tónlist frá miðöldum og tónlistarfólk og -líf í Reykjavík fram að 1950," segir Bjarki. "Við erum að vinna að öðru verkefni sem felst í að safna saman öllum tónlistarprógrömmum er við höfum komist yfir. Þetta eru prógrömm í kílóavís sem við höfum komist yfir annað hvort með því að kaupa þau á fornbókasölum eða fá gefins. Er markmiðið að skanna inn þessi prógrömm og koma fyrir í gagnagrunni sem sennilega yrði sérstakur vefur, e.t.v. í tengslum við Tónlistarsögu Reyjavíkur. Með þessum hætti verður hægt að sjá hvenær tónlistarfólk eða ljóðahöfundar komu fram á hverjum tíma fyrir sig. Þannig gerum við okkur vonir um að fá heildstæða mynd af tónlistarlífi í Reykjavík frá fyrri hluta aldarinnar fram að 1960-70."

Allt að 20 þúsund heimsóknir á mánuði

Musik.is hefur fengið allt að því 20 þúsund heimsóknir á mánuði þegar best lætur en hefur í sumar fengið milli 13-15 þúsund heimsóknir. "Aðsóknin er vaxandi og er í raun mikil í ljósi þess að síðan hefur aldrei verið kynnt opinberlega." Jón Hrólfur bendir einnig á að um helmingur þeirra sem sækja Vefinn séu skráðir með lénið .is en aðrir koma frá öðrum lénum. Jón Hrólfur segir að þar sem ætla mætti að fjöldi komi erlendis frá hafi hann árið 1998 sett upp enskar upphafs- og undirsíður til þess að leiðbeina erlendum notendum um Musik.is. "Þá komum við upp vef með íslenska þjóðsöngnum. Upphaflega kom fyrirspurn til okkar frá Brasilíu þar sem viðkomandi var með spurningar um hvar hægt væri að nálgast íslenska þjóðsönginn á Netinu. Við brugðumst skjótt við og fengum leyfi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, kór Langholtskirkju og stjórnarráðinu að setja nokkrar MP3-tónlistarskrár eða Real Audio af þjóðsönginum á Netið," segir Bjarki. Á þessari síðu er enn fremur hægt að hlusta á nokkrar sögulegar hljóðritanir af þjóðsöngnum, til dæmis frá Lúðrasveit Reykjavíkur 17. júní 1944 og kórs undir stjórn Páls Ísólfssonar á Þingvöllum sama dag 1944. Þá eru þarna lög um þjóðsöng Íslendinga og þarna má nálgast fyrsta erindi ljóðsins á átta tungumálum auk ítarlegs formála um tilurð lags og ljóðs á www.musik.is/lofsaungur. Er vefurinn nú tæpar 150 síður.

Eins og hver önnur della

Jón Hrólfur segir að þegar hann hugsi til baka sé í raun merkilegt að einhver áhugamaður skuli hafa tekið að sér að búa til vef sem þennan en ekki einhver félagasamtök eða stofnun því Netið sé stórkostlegur miðill. "Það sem er einnig heillandi við Netið er að einhver náungi sem var að vefa úti í bílskúr gat haft jafnmikla nálægð og vefir stórfyrirtækja. Það má líta á þetta eins og hverja aðra dellu. Í stað þess að liggja til dæmis undir einhverjum jeppa og hækka hann og breyta á alla kanta sitjum við fyrir framan tölvuna og skráum það sem tengist íslenskri tónlist yfir á Netið."

Bjarki leggur orð í belg og segir að þeir finni fyrir vaxandi áhuga fólks á Musik.is enda sé vefurinn sá eini sinnar tegundar hér á landi. "Það er engin stofnun sem sinnir svona sögulegri upplýsingamiðlun.Við höfum aflað okkur ómældrar þekkingar á íslenskri tónlist í gegnum árin og það væri draumurinn ef við gætum kastað okkur af fullum krafti í að gera tónlist og tónlistarsögu skil á Netinu."