Gísli Teitsson var fæddur í Reykjavík 26. október 1928. Hann lést í Bruxelles 16. september síðastliðinn. Foreldrar hans voru Teitur Teitsson, sjómaður í Reykjavík og kona hans, Anna Gísladóttir. Systkini Gísla voru Anna Sigríður f. 2.4. 1922, d. 13.2. 1979, maki Lárus Bjarnason, látinn og Sigurður, f. 8.10. 1932, d. 17.1. 2000, maki Guðrún Guðmundsdóttir. þau eru bæði látin.

Hinn 23. júní 1956 gekk Gísli að eiga Þóru bókasafnsfræðing, f. 2.5. 1933, dóttur Stefáns Stefánssonar, bónda í Fagraskógi og alþingismanns og konu hans Þóru Magneu Magnúsdóttur. Gísli og Þóra eignuðust tvö börn: Stefán, f. 26.11. 1956, húsasmiður að mennt og starfar sem flokksstjóri hjá Gatnamálastjóra Reykjavíkurborgar, og Önnu Þóru, f. 21.5. 1962, rekstrarverkfræðing og maður hennar er Örn Arnarson, húsasmíðameistari, f. 4.9. 1964.

Gísli lauk gagnfræðaprófi frá Ingimarsskóla 1946 og prófi frá Samvinnuskólanum 1947. Hann hóf árið 1947 starf á skrifstofu húsameistara Reykjavíkurbæjar og starfaði þar í 12 ár. Árið 1959 hóf Gísli störf hjá Innkaupastofnun Reykjavíkurbæjar og starfaði þar í 15 ár, þar af 11 ár sem skrifstofustjóri. Árið 1974 tók hann við starfi framkvæmdastjóra Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Í ársbyrjun 1992 tók ríkið yfir rekstur Heilsuverndarstöðvarinnar og gegndi Gísli eftir það starfi framkvæmdastjóra hjá Heilsugæslunni í Reykjavík þar til hann lét af því starfi fyrir aldurs sakir hinn 1. nóvember 1998. Eftir það gegndi hann um sex mánaða skeið sérstökum verkefnum hjá Heilsugæslunni í hálfu starfi, og hafði hann þá starfað að heilsugæslumálum í aldarfjórðung. Gísli aflaði sér sérmenntunar á sviði heilsugæslu og stjórnunar bæði innan lands og erlendis, m.a. í Göteborg hälsovård 1981-1982. Hann vann mikið að félagsmálum, sótti fjölmörg þing BSRB, var í 4 ár í stjórn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, þar af tvö ár sem varaformaður. Þá var Gísli um tíma millimatsmaður, átti sæti í stjórn Byggingasamvinnufélags starfsmanna Reykjavíkurbæjar, og sat í framkvæmdastjórn byggingarnefndar Laugardalshallar.

Útför Gísla fer fram frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Aldrei er svo bjart yfir öðlingsmanni, að eigi geti syrt eins sviplega og nú; og aldrei er svo svart yfir sorgarranni að eigi geti birt fyrir eilífa trú.

Þegar samferðamenn og vinir kveðja leitar hugurinn til liðinna ára og kallar fram ótal minningar.

Gísli Teitsson var ráðinn framkvæmdastjóri Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur 1. febrúar 1974 og síðar framkvæmdastjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík, en lét af störfum á vormánuðum 1999. Hann var yfirmaður minn og samstarfsmaður í 25 ár.

Til að byrja með voru starfsmenn á skrifstofunni fáir og samheldni mikil. Eftir því sem umfang starfseminnar óx fjölgaði starfsfólkinu, en áfram ríkti samstaða og eining og var það ekki síst Gísla að þakka. Það var gott að starfa fyrir Gísla. Hann var dagfarsprúður og lét aldrei styggðaryrði falla. Hann veitti stuðning þegar á móti blés, lagði gott til mála og vildi bæta það sem aflaga fór. Ég er afar þakklát fyrir hvernig hann reyndist mér í ýmsum erfiðleikum á þessum samstarfsárum. Hann var velgjörðarmaður minn og vinur.

Gísli mat starf sitt mikils og var vakinn og sofinn um málefni heilsugæslunnar. Hann gerði ætíð miklar kröfur til sjálfs sín um vandvirkni og reglusemi og vildi að orð stæðu.

Ekki verður hjá því komist að nefna hve vænt Gísla þótti um hina veglegu byggingu, Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Var það honum alla tíð mikið hjartans mál að húsið héldi sínu upprunalega útliti og byggingarstíl.

Við, gamlir vinnufélagar Gísla, minnumst þess að yfir kaffistofunni sveif jafnan léttur andi þegar hann var mættur. Skemmtilegar tilvitnanir og spaugilega hliðin séð á flestu því sem til umræðu var. Ekki var það málefni til sem ekki var hægt að ræða við Gísla, hvort heldur það var starfstengt eða persónulegs eðlis. Hann hafði einstaka hæfileika til að setja sig inn í mál eða "leggjast yfir mál" eins og hann sagði stundum sjálfur. Ráðleggingar hans voru ævinlega af heilum hug enda hafði hann ótrúlega fjölbreytta yfirsýn yfir hin ýmsu málefni. Í amstri hversdagsins þegar hver lægðin rak aðra á veðurkortunum var Gísli ávallt léttleikansmegin í tilverunni. Sýndi fram á að það eru tvær hliðar á hverju máli, jafnvel fleiri, og að hverjum degi fylgir eitthvað gott, mest um vert að vera léttur í lund.

Gísli var mikill fjölskyldumaður. Það fór ekki fram hjá okkur sem unnum með honum hve ríka umhyggju hann bar fyrir fjölskyldu sinni. Hann dáði Þóru konu sína og var umhyggjusamur faðir, einnig var hann í nánu sambandi við systkini sín og venslafólk.

Á kveðjustund þakka starfsmenn Stjórnsýslu Heilsugæslunnar í Reykjavík Gísla góða samfylgd og vináttu og votta fjölskyldu hans einlæga samúð og hluttekningu við sviplegt fráfall hans.

Jóna Lára Pétursdóttir.

"Öllu er takmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma (pred.)."

Á þetta erum við mannfólkið minnt öðru hverju og því oftar sem aldurinn verður hærri. Nú er Gísli látinn, óvænt og alltof snemma, finnst okkur vinum hans. Þó hefur ýmislegt bjátað á hvað heilsu hans varðaði síðustu árin. En hann var ekki kvartsár og dró aldrei af sér svo enginn átti von á neinu í þessa veru.

Ég kynntist Gísla þegar hann kvæntist Þóru vinkonu minni og skólasystur. Við vorum nágrannar í áratugi og höfðum mikið saman að sælda þegar börnin okkar voru að vaxa úr grasi. Við mæðgin heimsóttum fjölskylduna oft í sumarbústaðinn við Þingvallavatn og vorum fastir gestir á Fornhaganum um jól og áramót. Um árabil fórum við saman í haustlitaferðir, tókum saman slátur og bjuggum til laufabrauð. Gísli tók aldrei beinan þátt í matargerðinni en hann var jafnan nálægur ef okkur kynni að vanta eitthvað úr búð eða við þörfnuðumst hjálpar hans á annan hátt.

Oftast var Gísli með þegar bekkurinn okkar Þóru hélt hátíðleg stúdentsafmæli eða efndi til fagnaðar af öðru tilefni. Þar var hann aufúsugestur, alltaf tilbúinn að taka þátt í gleðinni, ljúfur og hnyttinn í tilsvörum ef sá gállinn var á honum. Allra þessara góðu stunda er ljúft að minnast og þakka nú á kveðjustund.

Gísli var áreiðanlega mikill hamingjumaður. Hann ólst upp á góðu heimili og bar með sér andblæ þess til hinstu stundar. Hann var alltaf í áhugaverðu starfi og kvæntist Þóru,þessari glæsilegu öndvegiskonu. Börnin þeirra tvö eru úrvalsfólk.

Þóra og Gísli bjuggu sér fallegt og menningarlegt heimili. Þau voru einstaklega samrýmd og máttu vart hvort af öðru sjá og áttu mörg sameiginleg áhugamál. Þegar tók að vora og þau áttu frístundir frá vinnu voru þau horfin austur í Grafning. Þar áttu þau sumarbústað og allstórt land sem nú er orðið mikill unaðsreitur. Á þessum stað undu þau hag sínum vel, veiddu silung, ræktuðu skóg og voru óþreytandi að fegra og bæta umhverfi sitt. Þau voru bæði með græna fingur, allt óx og dafnaði sem þau lögðu hönd að. Þegar vetur gekk í garð og ekki viðraði lengur til útivistar fóru þau í leikhús, lásu góðar bækur og hlustuðu mikið á tónlist, enda er af nógu að taka í þeim efnum á heimilinu.

Söknuður Þóru, barna hennar og tengdasonar er mikill. En tíminn, sá mikli galdrameistari, ber með sinni líknandi hönd smyrsl á sárin svo að á þau myndast hrúður. Verkurinn sem sárið olli dvínar því smátt og smátt. Einn góðan veðurdag öðlast lífið tilgang og merkingu á ný og þá er hægt að horfa vonglaður fram á veginn. Vinirnir á Kaplaskjólsvegi og Reynimel votta Þóru, Stefáni, Önnu Þóru og Erni dýpstu samúð.

Að lokum vil ég gera orð Matthíasar Jochumssonar að mínum. Skáldið mælti þetta ljóð af munni þegar hann heyrði lát góðs vinar:

Aldrei er svo bjart

yfir öðlingsmanni,

að eigi geti syrt

eins sviplega og nú;

og aldrei er svo svart

yfir sorgarranni

að eigi geti birt

fyrir eilífa trú.

Ingibjörg Þórarinsdóttir.

Okkur samstarfsfólki og vinum Gísla Teitssonar var mjög brugðið við fréttina um sviplegt fráfall hans. Það er ekki nema tæp tvö ár síðan Gísli lét af störfum framkvæmdastjóra hjá Heilsugæslunni í Reykjavík fyrir aldurs sakir. En það er nú svo að enginn veit sinn næturstað og enginn veit hver annan grefur.

Það var fyrir rúmum áratug að ég kynntist Gísla Teitssyni fyrst. Ég hafði tekið við formennsku í stjórn Heilsugæslustöðvarinnar á Seltjarnarnesi þegar ríkið tók við heilsugæslunni af sveitarfélögunum.

Heilsugæsluastöðvarnar voru sjálfstæðar stofnanir hver fyrir sig og hver með sína stjórn. Til þess að treysta samstarfið við Heilsuverndarstöðina og heilsugæslustöðvarnar í Reykjavík var framkvæmdastjóra Heilsuverndarstöðvarinnar, þ.e. Gísla Teitssyni, boðið að sitja fundi stjórnarinnar á Seltjarnarnesi. Það var gott að sækja góð ráð til Gísla þegar við vorum að stíga þessi fyrstu skref og nutum við þar langrar reynslu hans.

Þegar ég tók við starfi forstjóra Heilsugæslunnar í Reykjavík vorið 1994 jókst samstarf okkar að mun. Eftir það var Gísli einn af nánustu samstarfsmönnum mínum og staðgengill.

Gísli bjó yfir mikilli þekkingu á Heilsuverndarstöðinni og sögu hennar frá upphafi, en í aldarfjórðung var hann framkvæmdastjóri, fyrst Heilsuverndarstöðvarinnar og síðan Heilsugæslunnar í Reykjavík, og fylgdist jafnvel með byggingu Heilsuverndarstöðvarinnar fyrir hálfri öld, en þá starfaði hann hjá Reykjavíkurborg. Og hann kom með einhverjum hætti að byggingu og allra heilsugæslustöðvanna í borginni. Þessi þekking hans kom sér vissulega vel í starfi hans.

Gísli gekk að störfum sínum með þessari hæfilegu blöndu af alvöru og gamansemi. Létt, grípandi fyndni hans lyfti oft lund okkar hinna og jafnvel alvarlegir vinnufundir fengu léttara yfirbragð með nærveru hans. En spaugsemi og létt lund breiddi ekki yfir þann mikla áhuga sem Gísli hafði á starfi sínu og hversu mjög hann bar hag Heilsugæslunnar fyrir brjósti.

Það er vissulega margs að minnast þegar góður drengur er á brautu. Við minnumst margra góðra stunda í starfi og við önnur tækifæri. Árshátíðirnar og aðrar gleðistundir með Gísla og Þóru eiginkonu hans eru ógleymanlegar. En efst er þó í huga þakklæti fyrir að hafa átt Gísla fyrir samstarfsmann og vin.

Við Dóra vottum Þóru og fjölskyldu hennar innilega samúð og biðjum þeim Guðs blessunar.

Guðmundur Einarsson.

Guðmundur Einarsson.