Jón Arnar Magnússon keppir í tugþrautinni í kvöld.
Jón Arnar Magnússon keppir í tugþrautinni í kvöld.
OG hefur gert síðan 15. september. Hann verður hins vegar slokknaður 1. október , en þá mun hin glæsta lokaathöfn fara fram.

OG hefur gert síðan 15. september. Hann verður hins vegar slokknaður 1. október, en þá mun hin glæsta lokaathöfn fara fram. Ríkissjónvarpið hefur staðið fyrir beinum og óbeinum útsendingum frá Sydney frá upphafi og mun gera það til enda leikanna en minna má ekki vera þegar um slíkan stórviðburð er að ræða þar sem allir, ungir sem aldnir, ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi óháð því hvort íþróttaáhuginn brennur í brjósti eður ei.

Íþróttir fyrir alla...

Já, Ólympíuleikarnir eru nefnilega eitthvað annað og meira en helbert sprikl. Hugsjónin og andinn - vilji, hugrekki og þor. Þessi hugtök eru umsveipuð þessari elstu íþróttahátíð mannkyns og þau ná að draga hinn almenna borgara að skjánum og fá hann til að fylgjast andaktugur með.

Eða hver man ekki eftir að hafa vakað frameftir til að fylgjast með "hlaupi hlaupanna", er Ben Johnson þeyttist 100 metrana á slíkum hraða að ómannlegt var á að horfa - enda sviptur gullorðunni skömmu síðar eftir fall á lyfjaprófi. Og hver kannast ekki við að mæna einbeittur á hindrunarhlaupið og bíða hvað spenntastur eftir að hlaupararnir komi að vatnsgryfjunni? Og kíma svo í kampinn þegar íslensku þulirnir berjast í bökkum við að bera fram óframburðarhæf eftirnöfn á erlendum sundköppum. Já, ólympíuleikarnir í allri sinni dýrð eru ekki einkaeign hinna harðsoðnu íþróttaáhugamanna.

Tugþraut og fleira skemmtilegt

Leikarnir byrjuðu með útsendingum frá sundi og fimleikum en eins og flestir vita er fjölmennur hópur íslenskra sundkvenna og -karla svamlandi um í Sydney. Árangurinn á þeim bænum hefur verið með besta móti, Íslands- og Norðurlandamet hafa fallið þvers og kruss fyrir tilstilli íslensku keppendanna.

Seint í kvöld og langt fram undir morgun beinast augun eðlilega að Jóni Arnari Magnússyni, tugþrautarkappanum frækna sem lætur aldrei deigan síga þótt á móti blási. Það sem eftir lifir leika verða frjálsu íþróttirnar svo efstar á baugi en keppni í þeim hófst þann 22. síðastliðin. Hlaupin, stökkin, hoppin, köstin og vörpin - og að sjálfsögðu grein allra ólympíugreina, maraþonhlaupið, en það fer fram snemmmorguns á lokadegi leikanna þann 1. október.