Segja má að myndvinnsla í tölvum sé nánast á færi heimilistölvunnar, ekki síst eftir að búnaður til þess arna hefur lækkað svo í verði að hentar jafnt áhugamönnum sem atvinnumönnum. Dæmi um það er Matrox RT2000, nýtt klippikort sem er ætlað jafnt fyrirtækjum sem einstaklingum.

Matrox er þekktur framleiðandi skjá- og klippikorta en RT2000 er einmitt unnið í samvinnu skjákortadeildarinnar, sem framleiðir jafnt kort fyrir atvinnumenn og amatöra, og vídeodeildarinnar sem býr til rauntímaklippikort fyrir fagmenn. Afraksturinn er rauntímaklippilausn fyrir fyrirtæki og einstaklinga.

Skjákortshluti kortsins byggir á Matrox Millennium G400 og meðal annars nýtir Matrox Flex 3D kortsins þrívíddargetu G400 til að ná fram stafrænum þrívíddaráhrifum 32 bita óþjappaða hreyfimyndagrafík í DV klippiumhverfi. Hægt er að skila efni á MPEG-2 formi fyrir DVD, VideoCD og til að streyma yfir Vefinn auk þess sem 1394 og analog-tengi gera kleift að tengja myndavélar eða myndbandstæki við kortið.

Komist hjá endurþjöppun

Hægt er að vinna með tvo strauma af hreyfimynd og 32 bita óþjappaða hreyfimyndagrafík í rauntíma. Þannig er hægt að velja úr lífrænum og þrívíðum myndblöndunum, tvívíðum og þrívíðum SVE og gegnsæjum áhrifum í rauntíma. Rauntíma klippivinnslan gerir síðan kleift að prófa ýmsar útgáfur af klippingu, sjá allt gerast strax í fullum gæðum og hægt að skoða afraksturinn jafnharðan á sjónvarpsskjá en notandinn hefur aðgang að hvaða ramma sem er í myndinni hvenær sem er.

DV gagnasniðið hefur víða verið tekið í notkun á sjónvarpsstöðvum og hjá fagmönnum í klippivinnslu. Til þess að fullnýta það þarf klippikerfið að flytja gögnin stafrænt frá DV myndavélinni eða myndbandstækinu og má til að mynda gera með því að taka upp á DV sniði á myndavél og síðan flytja efnið stafrænt á DV sniði yfir 1394 tengið inn í klippikerfið. Með þessu móti komast menn hjá endurþjöppun sem minnkar gæðin þegar gögnunum er snúið á MPEG-2 eða M-JPEG. Einnig komast menn þá hjá hliðrænum/stafrænum og stafrænum/hliðrænum breytingum. Matrox RT2000 gerir kleift að vinna með DV efni frá ýmsum framleiðendum svo sem Panasonic DVCPRO, Sony DVCAM, Sony Digital-8 og staðlaða DV forminu sem Sony, JVC, Canon, Sharp og Panasonic nota.

Með RT2000 fylgja ríflega 500 rauntímaáhrifs- og myndblandanir, þar á meðal blaðsíðuflettingar, sjónarhorn, skölun, mynd-í-mynd og lífrænar myndblandanir með stillanlegum skuggum, mjúkum brúnum og lituðum útlínum. Á Netinu munu menn síðan geta sótt sér frekari viðbætur, til að mynda þrívíddarvörpun, vatnsspeglun, öldur, upphleypt og aðdrátt.

Sérstakar aðgerðir

Flex 3D tæknin sem kortið notar er forritanleg högun sem varpar hreyfimynd á þrívíð form með því að nota Matrox 3D skjáhraðalsörgjörva og grafískt vinnsluminni. Hreyfi- og kyrrmyndum er varpað á þrívíddarform byggt á marghyrningum, til að mynda blaðsíðuflettingar, ferningar, pýramída, o.fl. Myndáhrifum er náð fram með sérstökum aðgerðum sem eru innbyggðar í þrívíddarskjáhraðalsörgjörvann og eru nýttar í gegnum Flex 3D högunina.