Helga Braga Jónsdóttir verður með nýjan spjallþátt á Stöð 2 í vetur.
Helga Braga Jónsdóttir verður með nýjan spjallþátt á Stöð 2 í vetur.
ÞAÐ er allt að gerast hjá Stöð 2 og Sýn um þessar mundir enda kynntu stöðvarnar haust- og vetrardagskrána af stökum myndarleik fyrir ekki alls löngu.

ÞAÐ er allt að gerast hjá Stöð 2 og Sýn um þessar mundir enda kynntu stöðvarnar haust- og vetrardagskrána af stökum myndarleik fyrir ekki alls löngu. Kennir þar ýmissa grasa, bæði er um nýja og ferska spretti að ræða og einnig verður hægt að ganga að rótgrónum og vinsælum reitum vísum.

Verðbréf, verðbréf og aftur verðbréf

Talsvert verður um ný íslensk grös í þessum ábúðarfulla vetrargarði og ber þar helst að nefna þáttinn 20. öldin - Brot úr sögu þjóðar, viðamikið verkefni sem Stöð 2 hefur kallað með stolti "metnaðarfyllsta verkefni sitt frá upphafi." Þar mun Jón Ársæll Þórðarson rekja Íslandssögu 20. aldarinnar í máli og myndum í tíu þáttum á hverju sunnudagskvöldi. Sýnd verða sjaldgæf myndskeið ásamt fáséðum ljósmyndum auk þess sem rætt verður við hina og þessa Íslendinga sem upplifað hafa eitt og annað á öldinni sem nú er liðin.

Lenskan í dag eru verðbréf, verðbréf og vangaveltur um verðbréf. Eggert Skúlason fréttamaður mun stjórna nýjum þætti um fjármál á mánudagskvöldum þar sem farið verður ítarlega í það hvernig halda skuli á spöðunum í þeim efnum. Þann 24. október verður á dagskrá athyglisverður þáttur sem ber og athyglisvert nafn. Hafmeyjur á háum hælum segir sögu fimm kvenna sem eru af ólíkum kynslóðum og frá ólíkum löndum en það sem tengir þær hins vegar saman er að þær eru allar sjómannskonur. Í þættinum upplýsa þær áhorfendur um sigra sína og sorgir og þeirri andlegu baráttu sem þær hafa þreytt við Ægi í gegnum árin.

Helga Braga Jónsdóttir mun svo stýra nýjum spjallþætti í vetur þar sem leitast verður við að taka lífið traustatökum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Í þættinum verður fjallað um allt sem viðkemur mannlegum samskiptum; ástina, sorgina, fjölskylduna, samskipti kynjanna, andlegt og líkamlegt heilbrigði og allt þar á milli.

Sýn skartar sporti

"Íþróttir efla alla dáð", segir einhvers staðar, sannindi góð sem Sýnarmenn munu hafa að leiðarljósi í vetur. Íþróttaspekingurinn óþreytandi Arnar Björnsson mun þar stýra Heklusporti, þætti sem verður á dagskrá alla virka daga kl. 18.30. Þar verður tekinn ögn nýstárlegri vinkill á hlutina en almennt tíðkast; þjálfarar og leikmenn verða spurðir treyjunum úr, stuðningsmenn fá að básúna út sínum skoðunum og farið verður í saumana á helstu hitamálunum sem í gangi eru hverju sinni.