Allt frá því að Atari-tölvurnar voru hvað vinsælastar hafa tölvuleikir verið að þróast hægt og bítandi. Stundum er þróunin hröð og stundum hæg, en sjaldgæft er að sjá leikina þróast afturábak eins og í Sydney 2000-leiknum fyrir Playstation sem Eidos gaf nýlega út.

Í SYDNEY 2000-leiknum er hægt að velja um að keppa í 12 ólympíugreinum, þar á meðal 100 m spretthlaupi, 110 m grindahlaupi, sleggjukasti, spjótkasti, þrístökki, hástökki, 100 m sundi með frjálsum stíl, dýfingum af 10 m palli, kajaksiglingum, þungavigtarlyftingum og skotfimi.

Hægt er að velja um íþróttamenn frá 32 löndum í leiknum (ekki Íslandi), en í raun er bara valið eitt land og svo keppt sem allir íþróttamennirnir í öllum greinunum. Í flestum greinunum er hlutverk spilarans að ýta eins hratt og hann getur á tvo af krafttökkum leiksins svo að hann komist sem hraðast, ekki mjög frumlegt og ekki mjög skemmtilegt.

Frekar asnalegt er að stýra íþróttamönnunum í flestum greinunum, að ekki sé minnst á hversu þreytandi það er. Í greinum eins og hástökkinu og nokkrum öðrum þarf að ýta eins hratt og maður getur á krafttakkana og svo á hreyfingartakkann á nákvæmlega réttum tíma. Þetta er allt of erfitt og venjulega tekst ekki neitt fyrr en eftir mjög margar tilraunir.

Þegar greinarhöfundur var orðinn góður í að ýta á takkana ótrúlega hratt komst hann að því að það var ekki nóg, einnig þurfti að taka tillit til þess að leikurinn hægir reglulega á sér þegar hvað mest er í gangi og því þarf að ýta á hreyfingartakkana aðeins á undan réttum tíma svo að allt klúðrist ekki.

Grafík leiksins er frekar léleg og kemst jafnvel ekki í hálfkvisti við leikina sem voru gefnir út í fyrra. Hreyfingarnar eru ekkert sérstakar heldur og umhverfið er gervilegt.

Ef einhver er haldinn brennandi löngun til þess að spila uppáhaldsíþróttamanninn sinn í tölvuleik, auk þess að vera haldinn mikilli löngun til þess að eyðileggja fjarstýringuna sína mælir greinarhöfundur eindregið með þessum leik. Fyrir okkur hina: Ekki velta því einu sinni fyrir ykkur. Þreytandi og leiðinlegur leikur fyrir Playstation, en aftur á móti algjör snilld á Dreamcast.