Nú þegar Ólympíuleikarnir eru vel á veg komnir hefur komið í ljós hvaða þjóðir það eru sem hlotið hafa flesta verðlaunapeninga fyrir árangur á mótinu.

Nú þegar Ólympíuleikarnir eru vel á veg komnir hefur komið í ljós hvaða þjóðir það eru sem hlotið hafa flesta verðlaunapeninga fyrir árangur á mótinu. Sem fyrr eru Bandaríkjamenn, Kínverjar og Rússar búnir að ná til sín flestum verðlaunapeningum en heimamenn, Ástralar, vilja ekki vera neinir eftirbátar annarra og fylgja þeim fast á eftir. Þegar þetta er skrifað höfðu Bandaríkjamenn unnið til 59 verðlauna, Rússar og Kínverjar 48 hvor og Ástralar til 43 verðlauna. Næstir komu Frakkar með 32 verðlaunapeninga og virtust langt frá því að narta í hæla andstæðinga sinna. Ástralar eru lukkunar pamfílar með árangur íþróttafólks landsins en bent hefur verið á að þessi árangur sé ekki helber tilviljun heldur merki um markvisst íþróttastarf. Sem dæmi er greint frá því í The New Scientist að allt frá því að Ástralar voru valdir til þess að halda leikana í Sydney fyrir sex árum síðan hafa stjórnvöld styrkt verkefni til þess að fá börn til þess að stunda íþróttir. Verkefnið þykir verulega umdeilt en í því eru gerðar ýmiss konar kannanir á þeim sem taka þátt. Til þess hefur verið beitt "nútímalegum aðferðum," svo sem til þess að finna "réttu íþróttina" fyrir barnið. Notað er sérstakt forrit til þess að mæla ólíklegustu hluti í líkamsbyggingu barna: hæð, þyngd og bilið milli góma þumalfingurs og litla fingurs svo dæmi séu tekin og finna hvaða eiginleika börn og unglingar hafa svo hægt sé að finna þá íþrótt sem henti best. Þá eru gerðar margs konar kannanir á börnum, svo sem ef einhver er góður í að stökkva uppréttur bendir forritið á íþróttagrein þar sem krafist er þess að viðkomandi noti krafta fótleggjanna. Á sex árum hefur verið komið auga á 200 þúsund börn og unglinga á aldrinum 13-16 ára en aðeins 1% þeirra hafa verið valin til æfinga og hafa nokkur þeirra skilað verðlaunapeningum eftir því sem aldurinn færist yfir þau. Þrátt fyrir að árangurinn virðist góður í orði eru deildar meiningar uppi um þetta verkefni. Meðal annars segir rannsóknarfólk í íþróttum að slíkar tilraunir gefi takmarkaða mynd af raunverulegri getu íþróttafólks. Það bendir á að vissulega skipti líkamlegt atgervi miklu máli þegar fólk velur sér íþróttagreinar og slíkir eiginleikar gætu veitt ákveðið forskot í upphafi. Það segir að slíkt hafi hins vegar ekkert að segja þegar íþróttafólk hefur hafið keppni og æfingar. Þá ríður á að andleg einkenni séu með besta móti því það skilji afreksmennina frá hinum. Það skipti meira máli heldur en fyrrnefndar tæknirannsóknir.

Gísli Þorsteinsson gislith@mbl.is

Höf.: Gísli Þorsteinsson gislith@mbl.is