Meðal laga á www.undirtonar.is eru endurhljóðblönduð lög með Gus Gus á MP3-formi.
Meðal laga á www.undirtonar.is eru endurhljóðblönduð lög með Gus Gus á MP3-formi.
Blaðið Undirtónar, www.undirtonar.is , hefur opnað MP3-síðu þar sem ætlunin er að gefa lesendum síðunnar færi á að sækja sér íslenska tónlist á MP3-tónlistarskrám.

Blaðið Undirtónar, www.undirtonar.is , hefur opnað MP3-síðu þar sem ætlunin er að gefa lesendum síðunnar færi á að sækja sér íslenska tónlist á MP3-tónlistarskrám. Ísar Logi Arnarsson, ritstjóri hins fjögurra ára gamla blaðs, Undirtóna, segir að það sé fyrst og fremst tónlistarblað og því hafi sú hugmynd þróast að gefa lesendum möguleika á að hlusta einnig á þá tónlist sem væri til umfjöllunar á síðum blaðsins.

"Við höfum orðið varir við að tónlist á Netinu er það sem er hvað vinsælast og sá iðnaður sem hefur sprottið í kringum tónlist á Netinu vex stöðugt. Þesssi vefur okkar er því nokkurs konar leikvöllur þar sem við ætlum að prófa okkur áfram og reyna að fá framleiðendur/útgefendur og tónlistarmenn í lið með okkur. Viljum við reyna að fjölga útgáfum á smáskífum í netformi, búa til nokkurs konar smáskífumenningu en slík útgáfa hefur verið laus í reipum hér á landi."

Undirtónar hafa þegar sett íslensk lög inn á síðuna sína, meðal annars þrjú endurhljóðblönduð lög [remix] með Gus Gus og lagið Hunter, í nýrri útsetningu, sem er með Björk. Þá er þar að finna erlend lög og tengla í erlendar MP3-síður. MP3 er til dæmis notað til þess að flytja tónlist til og frá netmiðlurum. Lög á MP3-sniði taka mun minna pláss en annars, en halda þó nánast fullum gæðum.

Ísar sagði að vefur Undirtóna, sem er nýlega kominn á Netið, hafi fengið góðar viðtökur og fái að meðaltali um eitt þúsund heimsóknir á dag.