Craig David: "Örlög mín eru að vera söngvari."
Craig David: "Örlög mín eru að vera söngvari."
Þótt Bretar séu um margt leiðandi afl í dægurtónlistinni hafa þeir ekki riðið feitum hesti þegar sálartónlist er annars vegar. Nú er hinsvegar kominn fram á sjónarsviðið ungur drengur frá Southampton, Craig David að nafni, sem kann að breyta því.

HINN nítján ára gamli Craig David er af mörgum talinn vera efnilegasti sálar/R´n´B-söngvari sem fram hefur komið í árafjöld. Jómfrúarplatan hans Born to do it sem kom út í ágúst á þessu ári er nú þegar orðin þriðja söluhæsta platan í heimalandinu hans Bretlandi og tvær fyrstu smáskífurnar fóru rakleiðis á toppinn. Þess má geta að David er yngsti karlmannslistamaðurinn í sögu Bretlandseyja sem náð hefur þeim árangri og gagnrýnendur þarlendis hafa lagst himinlifandi að fótum David og eiga vart til orð yfir snilldarlega blöndu hans af R´n´B tónlist, breskri "garage"-danstónlist og hágæðapoppi, kryddaðri ungæðislegri ástríðu hins unga manns sem á allt að vinna og engu að tapa.

Southampton

"Ég er fæddur í Southampton árið 1981," rifjar David upp. "Og hef búið þar hjá mömmu í 18 ár." Hann segir tónlistarástríðuna vera tilkomna vegna foreldra sinna. "Mamma var gríðarmikill aðdáandi Terence Trent D'Arby og pabbi átti slatta af reggíplötum. Þetta leiddi til þess að ég fór að hlusta á R'n'B og hip-hop sem varð síðan til þess að ég fór að hlusta á "garage"- og trommu- og bassatónlist. Pabbi var og í hljómsveitinni Ebony Rockers í gamla daga og það varð til þess að ég fór að læra á gítar á yngri árum."

Á uppvaxtarárunum gegndi pabbi hans forstöðustarfi á hverfisskemmtistað. Hinn ungi David var því byrjaður að að fá nasaþefinn af klúbbamenningunni aðeins fjórtán ára að aldri. "Það fór alltaf svolítið í taugarnar á mér," minnist David. "Hversu lítil tengsl voru á milli plötusnúðanna og þess sem var að gerast á gólfinu. Þannig að kvöld eitt hljóp ég upp í búr og fór að spinna á hljóðnemann og peppa upp stemmninguna."

Frægðarhjólin fóru að snúast hjá David er breska R'n'B sveitin Damage stóð fyrir lagasamkeppni árið 1997. Það lag sem myndi bera sigur úr býtum fengi þann heiður að fá að verma b-hliðina á næstu smáskífu sveitarinnar - ábreiðu yfir lag Eric Clapton "Wonderful Tonight". David gerði sér lítið fyrir, samdi lagið "I´m ready" á einum degi, sendi það inn samdægurs og sigraði. "Eftir þetta var mér boðið að vera með þátt á sjóræningjaútvarpsstöð og um það leyti kynntist ég Mark Hill úr Artful Dodger-genginu og við fórum að vinna saman að lagasmíðum," segir David. "Við þrykktum lagið "Rewind" á plast og dreifðum því á milli klúbbanna og fyrr en varði var það komið í bullandi spilun á stóru útvarpsstöðvunum. Þegar það kom svo loksins út á almennum markaði stímdi það beint inn í annað sætið, lenti beint fyrir aftan Cliff Richard!"

Fæddur til að gera það

Næsta smáskífa, "Fill me in", sem í þetta sinnið var einungis ánöfnuð Craig David, fór beinustu leið á toppinn. Ferillinn var nú kominn á fullt skrið. "Ég átti fullt í fangi með að trúa þessu," segir Craig af einlægni. "Í kjölfarið fór maður að spila á 100.000 manna leikvöngum, gera myndbönd og hitta fræga fólkið. Það er vart hægt að lýsa þessu. Þetta er búið að vera þvílíka rennireiðin." Craig segir frá því er hann hitti Robbie Williams á einni af þessum samkundum og er sýnilega upp með sér. "Robbie kom að mér og sagði: "Craig, vanalega versla ég mér ekki smáskífur en ég keypti þína um daginn og finnst hún frábær!"

David segir að lokum að titill frumburðarins Born to do it, sé síður en svo út í loftið. "Allir hafa sérstaka hæfileika til að gera eitthvað og mín örlög eru að vera söngvari og lagasmiður. Svo er þetta líka tilvitnun í uppháldskvikmyndina mína Willy Wonka og súkkulaðiverksmiðjan."