Þó Palm sé með yfir 80% markaðshlutdeild á lófatölvu- markaði eru aðrir framleiðendur ekki af baki dottnir. Árni Matthíasson tók til kosta nýjustu lófatölvu HP.

F jölmargir framleiðendur hafa glímt við lófatölvur sem keyra Windows CE en ekki haft erindi sem erfiði, enda stýrikerfið illa hannað og óstöðugt og það sem það hefur þó haft framyfir Palm-stýrikerfið hefur ekki verið nóg til að kveikja áhuga manna. Nokkur fyrirtæki hafa þó náð árangri á þessum markaði, þar á meðal Hewlett Packard sem framleitt hefur Jornada tölvur. Fyrir stuttu kynnti fyrirtækið nýjar vélar í Jornada 540-framleiðslulínunni.

Fjórar tölvur

Fjórar tölvur eru í Jornada 540 línunni, 548 með 32 MB minni, 545 með 16 MB minni, 547 með 32 MB minni og 540 með 16 MB minni. Í vélunum er 32 bita 133 MHz Hitachi örgjörvi, skjárinn er 240 x 320 díla og getur sýnt 12 bita lit, 4.096 liti alls (en ekki 16 bita 65.536 lita, eins og auglýst var í upphafi). Snertiskjár er á tölvunni. Rafhlaðan er innbyggð líþíumjónarafhlaða og engin vararafhlaða. Hún er gefin upp fyrir átta tíma notkun og ekki annað að merkja en það sé nærri lagi.

Á vélinni er innrautt tengi og raðtengi. Með fylgir tengikró sem er góðu heilli með USB tengi. Rauf er fyrir CompactFlash kort sem er mjög hagnýtt, en heldur er lokið á því ræfilslegt.

Tengi fyrir heyrnartól er á tölvunni, en einnig innbyggður hátalari og innbyggður hljóðnemi sem gerir kleift að taka upp á hana. Með fylgja þokkaleg heyrnartól. Ekki kemst ýkja mikið tal fyrir í minninu en hægt að búa svo um hnútana að hún taki upp á CompactFlash kortið og eins og flestir vita eru þau til upp í 192 MB. Hljómur í vélinni er furðu góður og þannig hljómaði MP3-útgáfa af Partíbæ Ham afskaplega vel og viðeigandi en hefði mátt hækka meira. Sé vélin notuð sem MP3-spilari er hægt að slökkva á skjánum og þannig endist rafhleðslan talsvert lengur.

Sérdeilis glæsileg að sjá

Tölvan, sem er sérdeilis glæsileg að sjá, er nokkru stærri en Palm lófatölva, 13 x 7,8 x 1,6 sm og rúm 260 g að þyngd. Skjárinn er skýr og litríkur, en hefði orðið margfalt betri ef HP-menn hefðu haft í tölvunni TFT skjá en ekki dual-scan, enda er TFT skjár margfalt betri í misjafnri lýsingu.

Lokið á henni er gott og vel til fundið að hafa "pennann" í lokinu. Hjólið á hliðinni er bráðsnjallt, ekki síst í ljósi þess að auðvelt er að breyta virkni þess.

Króin fyrir tölvuna er mjög góð með þungum fæti. Tölvan fellur vel í hana og mjög gott að á henni sé USB tengi. Raðtengi fylgir í pakkanum fyrir þá sem það þurfa. Líka er hægt að tengja tölvuna beint við rafmagn, þ.e. án þess að hafa hana í krónni.

Microsoft féllst á athugasemdir

Ekki er langt síðan Microsoft féllst loks á athugasemdir sem menn höfðu gert við CE gerð Windows og breytti stýrikerfinu talsvert. Nýja gerð Windows CE má reyndar ekki kalla Windows CE lengur, heldur Pocket PC, sem vísar líklega til þess að henni hefur verið breytt í þá átt að gera vasatölvur þægilegri í notkun í stað þess að borðtölvustýrikerfi sé troðið í vasavél.

Hefðbundinn Pocket PC hugbúnaður er í vélinni eins og við var að búast, dagskinna, verkefnalisti, ritvinnsla, símanúmeraskrá og þar fram eftir götunum. Einnig fylgir MP3 hugbúnaður (Windows Media Player) og bóklestrarforrit, en á disknum sem fylgdi voru fjölmargar bækur.

Frá HP er svo afritshugbúnaður, OmniSolve fyrir fjárreikninga, myndaforrit og svo má telja, en kynningarútgáfur eru af ýmsum hugbúnaði á geisladisknum sem fylgir og einnig nokkur MP3-lög.