Námsgagnastofnun, www.namsgagnastofnun.is,  ætlar sér að  færa rafrænt námsefni á  Netið.
Námsgagnastofnun, www.namsgagnastofnun.is, ætlar sér að færa rafrænt námsefni á Netið.
Námsgagnastofnun og forveri hafa undanfarin 13 ár gefið út rúmlega 100 kennsluforrit fyrir grunnskóla. Forritin eru af margvíslegum toga, sum þýdd og staðfærð en önnur eru framleidd hér á landi. Gísli Þorsteinsson kynnti sér starfsemina og komst að því að stofnunin hefur hug á að færa rafrænt kennsluefni í auknum mæli út á Netið.

NÁMSGAGNASTOFNUN, www.namsgagnastofnun.is , býður út öll stærri verkefni, en undanfarin ár hefur hún látið vinna tvö forritunarverkefni á ári að meðaltali auk þýðinga á erlendum hugbúnaði. Um 30% af ríflega 100 forritum sem Námsgagnastofnun hefur sent frá sér frá 1988 eru íslensk. Hildigunnur Halldórsdóttir, ritstjóri kennslubúnaðar, hefur unnið við kennsluforritin frá fyrstu tíð. Í upphafi sá Reiknistofnun Háskólans um þýðingar á forritum en Námsgagnastofnun tók verkið upp á sína arma árið 1993. Hildigunnur segir að meirihluti af öllum forritum sem stofnunin sendir frá sér sé þýddur og er uppistaðan forrit frá Norðurlöndum.

Styrkurinn hleypti lífi í starfsemina

"Það sem hefur ýtt undir frekari útgáfu af okkar hálfu er að menntamálaráðuneytið hefur síðustu tvö ár veitt fjárveitingu er nemur 36 milljónum, ár hvert, sem er ætluð til þess að auka framboð á kennsluforritum og öðru rafrænu kennsluefni. Það má segja að fjárveitingin hafi hleypt þrótti í alla vinnu okkar. Til dæmis má nefna að nú má gera ráð fyrir að sjö ný kennsluforrit komi á markað með haustinu. En betur má ef duga skal og ég er á þeirri skoðun að íslensk börn þyrftu að hafa aðgang að fleiri upplýsingadiskum en nú er." Hildigunnur bendir á að fjárveiting sem þessi hafi komið að góðu gagni því framleiðsla á einu stóru kennsluforriti frá grunni kosti ekki undir 30 milljónum króna. "Með þessum hætti getum við gefið út veglega diska, eins og Alfræði íslenskrar tungu, sem kemur út fyrir áramót. Þá erum við á næstunni að gefa út tvo breska geisladiska, Undur líkama míns og Svona vinna tækin sem er eðlisfræðidiskur. Það hefur verið gríðarlega mikil vinna að þýða og staðfæra stóra erlenda geisladiska og kostar okkur sennilega fimm milljónir hver diskur. Þeir eru hins vegar ekki dýrir, kosta milli 3-4 þúsund krónur og foreldrar geta til dæmis keypt þá í Skífunni eða Skólavörubúðinni."

Bókin og Netið vinni saman

Hildigunnur segir að markmið Námsgagnastofnunar sé að búa til námsefni nýrra tíma. "Bókin er ekki dauð heldur er markmiðið að tengja Vefinn og bókina nánari böndum í skólastarfinu." Hún segir að Námsgagnastofnun gefi í vaxandi mæli út kennsluefni á Netinu. Með því að færa kennsluefni yfir á Netið sé von til þess að framleiðslan verði ódýrari, en þess megi geta að nokkur vinna felst í að uppfæra síðurnar og viðhalda öllum tenglum. Eitt þeirra verkefna sem eru á vefsíðu Námsgagnastofnunar ber heitið Umhverfis jörðina og er danskt að uppruna og byggist á ferðalagi blaðamanna frá Jyllandsposten. Þar er umfjöllunarefnið fjölmörg ríki og heimsálfur. "Þetta er dæmi um námsefni framtíðarinnar og ég hugsa að á næstu árum verði slíkt efni í auknum mæli að finna á Netinu. Hugmyndin er sú að skólar kaupi sér aðgang að síðum sem þessum. Ég held að í framtíðinni verði viðbótarefni bóka og verkefnabankar fyrir kennara nær eingöngu á Netinu."

Mætti nota forritin meira í kennslu

Aðspurð hvar kennsluforritin séu helst notuð í grunnskólum segir Hildigunnur að vandamálið sé að þau séu ekki eins mikið notuð og hún hefði vonast eftir. "Það er alþjóðlegt vandamál að koma á meiri notkun kennsluforrita í skólum. Það eru ýmsar ástæður sem valda því, svo sem erfitt aðgengi að tölvum og kennarar veigra sér við að fara með heila bekki inn í tölvustofu án stuðnings. Í auknum mæli er verið að setja tölvur inn í kennslustofur og verður það væntanlega til þess að auka notkun rafræns kennsluefnis. Það er mín tilfinning að námsefni á Netinu muni einnig hvetja kennara til dáða í að nota tölvuna sér til aðstoðar í skólastarfinu."