SLÁTURFÉLAG Suðurlands, Vífilfell, ÍslenskAmeríska, Innnes, Landssíminn, Sól-Víking og Hekla hafa ákveðið að vinna að stofnun birtingarhúss auglýsinga.

SLÁTURFÉLAG Suðurlands, Vífilfell, ÍslenskAmeríska, Innnes, Landssíminn, Sól-Víking og Hekla hafa ákveðið að vinna að stofnun birtingarhúss auglýsinga. Töluverð umræða hefur verið að undanförnu um birtingarkostnað auglýsinga og nýtingu þess fjármagns sem varið er til auglýsinga og má minna á fjölsóttan fund ÍMARK fyrr í þessum mánuði um auglýsingabirtingar. Fyrirtækin sjö munu gera nánari grein fyrir áætlunum sínum í dag, miðvikudag og halda síðan fleiri kynningarfundi í framhaldi þar af.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er meginástæðan fyrir samvinnu þessara fyrirtækja um stofnun sérstaks birtingarhúss áhugi þeirra á aukinni fagmennsku í birtingu auglýsinga en þeim hefur þótt nokkuð skorta á það hjá auglýsingastofunum.

Óánægja með umboðslaun

Faglegi þátturinn, aðgengi að gögnum um notkun fjölmiðla vegur þyngst í ákvörðun fyrirtækjanna og hafa þau unnið um allangt skeið að undirbúningi þess. Þá er og fullvíst að innheimta svokallaðra umboðslauna sem oft eru um 15% hafi haft veruleg áhrif á ákvörðun fyrirtækjanna.

Birtingarhús eru fyrirtæki sem sérhæfa sig í að ákveða hvar og hvenær á að birta auglýsingu til þess að ná tilteknum árangri með sem minnstum tilkostnaði.

Ekki liggur fyrir hvort þessi fyrirtækjahópur hyggst bjóða í leiknar sjónvarpsauglýsingar Ríkisútvarpsins en ljóst er að mikil spenna er hlaupin í auglýsingamarkaðinn.

Gera má ráð fyrir að fyrirtækin sjö telji sig geta náð mun meira út úr þeim fjármunum, sem þau verja til auglýsinga, með samvinnu sín á milli en giska má á að heildarveltan á íslenska auglýsingamarkaðinum losi fimm milljarða króna á ári.