ÞAÐ andar köldu á milli stjórna Kauphallarinnar í London og OM Gruppen í Stokkhólmi og harðorðar yfirlýsingar ganga á víxl. Stjórn LSE sendi hluthöfum LSE bréf í fyrradag þar sem þeir voru varaðir við hlægilegu tilboði OM í LSE.

ÞAÐ andar köldu á milli stjórna Kauphallarinnar í London og OM Gruppen í Stokkhólmi og harðorðar yfirlýsingar ganga á víxl. Stjórn LSE sendi hluthöfum LSE bréf í fyrradag þar sem þeir voru varaðir við hlægilegu tilboði OM í LSE. Stjórn OM hefur nú svarað og segir stefnumótun stjórnar LSE lausa í reipunum og að stjórnina skorti framtíðarsýn. Frá þessu greinir m.a. á BBC, ft.com og sænska viðskiptavefnum E24.

Í bréfi LSE til hluthafanna eru þeir hvattir til að hafna óvinveittu tilboði sænska fyrirtækisins OM Gruppen í LSE. Bréfið er harðort og segir m.a. að tilboðið sé algjörlega óviðunandi og hafi í för með sér fullkomið áhrifaleysi LSE.

Í yfirlýsingu OM er stjórn LSE hvött til að taka tilboð OM til endurskoðunar. OM muni veita LSE það sem Kauphöllin þarfnist, styrka stjórnun og skýra framtíðarsýn.

Stjórn LSE ítrekar þá skoðun sína í bréfinu að OM vanmeti LSE í tilboði sínu og sameining fyrirtækjanna hafi enga kosti í för með sér. Að mati stjórnar LSE er það ætlun OM að kaupa LSE ódýrt með hlutabréfum í OM sem hafa sveiflast í verði. Hluthafar eru m.a.s. hvattir til að hunsa öll gögn sem þeim berast frá OM. Tilboð OM sem samanstendur af reiðufé og hlutabréfum, metur LSE á um 815 milljónir punda eða tæpa 100 milljarða íslenskra króna en markaðsverðmæti LSE er talið yfir 900 milljónir punda.

Framkvæmdastjóri og ráðgjafafyrirtæki hætta

Fyrir tveimur vikum var iX samruni LSE og Deutsche Börse í Frankfurt blásinn af og um leið tilkynnti LSE að í kjölfarið yrði allt kapp lagt á að verjast óvinveittu tilboði OM. Bréfið sem sent var út í gær er liður í þeirri baráttu.

Stjórn LSE hefur fengið á sig verulega gagnrýni undanfarið. Í kjölfar aðalfundar sagði Gavin Casey framkvæmdastjóri starfi sínu lausu, og nú hefur annað aðalráðgjafafyrirtæki LSE í iX samrunanum, Merrill Lynch bankinn, hætt samstarfinu.

Í bréfinu eru hluthafar boðaðir á hluthafafund hjá LSE 19. október nk. og þar verður m.a. rædd reglan um að einstakur hluthafi megi ekki eiga meira en 4,9% hlutafjár í LSE. Í yfirlýsingu segir stjórn LSE að hún muni ekki skýla sér bak við reglurnar um 4,9% hámarkið til að verjast tilboði OM. Eigendasamsetning LSE dragi hins vegar úr áhrifum hluthafa LSE í hugsanlega sameinuðu fyrirtæki, þar sem þar séu eigendur margir, en fáir að OM.

OM er í 40% eigu framkvæmdastjórnar OM, a.m.k. 9,5% í eigu sænska ríkisins og 15,3% í eigu Investor, fjárfestingarfélags í eigu Wallenbergfjölskyldunnar, að því er hluthöfum LSE er bent á í bréfinu frá stjórninni.

Helstu rök OM fyrir samruna félaganna er sú tækni sem OM hefur yfir að ráða og myndi koma LSE til góða. Að mati stjórnar LSE hefur hvorki kauphöllin í London né viðskiptavinir hennar þörf fyrir slíka tækni.

Ósló. Morgunblaðið.