[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við munum þurfa, segir Þórarinn Tyrfingsson, að takast á við alvarlegar afleiðingar aukinnar áfengisneyslu á heilsufar þjóðarinnar.

FRÁ ÁRINU 1995 hefur neysla ólöglegra vímuefna stóraukist á Íslandi, einkum meðal þeirra sem eru 24 ára og yngri. Þessi vandi hefur sett mikinn svip á þjóðlífið og átt stóran hlut í almennri umræðu og fréttaflutningi. En á sama tíma hefur umræða um áfengisvandann fallið í skuggann og vandi þeirra sem eldri eru en tvítugir hefur verið minna til umræðu.

Lítið hefur verið um forvarnir sem beinast að hinum eldri og umræða um aðra áfengisneyslu en unglinganeyslu hefur verið í lágmarki. Að minnsta kosti hafa ekki orðið mikil viðbrögð í fjölmiðlum og fréttum við aukningu á áfengisneyslunni þetta árið þótt nægt tilefni sé til og lítið heyrist orðið í bindindismönnum. Akureyringar einir hafa verið til andsvara, þeir Tryggvi skólameistari og Sigmundur geðlæknir. Hin mikla aukning á áfengisneyslu Íslendinga síðustu sex ár og óhjákvæmilegar afleiðingar hennar kunna því að hafa farið fram hjá mörgum.

Upplýsingar frá Hagstofu Íslands segja okkur að áfengisneyslan hafi aukist mjög mikið síðustu sex árin og sölutölur ÁTVR fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2000 benda til þess að aukningin haldi áfram þetta árið. Á sama tíma minnkar áfengisneysla Svía og Dana en Norðmenn eru á sama róli og við. Allt bendir nú til þess að við drekkum meira magn af áfengi en Svíar og Norðmenn.

Áfengismagnið mælt í hreinum vínanda á hvern einstakling sem eldri er en 15 ára hefur aukist um einn og hálfan lítra á sex árum. Það er sérstakt áhyggjuefni að áfengisneyslan eykst um meira en einn heilan lítra af hreinu áfengi á hvern íbúa 15 ára eða eldri á síðustu þremur árum (1997-1999).

Það er óhjákvæmilegt hér á Íslandi eins og annars staðar að aukning áfengisneyslu leiði til fjölgunar slysa og ofbeldisverka og breytingar í íslensku þjóðlífi verður því að skoða út frá hinni vaxandi áfengisneyslu.

Þegar litið er til framtíðar er ekki hægt að víkja sér undan því að við munum þurfa að takast á við alvarlegar afleiðingar aukinnar áfengisneyslu á heilsufar þjóðarinnar. Skiptir þá engu þó að áfengisframleiðendur hafi óvandaða vísindamenn á mála hjá sér til að halda áróðri uppi gegn því að áfengisneyslan valdi líkamlegum og geðrænum skaða. Minna vinnubrögð þeirra og auglýsingar sem beinast að æskufólki óþyrmilega á vinnubrögð tóbaksframleiðenda en t.d. í Bandaríkjunum eru dómstólar farnir að fjalla um sorglegar afleiðingar þeirrar auglýsingaherferðar.

Aukin áfengisneysla gerir nær alla sjúkdóma verri og getur spillt fyrir og eyðilagt lyfjameðferð. Hún veldur aukningu á fóstursköðum og spillir aðbúnaði og uppeldi barna. Hún spillir því heilsufari ungmenna. Aukin áfengisneysla veldur svefntruflunum, þunglyndi, kvíða, eykur á sjálfsvígshættu og hefur á margvíslegan hátt neikvæð áhrif á geðheilsu manna. Fálæti geðlækna og lítil þátttaka í áfengisvörnum um þessar mundir vekur því upp spurningar.

Óhófleg áfengisneysla veldur ein og sér sjúkdómum eins og lifrarsjúkdómum, briskirtilssjúkdómum og heilasköðum.

Með vaxandi neyslu áfengis mun þessum sjúkdómum fjölga. Þannig vex hætta á skorpulifur í beinu hlutfalli við það heildarmagn áfengis sem einstaklingurinn notar um ævina burtséð frá því hversu mikið hann notaði í hvert sinn.

Með vaxandi áfengisneyslu þeirra sem komnir eru yfir miðjan aldur munu fleiri og fleiri búa við vitsmunaskerðingu og minnisglöp vegna áfengisneyslu.

Þrátt fyrir hraðvaxandi áfengisneyslu þjóðarinnar er það þó engu að síður staðreynd að hlutfall vímuefnafíkla sem háðir eru ólöglegum vímuefnum vex með hverju árinu. Sjúklingar á Sjúkrahúsinu Vogi sem notað hafa ólögleg vímuefni eru fleiri en þeir sem aldrei hafa neytt slíkra efna. Þessi uggvænlega þróun er annað mál en sá vaxandi áfengisvandi sem þessari grein er ætlað að benda á. En þó er ákveðið samhengi þar á milli:

Þótt málum sé nú þannig komið að ólögleg vímuefni, einkum kannabisefni, knýi mun fleiri sem eru yngri en 20 ára til að leita sér meðferðar má ekki gleyma því að áfengi er nær undantekningarlaust alltaf fyrsta vímuefnið sem þessir unglingar nota.

Höfundur er forstöðulæknir sjúkrastofnana SÁÁ.