Sigríður Ingibjörg Sigmundsdóttir fæddist á Brúsastöðum í Þingvallasveit 12. september 1911. Hún lést á Elliheimilinu Grund 16. september síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigmundur Sveinsson, f. 9. apríl 1870 í Gerðum, Garði, d. 12. ágúst 1962, húsvörður í Miðbæjarskólanum í Reykjavík og k.h. Kristín Símonardóttir, f. 5. júní 1878 í Miðey, V-Landeyjum, d. 3. sept. 1944. Foreldrar Sigmundar voru Sveinn Magnússon, f. 1831, d. 1921, útvegsbóndi og smiður, Gerðum, Garði, og k.h. Eyvör Snorradóttir, f. 1836, d. 1906. Foreldrar Kristínar voru Símon Einarsson, f. 1850, d. 1879, bóndi í Miðey, A-Landeyjum og k.h. Sesselja Hreinsdóttir, f. 1844, d. 1891. Systkini Sigríðar voru: Sesselja H. Sigmundsdóttir, f. 5. júlí 1902, d. 8. nóv. 1974, stofnandi og forstöðukona Sólheima í Grímsnesi, M: Rudolf Noha; Lúðvík Sigmundsson, f. 29. júlí 1903, d. 1. janúar 1947, vélstjóri, M: Alexía Sesselja Pálsdóttir; Gróa G. Sigmundsdóttir, f. 13. febrúar 1905, d. 3. október 1978, hárgreiðslumeistari; Steinunn Sigmundsdóttir, f. 12. október 1906, d. 5. desember 1990, sjúkranuddari, M: Eggert Ólafsson; Símon Sigmundsson, f. 12. júní 1908, d. 26. desember 1991, kennari; Kristinn Sigmundsson, f. 6. september 1909, d. 30. mars 1986. M: Nína Sigmunds; Þórarinn Sigmundsson, f. 27. júlí 1917, d. 25. febrúar 1996, mjólkurfræðingur. M: Ingibjörg Björnsdóttir.

Sonur Sigríðar er Kristinn Sigmundur Jónsson, f. 19. september 1947, rafeindavirki í Mosfellsbæ, kvæntur Ólöfu Friðriksdóttur, f. 12. júlí 1948. Dætur þeirra eru Sigríður, f. 15. mars 1979 og Sesselja, f. 19. mars 1981.

Sigríður fluttist til Reykjavíkur 1919 og bjó hún unglingsárin í barnaskólanum (síðar Miðbæjarskólanum) í Reykjavík þar sem faðir hennar var húsvörður. Hún lærði tannsmíði og vann við það í mörg ár hjá Theodóri Brynjólfssyni tannlækni við Miðstræti í Reykjavík. Síðustu árin vann hún við Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.

Útför Sigríðar fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Elsku frænka mín, þá ert þú líka farin, síðust af öllum þínum systkinum. Það er alltaf erfitt að þurfa að vera síðastur og sjá á bak öllum sínum systkinum.

Þér var gefið í vöggugjöf sérstaklega gott skaplyndi og aldrei minnist ég þess að hafa heyrt frá þér styggðaryrði né að þú hafir verið í vondu skapi.

Alltaf var gaman að koma til þín og ef að þú vissir af komu minni þá varstu búin að baka pönnukökur handa mér og minnist ég þess með gleði að hafa einu sinni getað endurgoldið þér er þú komst til mín í fyrrasumar og áttum við notalega stund saman.

Þið Sesselja, Gróa, Steinunn og Sigríður ólust upp í barnaskólanum (síðar Miðbæjarskólanum) og voruð almennt kallaðar systurnar í barnaskólanum. Þið voruð einstakar, þið lærðuð allar eitthvert fag og fóruð í nám og störf erlendis sem var nú ekki algengt að konur gerðu á þessum tíma.

Þið systurnar létuð ykkur annt um okkur bróðurbörn ykkar, hvöttuð okkur til náms og sýnduð í hvívetna væntumþykju ykkar.

Og þú, Sigga mín, varst óspör á að hvetja okkur systkinin um að bursta í okkur tennurnar þegar við vorum að vaxa úr grasi, enda varstu tannsmiður og sást afleiðingarnar á illa hirtum tönnum.

Þú varst lánsöm að eignast jafn hugulsaman son og hann Kristin og hans fjölskyldu. Hann kom ávallt til þín í hádeginu í Lönguhlíðina og síðan á Grund eftir að þú fluttist þangað.

Með þessum fátæklegu orðum vildi ég kveðja þig og þakka þér fyrir okkar samverustundir og væntumþykju og vinsemd sem þú ávallt sýndir mér.

Far þú í friði.

Kristín Lúðvíksdóttir.

Um leið og sumarið kvaddi fékk hún Sigga frænka mín að slást í förina með því til fegri heima. Sigga hefur um nokkurt skeið verið ferðbúin og kom andlátsfréttin því engum á óvart en þó var eins og kaldur gustur færi um allt. Um nóttina gránaði í fjöll.

Sigga fæddist á Brúsastöðum í Þingvallasveit næstyngst átta barna þeirra hjóna Kristínar Símonardóttur og Sigmundar Sveinssonar sem þar bjuggu um tveggja áratuga skeið. Þegar hún var sjö ára fluttu foreldrar hennar til Reykjavíkur og bjó fjölskyldan lengst af í Miðbæjarbarnaskólanum þar sem Sigmundur var húsvörður.

Brúsastaðasystkinin áttu það sameiginlegt að bera í brjósti hlýjar tilfinningar til Þingvallasveitarinnar og litu þau alla tíð á hana sem sína heimasveit. Systurnar áttu þar sumarbústaði um langt skeið og fjölskyldan kom þar oft. Þær systur höfðu sterka þjóðerniskennd og næmi fyrir náttúrufegurð og sögu lands og þjóðar. Hefur fegurð og helgi Þingvalla og nálægðin við alla þá sögulegu stórviðburði sem gerst hafa á 20. öldinni ekki síst orðið til þess að rækta með Siggu sterka þjóðerniskennd og næmt auga fyrir fögrum listum og menningu í þess orðs bestu merkingu.

Hún var í mörg ár félagi í Ferðafélagi Íslands og ferðaðist flest sumur um landið, oft gangandi.

Það var unun að hlusta á hana segja frá ferðum sínum um landið. Man ég sérstaklega hve gaman var að heyra hana segja frá ferð sem hún fór kornung stúlka ásamt Stellu frænku sinni, Soffíu Tubals og e.t.v. fleiri stúlkum. Fóru þær ríðandi úr Fljótshlíðinni og inn í Þórsmörk með tjald og allan farangur á hestum og voru marga daga í ferðinni. Sigga unni Þórsmörk og umhverfi hennar mjög og naut þess meðan heilsan leyfði að fara þangað og dvelja um lengri og skemmri tíma við leik og störf.

Skapgerð Siggu var þannig að vart er hægt að hugsa sér skemmtilegri manneskju, hún var alltaf glöð og ánægð og aldrei man ég eftir að hafa heyrt hana kvarta undan nokkrum sköpuðum hlut. Það var alltaf svo gaman að hitta hana vegna þess að hún fagnaði gestum þannig að þeim fannst þeir vera alveg sérstaklega velkomnir. Var þá sama hvort komið var til hennar á tannsmíðasofuna, heim til hennar í Lönguhlíðina eða á sjúkrasofu. Alltaf var sami fögnuðurinn og gleðin sem umvafði gestinn. Þótt ótrúlegt sé hélt hún þessu viðmóti til hinstu stundar.

Sigga lærði tannsmíði og vann hjá ýmsum tannlæknum þar til síðustu starfsárin er hún vann hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni. Þegar elsta systir Siggu, Sesselja, stofnaði barnaheimilið Sólheima í Grímsnesi var Sigga ein af hjálparhellunum sem studdu Sesselju og hlupu undir bagga þegar erfiðleikar steðjuðu að ásamt mörgum öðrum vinum og vandamönnum. Allt það starf vann Sigga með sömu gleðinni og natninni, sem einkenndi allt hennar líf.

Sigga bjó ásamt Gróu systur sinni í Lönguhlíð 23 og þar ól hún upp son sinn, Kristin Sigmund. Síðustu árin var Sigga ein í íbúðinni en þá kom Kristinn til hennar á hverjum degi, borðaði hjá henni í hádeginu og leit eftir að allt væri í lagi hjá henni. Sigga var búin að panta sér pláss á elliheimilinu Grund mörgum árum áður en kom að því að hún þyrfti að fara þangað. Sýnir það hve raunhæf og hagsýn hún var alltaf og vildi að aðrir þyrftu sem minnst fyrir henni að hafa.

Heimilið sem þær Sigga og Gróa bjuggu sér í Lönguhlíðinni stóð lengst þeirra heimila sem tengdust afa og ömmu og gamla tímanum á Sólheimum. Það var sárt að sjá það hverfa er Sigga þurfti að fara á Grund. Enn sárara er að geta ekki lengur hringt til Siggu eða hitt hana fagnandi og káta. Við systkinin og fjölskyldur okkar kveðjum hana með söknuði en við vitum að fyrir handan er nú fagnað yfir heimkomu hennar. Við sendum Kristni og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Guðrún Sigríður Þórarinsdóttir.

Sem unglingur naut ég þeirrar gæfu að vera í nokkur ár heimagangur á heimili Sigríðar Sigmundsdóttur. Það byrjaði fermingarárið mitt, ég var þá nýlega fluttur í Hlíðahverfið og við Kristinn, sonur Siggu, vorum bekkjarfélagar í Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Tengsl mín við heimilið að Lönguhlíð 23 urðu mjög sterk um tíma og þar var gott að vera. Kristinn bjó þar með móður sinni, Sigríði tannsmið, og Gróu, móðursystur sinni, hárgreiðslukonu, sem héldu þar saman heimili. Kristinn bjó í sérherbergi uppi í risi og réð þar yfir ævintýraveröld sem mér þótti heill undraheimur með alls kyns rafmagnstækjum og radíótólum. Eftir á að hyggja var það e.t.v. merkilegt að táningur, fullur af ólgandi gelgju skyldi sækja í návist þeirra systra. Skýringin var sú að þær systur voru allt öðruvísi en það fullorðna fólk sem ég hafði áður kynnst. Þær höfðu mjög ákveðnar skoðanir á lífinu almennt og til hvers maður ætti að lifa því. Það var gaman og lærdómsríkt að heyra þær rökræða og spjalla. Ekki aðeins um einstaka listamenn og stjórnmálamenn heldur almennt um líf þessa heims og annars því lífssýn þeirra var miklu víðari en svo að þær væru að velta sér upp úr smáatriðum. Þær systur vildu virkja okkur strákana og með jákvæðni og notalegheitum höfðu þær lag á að glæða með okkur einhverja löngun til að vera með í umræðunum. Slíku hafði ég ekki vanist áður og eftir á að hyggja er ég viss um að góðu og notalegu stundirnar í litla eldhúsinu hjá þeim systrum höfðu meiri árif á lífsafstöðu mína en margt annað sem ég lærði síðar á skólagöngunni. Við þessi kynni af þeim systrum í Lönguhlíðinni bættist síðan sú reynsla að kynnast tveimur öðrum systrum Siggu, þeim Sesselju Sigmundsdóttur á Sólheimum í Grímsnesi, sem í dag er landsfræg fyrir sitt einstæða brautryðjendastarf.

Að Sólheimum dvöldum við Kristinn í tveimur páskaleyfum og návistin við Sesselju og mannlífið þar gleymist aldrei. Fjórða systirin, Steinunn, var sjúkraþjálfari sem með samblandi af mýkt og harðneskju nuddaði úr mér alla streituhnúta sem ásóttu mig um tíma.

Allar voru þessar systur menntaðir fagmenn hver á sínu sviði.

Síðan eins og sjálfsagt gerist oft hjá ungu fólki þá skildu leiðir okkar Kristins og við tóku nýir vinahópar en minningin um stundirnar í Lönguhlíðinni var alltaf, og er enn, jafn hlý. En kynnum okkar Siggu var aldeilis ekki lokið. Þegar ég kom til starfa á Heyrnardeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur árið 1977 var Sigga starfsmaður þar og vann við að smíða svokölluð hlustarstykki fyrir heyrnarskert fólk. Og þarna var hún þessi lítilláta kona í ótrúlega þröngu rými og lét ekki mikið fyrir sér fara en samt var hún svo stór. Og þótt aðstaðan væri ekki mikil þróaðist það þannig að vinnuherbergi Siggu var líka kaffistofa allra starfsmanna. Þar fannst öllum best að vera, sem segir meira um Siggu en mörg orð. Og þá eins og í eldhúsinu í Lönguhlíðinni var Sigga alltaf með sína skýru afstöðu til hlutanna, til manna og málefna. Hún var róttæk í skoðunum og víðsýn kona. Á þessum árum kenndi ég stundakennslu við Leiklistarskóla Íslands og oftar en ekki bauð ég Siggu að koma á nemendasýningar. Hún hafði alltaf fylgst mjög vel með öllu sem gerðist í íslensku leikhúsi og var með mjög gott "nef" fyrir hæfileikum og frammistöðu nemenda. Hafa flestar hennar spár gengið eftir. Það var lærdómsríkt fyrir mig að fá hennar sýn og greiningu á frammistöðu þeirra sem var stuðningur í mínu starfi.

Sigga var ekki aðeins góður fagmaður heldur yndislegur samstarfsmaður, samviskusöm, hlý og jákvæð. Þeir voru ekki margir vinnudagarnir sem hún var frá. Enda sagðist hún vera svo óskaplega heppin að veikjast bara um helgar og á kvöldin. Eftir að hún hætti störfum kom hún reglulega til okkar á gamla vinnustaðinn sinn, oftast með eitthvað notalegt með kaffinu. Því miður gafst sjaldnast tími til að spjalla í erli daganna. Sigga var vakandi og sofandi yfir velferð okkar fyrrverandi samstarfsfólksins og fjölskyldna okkar. Það var síðast fyrir tveimur jólum að Sigga kom til okkar á kaffistofu Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar með upprúllaðar pönnukökur og jólastjörnu að auki. Þá var hún að stefna að því að flytjast á dvalarheimilið Grund þar sem hún hefur búið síðustu misserin. Minning mín um Sigríði Sigmundsdóttur, bæði frá Lönguhlíðinni og sem samstarfsmanns, er ljúf og ég veit að hún mun finna sér góðan farveg á nýjum stað. Ég sendi Kristni vini mínum og fjölskyldu hans mínar bestu samúðarkveðjur.

Friðrik Rúnar Guðmundsson.

Kristín Lúðvíksdóttir.