F.v. Nick Axworthy frá Touch Vision, Kristján Daníelsson framkvæmdastjóri og Hilmar Guðmundsson, tæknistjóri Bókunarmistöðvarinnar.
F.v. Nick Axworthy frá Touch Vision, Kristján Daníelsson framkvæmdastjóri og Hilmar Guðmundsson, tæknistjóri Bókunarmistöðvarinnar.
BÓKUNARMIÐSTÖÐ Íslands hefur opnað íslenskan bókunarvef fyrir ferðaþjónustu á Íslandi en vefurinn heitir discovericeland.is.

BÓKUNARMIÐSTÖÐ Íslands hefur opnað íslenskan bókunarvef fyrir ferðaþjónustu á Íslandi en vefurinn heitir discovericeland.is. Á vefnum verður í fyrsta sinn hægt að bóka beint og staðfesta gistingu um land allt, panta sérferðir ýmissa aðila, bílaleigubíla, skemmtanir o.fl. hvaðan sem er úr heiminum. Auk bókunarmöguleikanna er að finna ítarlegar upplýsingar um land og þjóð á vefnum, sveitarfélög og landsvæði og alla helstu viðburði hverju sinni.

Viðskiptavinir geta bókað heima

Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Bókunarmiðstöðvarinnar, segir að bókun á vefnum sé einföld og geta viðskiptavinir bókað á tölvunni heima hjá sér. Viðskiptavinurinn velji gististað eða þjónustu og bókunarkerfi Bókunarmiðstöðvarinnar hringi síðan sjálfkrafa í þjónustuaðilann. Sé pöntun staðfest er staðfestingargjald fært á greiðslukort notanda og báðir aðilar fá í hendur staðfestingu. Ferðamaðurinn framvísi síðan staðfestingunni við komuna.

Kristján segir það vera nýjung að allir samstarfsaðilar Bókunarmiðstöðvarinnar geti uppfært beint á Netinu allar upplýsingar um þjónustu sína, sveitarfélög, landshluta eða atburði.

Talið er að verulegur hluti viðskipta í ferðaþjónustu muni færast inn á Netið á næstu misserum og hafa flugfélög um allan heim því lagt mikla áherslu á sölu farmiða á Netinu og hafa þau viðskipti aukist gríðarlega.

Hugbúnaðurinn að baki vef Bókunarmiðstöðvar Íslands gerir samstarfsaðilum kleift að færa inn upplýsingar hvaðan sem er. Að sögn Kristjáns var það fyrirtækið Touch Vision sem sá um þróun hugbúnaðarins og kom einn eigenda Touch Vision, Nick Axworthy, hingað til lands í tilefni af opnun vefjarins.

Geta sjálfir fært inn upplýsingar

Öll innsetning gagna er mjög einföld og er öllum samstarfsaðilum opin. Með þennan möguleika í boði hefur Bókunarmiðstöð Íslands þegar gert samninga við landshlutasamtök og bæjarfélög víða um land. Sveitarfélög og þróunar- og atvinnumálafélög hafa einnig sýnt þessum möguleika mikinn áhuga.

Kristján segir að helsti kostur vefjarins sé sá að samstarfsaðilar á hverjum stað geta uppfært upplýsingar um sinn landshluta eða sitt sveitarfélag sjálfir, kynnt nýjungar og sent inn fréttir og vakið athygli á áhugaverðum atburðum. Ekki þurfi að senda upplýsingar í hendur umsjónaraðila með tilheyrandi kostnaði. Þannig verði til lifandi og skemmtilegur vefur um allt sem sé að gerast í landinu hverju sinni og tengist ferðaþjónustu, listum og menningu.

Á næstunni verður komið fyrir fjölnota útstöðvum, þ.e. skjámiðlum eða kiosku, víða um land, þar sem hægt verður að ganga að sömu bókunarmöguleikum og upplýsingum. Með sérstöku samkomulagi við upplýsingamiðstöðvar ferðamála í öllum landshlutum hefur skapast tenging milli landshluta í gegnum kerfið, sem hægt er að uppfæra hvar sem er.