Guðmundur, Ragnar og Hjörtur og diskar sem nemendur  hafa unnið.
Guðmundur, Ragnar og Hjörtur og diskar sem nemendur hafa unnið.
Verkefni nemenda úr Margmiðlunarskólanum, www.mms.is , hefur komist í úrslit í EuroPrix 2000 Top Talent Festival- margmiðlunarhátíðarinnar.

Verkefni nemenda úr Margmiðlunarskólanum, www.mms.is , hefur komist í úrslit í EuroPrix 2000 Top Talent Festival-
margmiðlunarhátíðarinnar. Verkefnið, sem var margmiðlunardiskur fyrir Spaksmannsspjarir, var valið í sérstakan nemendaflokk [Stutents award] ásamt 14 öðrum verkefnum víðs vegar að úr Evrópu. Rúmlega 90 sendu inn verkefni í þennan flokk. Þeir sem unnu diskinn, sem var lokaverkefni á síðasta vetri, voru Guðmundur S. Þorvaldsson sem var verkefnastjóri, Ragnar Hansson sem stjórnaði myndbandavinnslu og tónlist, Jón Axel Egilsson sem sá um handrit og myndbandatöku, Orri S. Guðjónsson hannaði útlit og vann Flash fyrir diskinn og að lokum var það Sesselja Björnsdóttir sem sá um grafíska hönnun. Þá samdi Björn Snorri Rosdahl tónlistina á diskinum. Þeir Guðmundur og Ragnar halda ásamt Hirti Guðnasyni, gæðastjóra Margmiðlunarskólans, til Vínar í Austurríki í dag, en þá verða þau verkefni kynnt sem komast í fimm liða úrslit. Hjörtur sagði að margmiðlun hefur þróast mjög hratt á undanförnum árum bæði er varðar tækni og útbreiðslu. "Margmiðlun verður sífellt aðgengilegri hvort sem það er í gegnum Netið eða margmiðlunardiska. Í harðnandi samkeppni á þessu sviði er sífellt lögð meiri áhersla að efnið sé bæði aðgengilegt og aðlaðandi í útliti þannig að sem flestir vilji nota þennan nýja miðil. Það að komast í þessi úrslit er ekki bara viðurkenning um góð vinnubrögð nemendanna heldur sýnir væntanlega að það nám sem stendur til boða hjá Margmiðlunarskólanum er eins og best verður á kosið. Það er mikil upphefð að komast í úrslit og það verður spennandi að sjá hvernig nemendunum gengur í keppninni."

EuroPrix margmiðlunarkeppnin var sett á laggirnir árið 1998 undir nafninu The EuroPrix MultiMediaArt af efnahagsmálaráðuneyti Austurríkis. Hjörtur sagði að keppni væri orðin miðdepill þeirra sem vilja fá tækifæri til að kynnast því besta sem þessi iðnaður er að gera í hvert sinn. Öllum löndum í Evrópu er heimil þátttaka í þessari keppni. Um 70 nemendur eru í Margmiðlunarskólanum, en hann var stofnaður af Rafiðnaðarskólanum og tölvuskóla Prenttæknistofnunar.