Jónína Steinunn Þórisdóttir fæddist á Seyðisfirði 15. apríl 1931. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Seyðisfirði 18. september síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Seyðisfjarðarkirkju 23. september.

Vegna mistaka við vinnslu blaðsins víxlaðist hluti af texta í minningargreinum sem undirritaðar voru af Helgu Ósk og Dóru Guðmundsdóttur í blaðinu 23. september. Hlutaðeigendur eru beðnir velvirðingar á mistökunum.

Guð gefi mér æðruleysi, til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt. Kjark til þess að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.

Elsku mamma mín. Þá ertu loksins komin til pabba og Valgerðar systur eftir baráttu við erfiðan sjúkdóm. En þú varst svo dugleg í veikindum þínum. Ég er búin að búa í Reykjavík í tæp fimm ár en það var alltaf best að koma heim á sumrin, þú tókst alltaf svo vel á móti okkur eins og þér einni er lagið. Ég á eftir að sakna alls þess sem við gerðum saman. Ég á eftir að segja litlu dóttur minni og ófædda barninu mínu allt um ömmu Jónínu. Elsku mamma, ég kveð með söknuði, vonandi líður þér vel núna. Takk fyrir allar yndislegu minningarnar sem þú skilur eftir. Kærar þakkir til starfsfólksins á sjúkrahúsinu á Seyðisfirði fyrir góða umönnun. Hér kemur svo bænin sem þér er svo kær.

Guð gefi mér æðruleysi,

til þess að sætta mig við

það sem ég fæ ekki breytt.

Kjark til þess að breyta því

sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

Þín dóttir,

Helga Ósk.

Elsku amma mín.

Mér finnst svo ótrúlegt að ég eigi aldrei eftir að sjá þig aftur.

Þegar ég var barn þá var ég alltaf með annan fótinn hjá þér og afa og fór ég með ykkur í allar sumarbústaðarferðir og útilegur.

Eftir að ég varð eldri og eignaðist dóttur mína þá komum við til þín á hverjum degi og gátum við talað saman um allt milli himins og jarðar. Þú varst alveg ótrúlega fróðleiksfús og vissir svo margt.

Aldrei talaðir þú illa um nokkurn mann og alltaf sást þú það góða í öllum.

Eftir að ég flutti til Reykjavíkur og síðan til Danmerkur, þá var svo erfitt að geta ekki talað við þig eins mikið og ég var vön.

Þú varst búin að ákveða að koma í heimsókn til okkar til Dannmerkur og varst búin að kaupa miðann áður en þú veiktist, og þegar ég kom í heimsókn til þín í sumar á sjúkrahúsið þá talaðir þú um hvað þú hlakkaðir til að koma út til mín.

Þótt þú værir mikið veik þá varst þú alltaf svo jákvæð og kvartaðir aldrei.

Sara dóttir mín á eftir að sakna þín. Hún hefur oft sagt mér hvað henni þyki vænt um langömmu.

Ég kveð þig með söknuði og þú átt alltaf sérstakan stað í mínu hjarta.

Þín dótturdóttir,

Íris Brynja.

Sól lækkar á lofti, blómin fölna og falla, það er komið haust, þá kvaddir þú Jónína mín eftir erfitt vor og sumar. Fyrst höfðum við vonina, en það var bara von, allt var gert en stundin var komin og við tók bið eftir lausn. Þær eru margar minningarnar eftir að hafa átt þig að vini meira en hálfa ævina og allar góðar. Minningar um konu sem aldrei kvartaði þótt hún væri sárkvalin, konu sem hugsaði um velferð og líðan annarra, átti alltaf huggunarorð fyrir vini og fjölskylduna sem hún elskaði svo heitt og lifði fyrir.

Jónína mín, þegar ég hitti þig seinast þá kvaddi ég þig, það var erfitt, við ætluðum að gera svo margt á næstu árum og eyddum löngum stundum saman og létum okkur dreyma. Núna í haust ætlaði ég að koma til þín og við ætluðum í berjamó, en við gerum það seinna á öðrum stað. Þú áttir þann góða eiginleika að geta hlakkað til. Þegar við töluðum saman sagðir þú mér frá einhverju sem þú hlakkaðir til eða einhverju sem þú hafðir gert, sem var svo skemmtilegt. Það þurfti ekki stóra hluti til að gleðja þig, þú varst ekki manneskja sem gerðir kröfur fyrir sjálfa þig heldur varst alltaf að gefa af þér með hlýju þinni og góðri nærveru. Fjölskylda þín hefur misst mikið, hún hefur staðið eins og klettur við hliðina á þér í þessum miklu veikindum.

Það verður tómlegt að koma á Seyðisfjörð því hvorki þú eða Frissi þinn verða þar til að taka á móti mér með allri ykkar gestrisni og glaðværð.

Nú skiljast leiðir í bili en eitt er ég viss um að þið verðið í hópnum sem tekur á móti mér þegar minn tími kemur. Nú ert þú hjá Frissa þínum og litlu Valgerði Brynju sem var tekin svo fljótt frá ykkur og þér líður vel. Ég bið Guð og góðar vættir að styrkja börn, barnabörn og aðra sem nú syrgja þig. Vertu sæl góða vinkona, þakka þér fyrir vináttu þína.

Dóra Guðmundsdóttir.

Helga Ósk.