Sala á Windows Millennium (Windows Me) frá Microsoft er hafin. Hugbúnaðurinn er kominn í sölu í hér á landi, en hann verður seldur sem staðalbúnaður fyrir PC-vélar.

Sala á Windows Millennium (Windows Me) frá Microsoft er hafin.

Hugbúnaðurinn er kominn í sölu í hér á landi, en hann verður seldur sem staðalbúnaður fyrir PC-vélar. Einnig geta notendur með eldri gerðir búnaðarins, eins og Windows98 og Windows95, uppfært búnaðinn sinn ef þeir vilja fá sér Windows Me. Ekki er mikið um stórar breytingar á Win Me frá fyrri útgáfu, en útlit verður að mestu leyti óbreytt. Helstu breytingar eru þær að hægt er að vinna með myndir, hreyfimyndir og tónlist, sem hefur verið í öðrum hugbúnaði frá Microsoft fram að þessu. Í nýju útgáfunni er einnig stefnt að því að gera hana heimilsvænni en fyrri útgáfur voru, en Microsoft vill fá fyrirtæki til þess að nota fremur Windows Pro 2000-búnaðinn. Þá verður ekki hægt að ræsa Windows Me í Dos-umhverfi.

Ekki hægt að eyða kerfisskrám

Sindri Skúlason, vörustjóri hjá EJS, segir að Windows Me útgáfan sé hugsuð fyrir heimilin. Mikilvægasta breytingin að hans mati er sú að nú fylgist stýrikerfið með því að nauðsynlegum kerfisskrám sé ekki eytt út fyrir mistök auk þess sem það tekur afrit af þeim svo að auðvelt sé að koma uppsetningunni í samt horf verði þær fyrir skemmdum. "Windows Me fylgist einnig með því að ný forrit yfirskrifi ekki nauðsynlegar skrár sem önnur forrit nota. Þetta minnkar mjög líkurnar á því að tölvan verði óstarfhæf og kerfið því mun öruggara. Inernet Explorer 5.5 býður upp á hraðvirkari vinnslu og nýja eiginleika eins og forskoðun fyrir prentun. Mun auðveldara er nú að setja upp heimanet og samnýta netaðgang. Windows Me býður upp á aukna möguleika á sviði stafrænnar margmiðlunar þegar verið er að vinna með myndir, myndskeið eða tónlist."

Ný jaðartæki

Sindri segir að margt fleira megi tína til eins og vottun á reklum, innbyggðan stuðning við nýja staðla eins og "Universal Plug and Play"og ný jaðartæki eins og 5 hnappa mús og USB breiðbandsmótöld. Uppfærsla á stýrikerfinu úr Windows 98/98SE kostar rúmlega sex þúsund krónur.