Úr sýningu Draumasmiðjunnar á "Ég sé...".
Úr sýningu Draumasmiðjunnar á "Ég sé...".
FJÖGUR ný íslensk verk eru á verkefnaskrá sjálfstæða leikhússins Draumasmiðjunar í vetur. Leiksýningin "Ég sé...

FJÖGUR ný íslensk verk eru á verkefnaskrá sjálfstæða leikhússins Draumasmiðjunar í vetur.

Leiksýningin "Ég sé..." sem var frumsýnd í mars á þessu ári hefur verið boðin þátttaka á listahátíð í tengslum við IETM-fund sem verður haldinn í Reykjavík dagana 4.-8 október 2000. "Ég sé..." verður svo sýnd út nóvember í Möguleikhúsinu við Hlemm fyrir leikskólana og grunnskólana. Sýningin er flutt á tveimur tungumálum samtímis, íslensku og táknmáli. Einnig er hún óvenjuleg að því leyti að hún höfðar sérstaklega vel til ungra barna þar sem hið sjónræna skipar svo stórt hlutverk í sýningunni. Árstíðaskiptin eru í aðalhlutverkinu en við fáum að fylgjast með uppvexti lítils álfabarns og hvernig það þroskast við hver árstíðaskipti. Margrét Pétursdóttir er höfundur og leikstjóri en Elsa Guðbjörg Björnsdóttir, Gunnar Gunnsteinsson og Ólöf Ingólfsdóttir leika. María Ólafsdóttir hannaði leikmynd og búninga, Skúli Gautason samdi tónlistina og Alfreð Sturla Böðvarsson sá um lýsinguna.

Draumasmiðjan æfir nú "Góðar hægðir" eftir Auði Haralds og verður það sýnt á leiklistarhátíðinni Á MÖRKUNUM sem er samvinnuverkefni Sjálfstæðu leikhúsanna og Reykjavíkur - menningarborgar 2000. Að sögn aðstandenda sýningarinnar er þetta kolsvört kómedía um ástir eldra fólks og hvernig börn þeirra bregðast við er upp kemst um sambandið. Gunnar Gunnsteinsson, Soffía Jakobsdóttir og Erlingur Gíslason eru í aðalhlutverkum. Í öðrum hlutverkum eru Erla Rut Harðardóttir, Sveinn Þórir Geirsson og Margrét Pétursdóttir.

María Ólafsdóttir sér um leikmynd og búninga, Alfreð Sturla Böðvarsson um lýsingu og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson semur tónlist og hljóð. Frumsýning er 26. október 2000 kl. 20 í Tjarnarbíói. Fleiri frumsýningar er fyrirhugaðar í vetur, m.a. einleikur í Kaffileikhúsinu á vormánuðum og "Benedikt búálfur" eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson, en Leikfélag Íslands mun framleiða þá sýningu og er áætluð frumsýning í Loftkastalanum í febrúar 2001. Draumasmiðjan og Æskan hafa gengið til samstarfs um að gefa út Stubbana (Teletubbies) út á myndbandi. Nú fyrir áramót munu þrjár spólur koma á markað og verða þær eingöngu seldar í verslunum Hagkaups.