Magnús Bakkmann Andrésson fæddist á Bakka í Bjarnarfirði í Strandasýslu 1. september 1918. Hann lést á heimili sínu 19. september síðastliðinn. Hann var sonur hjónanna Júlíönu Guðmundsdóttur, f. 26. júní 1874, d. 2. september 1956 og Andrésar Jóhannssonar, bónda á Bakka og síðar á Gíslabala, f. 2. maí 1876, d. 27. september 1943.

Júlíana og Andrés eignuðust átta börn auk Magnúsar og eru þau nú öll látin. Þau voru Ágústa Rósa sem lengst af bjó á Akranesi; Jón sem lést frumvaxta; Jóhann, bóndi á Gíslabala og á Bassastöðum; Ólafur Jóhannes, sjómaður á Ísafirði, fórst í róðri frá Ísafirði 23 ára gamall; Sólmundur, bóndi á Gíslabala, lést 29 ára gamall; Rósa lést ung; Magnús Bakkmann eldri, lést ungur, og Vilborg á Gíslabala lést 23 ára gömul. Júlíana átti tvo drengi með fyrri manni sínum, Jóni Þorsteinssyni, er fórst í róðri frá Gjögri og eru þeir báðir látnir. Þeir voru Sigurður, lést frumvaxta, og Sigurður Árni, sjómaður á Ísafirði og síðar í Hafnarfirði.

Hinn 6. desember 1947 kvæntist Magnús Matthildi Júlíönu Sófusdóttur, f. 26. ágúst 1928, d. 24. maí 2000. Þau eignuðust tvo syni: 1) Sófus, f. 8. mars 1956, kvæntur Gunnfríði Magnúsdóttur, börn hans eru Bergný Dögg, sem á tvær dætur, Hafdísi Ósk og Guðnýju Rós, Matthildur Kristín, Guðmundur Freyr og Stígur Berg. 2) Andrés, f. 20. nóvember 1958, kvæntur Súsönnu Ernudóttur, börn hans eru Magnús Bakkmann, Jóhannes og Júlíana Svanhvít.

Magnús átti heima á Bakka til 1921 en flutti þá ásamt foreldrum sínum og systkinum að Gíslabala í Árneshreppi í Strandasýslu. Hann bjó ásamt Matthildi á Finnbogastöðum í Árneshreppi og Drangsnesi til 1969, en fluttu þá á Akranes þar sem þau bjuggu lengst af á Suðurgötu 121.

Hann sat í stjórn verkalýðsfélags Kaldrananeshrepps í fimmtán ár og var þar af formaður í níu ár. Hann starfaði einnig mikið fyrir Verkalýðsfélag Akraness. Magnús starfaði við vélgæslu hjá Þórði Óskarssyni frá því hann flutti á Akranes og fram á sjötugsaldur.

Magnús var jarðsunginn frá Akraneskirkju 25. september.

Minn elskaði afi var öllum kær, og einstakur fjölskyldu-maður. Því minnast hans margir, fjær og nær, var maður svo hress og glaður. Ég man hversu hýr hann hélt mér í hönd, svo háttprúður laus við þvaður. Nú leiðir hann ömmu um iðgræn lönd, af ástvinum margblessaður.

Nú er hann afi líka farinn. Ekki hefði mér dottið það í hug fyrir fjórum mánuðum þegar amma dó, að það væri svona stutt þangað til ég myndi fylgja afa til grafar. Hann átti svo margt eftir að gera og ætlaði sér norður í réttir daginn sem hann dó. Hann lifði fyrir það að komast norður að hitta gömlu kunningjana til að rifja upp gömlu dagana. Við afi fórum saman norður einu sinni í sumar og það er ólýsanlegt hvað það var gaman og er ég miklu fróðari um allt fyrir norðan eftir þessa ferð. Hann var öllum svo góður og þá sérstaklega sínum nánastu. Alltaf þegar við komum til hans voru stelpurnar okkar aðalnúmerið og hann settist á gólfið til að spila við þær eða skoða bækur. En nú er enginn eftir á Suðurgötunni, amma og afi bæði farin með svona stuttu millibili.

Minn elskaði afi var öllum kær,

og einstakur fjölskyldu-maður.

Því minnast hans margir, fjær og nær,

var maður svo hress og glaður.

Ég man hversu hýr hann hélt mér í hönd,

svo háttprúður laus við þvaður.

Nú leiðir hann ömmu um iðgræn lönd,

af ástvinum margblessaður.

Hinsta kveðja.

Bergný Dögg Sófusdóttir.

Hve nær sem kallið kemur,

kaupir sig enginn frí.

Þar læt ég nótt sem nemur,

neitt skal ei kvíða því.

(H.P.)

Ég fann til sárrar hryggðar þegar mér barst fregnin um andlát vinar míns og félaga Magnúsar Andréssonar.

Hann talaði við mig daginn fyrir andlát sitt hress og glaður, sagðist vera að fara norður á Strandir með syni sínum. Hann ætlaði að hitta frændur og vini, fara í réttirnar. Taka þátt í gleðinni sem fylgir réttardögum. Finna andblæ af sumrinu sem er að líða. Fara heim þangað sem hann átti æsku sína og manndómsár.

Þetta var ferðin sem aldrei var farin. Kallið var komið. Hjartað var að gefast upp. Þó dauðann hafi borið svo brátt að, verðum við að geta unnt honum þess að fá að sofna í rúminu sínu heima og vakna ekki aftur til þessa lífs. En allir þeir sem áttu hann að sakna hans innilega.

Magnús var góður maður. Ég veit ekki um neinn sem ekki bar hlýjan hug til hans. Frá því að þau hjónin Magnús og Matthildur Soffusdóttir fluttu á Akranes var hann verkamaður, lengst af á sama vinnustað hjá útgerð Þórðar Óskarssonar. Þar var hann hvers manns hugljúfi, glettinn og gamansamur, vildi hag útgerðarinnar sem bestan, en fyrst og síðast var hann trúr sinni stétt. Hann var snemma kosinn til trúnaðarstarfa í Verkalýðsfélagi Akraness. Áður hafði hann verið í forystusveit Verkalýðsfélagsins á Drangsnesi á Ströndum.

Magnús var félagsmálamaður í orðsins bestu merkingu. Tryggð sinni við Verkalýðsfélagið hélt hann fram á síðasta dag, mætti á alla fundi. Nú síðast fyrir nokkrum dögum sátum við gamlingjarnir, fyrrverandi forystumenn í Verkalýðsfélaginu, Herdís Ólafsdóttir, Garðar Halldórsson og undirrituð, ásamt með Magnúsi, á miklum átakafundi innan félagsins sem stóð í rúma fimm klukkutíma. Engu okkar datt í hug að fara fyrr en í fundarlok og síst honum.

Í þau ferðalög sem Verkalýðsfélagið býður öldnum félögum sínum var Magnús alltaf með og hafði mjög gaman af. Ég hygg að þau, ásamt ferðum á Strandir, hafi verið einu ferðalögin sem Magnús fór í um langan aldur og hlakkaði alltaf jafn mikið til þeirra.

Næst hittumst við Magnús í Félagi eldri borgara á Akranesi. Þau ár sem ég hefi verið þar formaður var hann mér mikil hjálparhella. Hann opnaði oft fyrir mig skrifstofuna og var þar til taks ef ég þurfti að vera annarstaðar, eða til að koma af stað spilamennsku þar eða inni á Höfða. Hann hafði mjög gaman af að spila brids. Við vorum spilafélagar í mörg ár. Hann var slyngur spilamaður, en varkár eins og í öllu öðru. Alltaf skyldi hann vera tilbúinn til að standa upp ef einhver var stakur og alltaf var sama viðkvæðið: "Það er allt í lagi með mig, ég verð með næst." Öll lyndiseinkunn hans var, bæði í stóru og smáu, að hugsa fyrst og fremst um aðra, hjálpa öðrum, gleðja aðra. Síðast kom að sjálfum sér.

Hann var mikill fjölskyldumaður og frændrækinn og það voru þau hjón bæði. Það var því mikið skarð fyrir skildi, þegar Matthildur kona hans dó fyrir nokkrum mánuðum. Hún var mikil félagsmálakona og gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Magnús saknaði konu sinnar mikið og ég held að hann hafi oft fundið til einmanakenndar. Vonandi hefur hann fundið Möttu sína aftur.

Það er mikill missir að þeim hjónum. Þó allra mestur fyrir syni þeirra, tengdadætur og öll barnabörnin og langömmu og -afabörnin. Ég sendi þeim mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið guð að blessa þau öll.

Kæran vin og félaga kveð ég með blessun og þakklæti.

Bjarnfríður Leósdóttir.

Bergný Dögg Sófusdóttir.