Jóhann Ólafsson fæddist í Stafholti í Stafholtstungum í Mýrasýslu hinn 29. maí 1938. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu Melabraut 2, Seltjarnarnesi, hinn 19. september síðastliðinn.

Foreldrar hans voru Ólafur Guðjónsson, f. 5. nóvember 1897, d. 25. janúar 1980, og Rannveig Jóhannsdóttir, f. 20. ágúst 1913, búendur að Litla-Skarði í Stafholtstungum frá 1945 til 1980.

Jóhann átti tvo bræður: Sigurð, f. 8. janúar 1942, og Guðbjörn, f. 27. júní 1943.

Jóhann ólst upp að Litla-Skarði, en fluttist til Reykjavíkur um 1954 og síðar á Seltjarnarnes og átti þar heima alla tíð síðan. Hann lagði stund á nám í útvarpsvirkjun og síðar flugnám og aflaði sér atvinnuflugmannsréttinda. Stundaði síðar nám við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð og lauk þaðan stúdentsprófi. Stofnaði eigið innflutnings- og heildsölufyrirtæki laust eftir 1960 og starfaði hann við það allt til ársins í ár er hann hætti starfrækslu þess.

Jóhann kvæntist ekki og lætur ekki eftir sig afkomendur.

Útför Jóhanns fer fram frá Fossvogskapellu í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Jóhann fluttist ungur til Reykjavíkur og vann við bókhald og fjámálastjórnun hjá byggingafyrirtækjum auk þess sem hann fór nokkrar sjóferðir með togurum og var meðal annars við veiðar við Nýfundnaland. Hugur Jóhanns stóð til þess að verða flugmaður og lauk hann flugnámi með réttindum til atvinnuflugs en atburðir höguðu því svo að hann lagði áform um atvinnuflug á hilluna en var einkaflugmaður um árabil.

Árið 1968 stofnaði Jóhann eigið fyrirtæki, Ísaberg hf., sem hann síðar breytti í Iðnaðarvörur, og hóf sölu á Thyssen-rafsuðuvír. Starfsemin var í upphafi í kjallara á Ránargötu en kallaði fljótt á stærra húsnæði og þegar Jóhann var að innrétta nýtt húsnæði við Kleppsveg snemma árs 1972 rakst hópur 11 ára stráka inn í húsnæðið einn rigningardag og tók Jóhann tali. Í þeim hópi var undirritaður og upphófst þá kunningsskapur sem síðar varð að traustum vinskap sem varað hefur í tæp þrjátíu ár.

Vorið 1972 hóf ég störf sem sendill hjá Iðnaðarvörum og naut tryggrar leiðsagnar Jóhanns í nákvæmni og áreiðanleika í viðskiptum. Síðustu árin hafði Jóhann mjög gaman af að minna mig á sendilssumarið, þegar mikið lá á að leysa vörur út hratt, og hve vel okkur tókst að ná vörum inn á gólf þótt Verðlagsstofnun, Gjaldeyriseftirlitið og aðar stofnanir teldu sig þurfa heila eilífð til að klára alla stimpilvinnuna.

Jóhann byggði upp lítið en öflugt fyrirtæki sem þjónaði járnsmíðaiðnaðinum. Burðarásinn í starfseminni voru amerískar Miller-rafsuðuvélar og þýski Thyssen-rafsuðuvírinn. Jóhann var vel kynntur meðal eigenda og starfsmanna í járniðnaði, og þótti gott og traust að eiga viðskipti við hann. Ekki var verið að bruðla í umgjörð rekstrarins, en þess meiri áhersla var lögð á gæðavörur.

Ég minnist þess að Jóhann flutti eitt sinn inn loftverkfæri frá Asíu, sem hann mat síðan ekki nægjanlega góð til að hann vildi leggja nafn sitt við að selja þau. Þessi verkfæri voru síðan gefin og frétti ég hjá einum járniðnaðarmanni sem notaði þau að ekkert hefði verið að þeim þótt þau hefðu ekki verið í hæsta gæðaflokki, en Jóhanni var mikið í mun að það sem hann seldi stæðist hans eigin ströngu kröfur.

Jóhann ákvað árið 1975 að hefja nám í Menntaskólanum í Hamrahlíð. Hann stundaði námið af mikilli elju, samhliða því að reka fyrirtækið og lauk stúdentsprófi vorið 1979.

Í náminu lagði Jóhann mikla rækt við þýsku. Hann lauk öllum þýskuáföngum sem í boði voru með hæstu einkunn og hafði enginn gert það áður. Þessi árangur er jafnvel enn meiri ef litið er til þess að Jóhann dvaldi líklega samanlagt innan við tvær vikur í þýskumælandi landi yfir alla ævina. Ef til vill hefur annar nemandi náð sama árangri en metið verður ekki slegið heldur aðeins jafnað.

Jóhann var þekktur fyrir sterkar skoðanir á því hvað rétt væri og rangt í rekstri á íslenska þjóðarbúinu. Honum fannst ekki mikið til þeirra einstaklinga koma sem voru fullfrískir og vinnufærir, en höfðu kosið að láta aðra um að annast framfærslu sína og sveið honum mjög sárt þegar menn voru að gorta af því við hann hvernig þeir hefðu fé út úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Jóhann skilaði alltaf sínu í sameiginlega sjóði og var eitt árið þriðji hæsti skattgreiðandi á Seltjarnarnesi.

Jóhann var mikill áhugamaður um nýjungar á sviði upplýsingatækni og var mjög fljótur að tileinka sér þær. Ég kynntist þessu sérstaklega vel þegar ég dvaldi við nám í Bandaríkjunum, en þá sá ég um kaup á hugbúnaði fyrir Jóhann. Hann var gjarnan búinn að biðja mig um að kaupa forrit fyrir sig áður en þau voru komin á almennan markað svo vel fylgdist hann með þróuninni.

Fyrir milligöngu Jóhanns var ég vinnumaður tvö sumur að Litla-Skarði í Stafholtstungum, þar sem foreldrar hans bjuggu. Þessi sumur eru mér mjög eftirminnileg og lífsreynsla sem ég hefði ekki viljað missa af. Sérstaklega eru mér eftirminnileg kynnin af afa Jóhanns og nafna, sem þá var kominn á tíræðisaldurinn. Jóhann kom reglulega í heimsókn að Litla-Skarði og man ég mjög vel eftir veiðiferðum okkar í Lambavatn og Silungatjörn, en í þessum vötnum hafði hann sjálfur veitt á yngri árum og gat nánast sagt hvar fiskur tæki á.

Síðustu árin var Jóhann farinn að draga saman starfsemi fyrirtækisins og hafði hug á að hætta starfsemi en það sem varð til þess að þeirri ákvörðun var ávallt frestað var umhyggja fyrir Guðfinnu Hannesdóttur, en hún var traustur starfsmaður hjá fyrirtækinu í um aldarfjórðung. Jóhann gat ekki hugsað sér að hún hætti störfum fyrr en hún ákvæði sjálf að fara á eftirlaun. Jóhann bar mikið traust til Guðfinnu og hún brást því aldrei. Ég sakna þess að geta ekki komið við í Iðnaðarvörum á Kleppsveginum og heilsað upp á Jóhann og Guðfinnu.

Eftir að Jóhann ákvað að hætta rekstri Iðnaðarvara og seldi húsnæðið snemma í vor ætlaði hann að sinna ýmsum áhugamálum og vera mikið á ferðinni, eins og hann orðaði það sjálfur. Við Jóhann hittumst síðast fyrir um fimm vikum og ræddum þá um að fara saman á búvélasafnið á Hvanneyri og skoða gömlu Alles Chalmers-dráttarvélina frá Litla-Skarði sem nú er varðveitt á safninu, en sú ferð verður að bíða.

Jóhann er genginn á vit feðranna en eftir standa minningarnar um góðan vin.

Haukur Þór Haraldsson.

Haukur Þór Haraldsson.