Microsoft hefur greint frá því að stýrikerfið Whistler, sem byggir á NT-kjarnanum og leysir af hólmi Windows 98 og Windows 2000, verði sent í framleiðslu 18. apríl næstkomandi.
Microsoft hefur greint frá því að stýrikerfið Whistler, sem byggir á NT-kjarnanum og leysir af hólmi Windows 98 og Windows 2000, verði sent í framleiðslu 18. apríl næstkomandi. Ef allar áætlanir fyrirtækisins ganga eftir er gert ráð fyrir að fyrsta beta-útgáfan af Whistler berist til þeirra sem prófa kerfið 11. október. Með Whistler gerir Microsoft sér vonir um að gefa nasasjón af viðmóti Microsoft.Net, sem gerir ráð fyrir að fyrirtækið framleiði ekki lengur hugbúnað í pakkaumbúðum heldur bjóði hann í formi þjónustu á Netinu. Hins vegar er búist við að Microsoft.Net-hugmyndin komi ekki til framkvæmda fyrr en fyrirtækið sendir frá sér arftaka Whistler, sem gengur undir heitinu Blackbomb. Hægt verður að fá Whistler í ýmsum útgáfum fyrir fyrirtæki og heimili og bæði í 32 og 64 bita útgáfu. Gert er ráð fyrir að fyrirtækið útbúi búnað, sem er kallast WOW64 og fylgja mun 64-bita útgáfunni. Með honum sé tryggt að notendur 64 bita útgáfunnar geti notað 32 bita hugbúnað við hana.