Fartölvur veita frelsi og ekki minnkar frelsið ef prentari er með í för. Árni Matthíasson kynnti sér ferðaprentara frá HP.

F ARTÖLVUR eru þarfaþing eins og allir þekkja sem þurft hafa að skreppa til útlanda eða annað fjarri skrifstofunni. Oft kæmi sér líka vel að hafa við höndina prentara og margir framleiðendur hafa kynnt slík apparöt, nú siðast Hewlett Packard.

DeskJet 350CBi prentarinn frá Hewlett Packard er bráðgóður ferðaprentari, en mætti svo sem vera minni. Prentarinn er 31x 6,5x15 cm, en arkamatarinn bætir 3 sentímetrum við þykktina. Hann er á fimmta kíló á þyngd með öllu, en þá er með talið NiMH rafhlaða, snúrur og arkamatari. Sem best mætti skila arkamatarann eftir heima, en honum er smellt á prentarann, en þar er heldur óþægilegt að mata prentarann eigi að prenta út nokkrar síður. Rafhlöðunni má einnig sem best sleppa, en með henni er hægt að prenta vel á annað hundrað síðna í svörtu á hverri hleðslu.

Með fylgja blekhylki, eitt fyrir svart og annað fyrir lit, en skipta þarf um hylki eftir því hvort prenta á í lit eða svörtu. Kemur sér vel að með fylgir sérstök askja fyrir litahylki sem kemur í veg fyrir að þau stíflist og/eða þorni. Með fylgir einnig sérstakt innrautt tengi sem stungið er í samband við prentaratengið og gekk bærileg að prenta út með því eftir snarpa glímu við fartölvuna, sem var reyndar einnig frá HP, því uppsetning á innrauða tenginu í henni var ekki ýkja skýr eða þægileg. Prentarasnúra fylgir ekki.

Í óvísindalegri prófun var prenthraði á svörtu rúmar tvær síður á mínútu í meðalstillingu en fór yfir fjórar síður á mínútu á minnstu gæðum. Í mestu gæðum fór hraðinn niður fyrir tvær síður á mínútu. Litaprentun er eðlilega heldur seinlegri og fór þannig niður fyrir síðu á mínútu í meðalstillingu.

Eins og gefur að skilja eru prentgæði á 350CBi ekkert á við það sem gerist í borðprenturum, en býsna mikil samt. Textaprentun tókst bráðvel og var kappnóg fyrir almenna notkun. Litaprentun var einnig prýðileg á skjali með texta og línuriti, en ljósmyndir voru rákóttar þó að þær hafi verið prýðilegar að öðru leyti.

Rekillinn sem fylgir prentaranum gefur ýmsa möguleika, meðal annars að setja vatnsmerki í myndir, búa til dreifiblöð með smámyndum, stilla stærð útprentsins, skoða hvernig endanleg síða verður, prenta í gráskala og stilla litamettun svo dæmi séu tekin. Hægt er að velja um fimm pappírsgerðir.

Helstu gallar DeskJet 350CBi prentarans eru annars vegar að hann er heldur stór um sig, ekki síst þegar arkamatarinn er með, arkamatarinn er ekki ýkja góður, fullóþægilegt er að þurfa að skipta um hylki í miðjum klíðum þegar prentuð er síða með texta og grafík, því litahylkið skilar ekki góðum svörtum lit og hentar því illa til að prenta texta. Á móti kemur að sáraeinfalt er að skipta um blekhylki. Gott væri ef prentarinn væri með USB-tengi. Hægt er að nota prentarann við tölvur sem keyra Windows 3.x, 95, 98, NT 4.0, 2000, MS-DOS og Macintosh OS 8.1 eða hærra.

Meðal kosta er hve prentarinn er ódýr og hagkvæmur í rekstri, en einnig er innrauða tengið góð viðbót, fyrirtak ef það hefði verið innbyggt, og rafhlaðan eykur til muna notagildið.