Jón Jörunds Jakobsson var fæddur í Reykjavík 26. september 1929. Hann lést 7. september síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jakob Jónasson rithöfundur, f. 26.12. 1897, d. 27.3. 1981, og María Guðbjörg Jónsdóttir frá Reykjanesi, f. 14.9. 1902, d. 26.6. 1980.

Systkini hans; Jenný Jakobsdóttir, f. 14.4. 1931, d. 7.3. 1988, Haraldur Gunnar Jakobsson, f. 9.6. 1934, d. 16.8. 1975. Eftirlifandi systkini hans eru: Helga Þóra Jakobsdóttir verslunarmaður og Jónas Jakobsson skipstjóri.

Eiginkona hans var Kristín Þórarinsdóttir, f. 4.4. 1927, d. 13.3. 1992. Börn þeirra: Þórarinn J. Jónsson, f. 1.12. 1960, sölufulltrúi. Kona hans Jóhanna Gunnarsdóttir stöðvarstjóri; Jakob Jörunds Jónsson, f. 23.2. 1968, stýrimaður. Sonur Jakobs, Jón Bragi Jakobsson, f. 11.8. 1994.

Útför Jóns Jörunds fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Mig langar í örfáum orðum að fá að kveðja þig, Daddi minn, eins og þú varst alltaf kallaður. Þú varst kvaddur svona skyndilega á brott og mér finnst gott til þess að vita að Stína þín, amma, afi, pabbi og Jenný séu þarna öll og hafi tekið á móti þér. Alveg frá því að ég man fyrst eftir mér upplifði ég þig sem mjög sérstakan, dulan og einrænan mann. En þú og þín yndislega kona, Kristín Þórarinsdóttir, sem lést árið 1992, áttuð sérstakan sess í hjarta mínu. Og mér þótti alltaf vænt um að heimsækja ykkur og drengina ykkar tvo, Þórarin og Jakob. Þegar ég var lítil voruð þið með mig í nokkurn tíma. Eins og gengur muna fæstir eftir sér frá 2ja ára aldri en ég gleymi því aldrei þegar þú leyfðir mér að stýra bílnum þínum og þeyta flautuna en ég náði varla upp fyrir stýrið. Og hvað við, ég, þú og Stína gátum hlegið þegar þið voruð að rifja upp bátsferðina á Þingvallavatni og atvikið þegar Stína sagði um leið og hún sleppti af mér hendinni: "María, vertu alveg kjur því ég ætla að kveikja mér í sígarettu," en um leið og hún sleppti mér henti ég mér út í vatnið.

Líf þitt snerist um að vinna og aftur vinna, og þess vegna hefur þú sennilega ekki látið þér nægja að vera meistari í einni iðngrein, heldur varstu menntaður húsa- og bifreiðasmíðameistari. En það var ekki fyrr en í jarðarförinni að ég heyrði að þú hefðir unnið til verðlauna fyrir húsateikningar. Ég sem hélt að allir ættingjarnir hefðu verið á bakvið tré þegar Guð úthlutaði listrænum hæfileikum, en það var líkt þér að segja ekki frá þessu sjálfur. Í gegn um árin vorum við oft í símasambandi og þú talaðir við mig um strákana þína og hversu stoltur þú værir af þeim, þó að því miður hafir þú ekki sagt það oft við þá sjálfa. Kannski að þér hafi fundist það hálfgert sjálfshól að hæla þínum eigin sonum. En ég veit það ,Daddi minn, hversu vænt þér þótti um þá báða. Þú gafst aldrei neinum færi á þér og það fór enginn inn fyrir skelina þína, þú varst bara þannig. Sem unglingur man ég að þú og Stína voruð alltaf að fara með ömmu og afa í utanlandsferðir, en eftir að þú misstir Stínu þína ferðaðist þú ekki. En lífið heldur áfram, Daddi minn, og nú ertu kominn til Stínu þinnar og vonandi heldur ferðalagið áfram hjá ykkur. Ég kveð þig núna í hinsta sinn ,kæri frændi. Elsku Jakob og Þórarinn, ég bið góðan Guð að vaka yfir ykkur og blessa ykkar líf.

María Haraldsdóttir.

María Haraldsdóttir.