Þjálfaraskipti verða hjá knattspyrnuliði Eyjamanna fyrir næsta tímabil, en Kristinn R. Jónsson hefur ákveðið að hætta þjálfun ÍBV eftir eins árs starf.

Þjálfaraskipti verða hjá knattspyrnuliði Eyjamanna fyrir næsta tímabil, en Kristinn R. Jónsson hefur ákveðið að hætta þjálfun ÍBV eftir eins árs starf. Kristinn hefur reyndar verið í starfi hjá Eyjamönnum í þrjú ár en hann var aðstoðarmaður Bjarna Jóhannssonar í tvö ár áður en hann tók við þjálfarastarfinu.

Kristinn tilkynnti forráðamönnum ÍBV fyrir leikinn gegn Grindavík í lokaumferð Íslandsmótsins að hann vildi ljúka störfum sínum hjá félaginu af persónulegum ástæðum, en hann gerði tveggja ára samning við Eyjamenn í fyrra þar sem í var uppsagnarákvæði af beggja hálfu.

"Það er af persónulegum ástæðum sem ég ákvað að hætta. Ég hef verið að vinna í bænum þessi þrjú ár og það hefur verið mjög erfitt að sameina starfið og þjálfunina," sagði Kristinn í samtali við Morgunblaðið.

"Það var vilji hjá okkur að halda honum en Kristinn treysti sér ekki að halda þessu áfram lengur vinnunnar vegna. Hann var búinn að tilkynna okkur þetta fyrir nokkru svo tapleikurinn gegn ÍA í bikarúrslitaleiknum var ekki ástæðan fyrir uppsögn hans og við skiljum við hann í mesta bróðerni. Við erum þegar farnir að leita fyrir okkur að nýjum þjálfara en það er ekkert ákveðið hver tekur við," sagði Eggert Garðarsson, varaformaður knattspyrnudeildar ÍBV, í samtali við Morgunblaðið í gær.