Leikjafyrirtækið EA hefur tilkynnt að það ætli sér að fresta því enn á ný að gefa út Black & White, en hans hefur verið beðið með talsverðri óþreyju.

Leikjafyrirtækið EA hefur tilkynnt að það ætli sér að fresta því enn á ný að gefa út Black & White, en hans hefur verið beðið með talsverðri óþreyju. Eletronic Art segir að leikurinn verði gefinn út vorið 2001, en þessi seinkun hefur áhrif á allar útgáfur leiksins: PC, Dreamcast og PlayStation 2.

Kóngurlóamaðurinn fyrir PlayStation 2

Tölvufyrirtækið Activision hefur greint frá því að það sé að hanna nýjan tölvuleik fyrir Play Station 2 er byggist á ævintýrum kóngulóarmannsins. Fyrirtækið hefur ekki tilkynnt hvenær leikurinn kemur á markað en hann er sagður vel á veg kominn. Er leikurinn með kóngulóarmanninum einn af 14 leikjum fyrir Play Station 2 sem er í framleiðslu hjá Activision. Verður leikurinn um kóngulóarmanninn í þrívídd.

Microsoft í leikjaati

Microsoft ætlar að gefa út PC-útgáfu af hinum vinsæla PlayStation-leik Metal Gear Gold, en hann var fyrst gefinn út fyrir tveimur árum síðan. Búist er við að nýja útgáfan verði nokkuð breytt, að því leyti að grafíkin verði með hærri upplausn til þess að vinna betur á PC-hugbúnaði. Í leiknum er notandi látinn koma í veg fyrir að hryðjuverkamenn komist að Metal Gear Rex, sem er kjarnorkuvopn. Er líklegt að leikurinn komi á markað í næsta mánuði. Þá er Crimson Skies nýr leikur frá Microsoft, en þetta er leikur með sögulegu ívafi. Hann gerist í ímynduðum heimi þar sem þrjótar ráða öllu á lofti. Hefur leikurinn fengið góðar viðtökur frá því hann kom út nú fyrir skömmu.

Buffy blóðsugubani fyrir Game Boy

Nú er ljóst að Sega ætlar að gefa út leik með Buffy blóðsugubana fyrir Game Boy Color, en Buffy má rekja til vinsælla sjónvarpsþátta í Bandaríkjunum. Í leiknum verða notendur látnir fara um kunnuglegar slóðir, ef þeir á annað borð þekkja til þáttanna, og berjast við uppvakninga og blóðsugur. Þættirnir eru enn sýndir í Bandaríkjunum og yfir fjórar milljónir horfa á hann í hverri viku. Fox-fyrirtækið ætlar einnig að gefa leikinn út fyrir PC, Dreamcast og PlayStation á fyrri hluta næsta árs. Þá er búist við að Dragon Quest III verði gefinn út fyrir Game Boy Color [GBC]. Leikurinn, sem er hlutverka- og borðleikur að upplagi, er kallaður Monster Medal fyrir GBC og eins og nafnið gefur til kynna er barist við ófreskjur og fá notendur verðlaunapeninga eftir því hve þeir koma mörgum ófreskjum fyrir kattarnef.