Svokallaðar smákökur, [cookies] sem eru staðsettar á hörðu drifi tölva, skrá allar heimsóknir notenda hennar á Vefnum. Smákökurnar geyma upplýsingar um ferðir tölvunotandans og eru þær meðal annars notaðar af netfyrirtækjum í markaðslegum tilgangi. Hins vegar er vel hægt að koma í veg fyrir að smákökur skrái ferðir netnotanda um Vefinn, en til þess þarf litla tölvuþekkingu. Hér eru kynntar nokkrar aðferðir til þess að útiloka smákökurnar.

SÍÐUR á Netinu geyma stillingar, auðkenni og lykilorð. Smákökur eru textaskrár, sem eru skráðar á harða drifi tölva um leið og notandi heimsækir vefsíðu. Smákökur eru eins og raðnúmer, sem er ætlað að þekkja tölvuna næst þegar notandi heimsækir viðkomandi síðu. Þær auðvelda sem dæmi tengingu við miðlara, en safna um leið aragrúa upplýsinga um hegðun notanda á Netinu. Með smákökum er hægt að fylgjast með því hvert notandi fer á Netinu; frá einni síðu til annarrar og hve lengi hann dvelur á hverjum miðlara fyrir sig. Slíkt gefur til að mynda þeim sem vilja koma upplýsingum á framfæri mikla möguleika og er í raun ákveðið markaðstæki. Meðal annars hefur netútgáfa Time, www.time.com , greint frá því að 86% bandarískra netfyrirtækja noti smákökur í markaðsstarfi sínu, enda er hægt að sjá hegðunarmunstur netnotanda með því að fylgjast með því hverju hann hefur áhuga á.

Mikil verðmæti fólgin í upplýsingum

Það hefur jafnframt komið í ljós að slíkar upplýsingar eru sérlega verðmætar og fyrirtæki, sem safna upplýsingum með smákökum nota þær ekki aðeins í eigin þágu heldur eru brögð að því að fyrirtæki selji eða deili slíkum upplýsingar meðal netfyrirtækja, sem notandi hefur kannski aldrei heimsótt. Sérstök netauglýsingafyrirtæki, eins og DoubleClick, www.doubleclick.com , og Real Media, www.realmedia.org , sem setja auglýsingaborða fyrir viðskiptavini á þúsundir heimasíðna, nota smákökur í enn öðrum tilgangi. Notandi sem heimsækir síðu, sem hefur auglýsingaborða frá þessum fyrirtækjum, er kominn á skrá án þess þó að hann hafi smellt á viðkomandi borða. Í hvert skipti sem hann fer á slíka síðu skráir smákakan heimsóknina. Þessar upplýsingar eru síðan geymdar í sérstökum gagnagrunni og hægt að tengja saman við notanda ef hann ákveður einn daginn að skrá upplýsingar um sjálfan sig á rafrænt eyðublað með nafni og tölvupóstfangi á Netinu. Það eru því fjölmargir sem geta fylgst með því sem netnotendur skoða á Vefnum: frá vefstjórum fyrirtækja til þeirra sem nýta sér slíkar upplýsingar í markaðslegum tilgangi.

Ráð til að forðast smákökur

En hvað er til ráða ef viðkomandi netnotandi vill ekki að smákökur skrái upplýsingar um hann þegar hann er á Netinu? Það er hægt með því að fara í vafrann, sem er notaður, og útloka að smákökurnar skrái ferðir um Netið. Í Internet Explorer 5 er það hægt með því að fara í "Tools" og svo í "Internet Options". Þá er smellt á "Security"-hnapp og svo er valinn hnappur sem heitir "Custom Level". Þá birtist valmynd og með því að skruna aðeins niður birtist "Cookies" og með því að smella á "Disable" er þessi möguleiki ekki lengur fyrir hendi. Í Netscape Navigator 4,75 og öðrum útgáfum Navigator er hægt að velja "Edit" og "Preference". Með því að ýta á "Advanced" kemur í ljós listi og þar eru "Cookies", en þá er hægt að velja "Disable Cookies" til þess að koma í veg fyrir að það virki.

Ef viðkomandi vill ekki taka smákökurnar úr sambandi er hægt að fá sér sérstakan búnað eins og "Cookies Crusher"frá Limit Software, www.thelimitsoft.com , eða "Cookies Pal" frá Kookaburra, www.kookaburra.com . Með slíkum búnaði er hægt að sjá þegar smákökur hlaðast niður og því hægt að þurrka þær út þegar hverjum og einum hentar. Þá er einnig fyrir hendi að dyljast á Netinu, bruna um Vefinn án þess að nokkur viti um hvern er að ræða, með því að nota Anonymizer, www.anonymizer.com , sem er ókeypis forrit á Netinu fyrir þá sem vilja fela slóð sína.