Gunnar Bachmann Sigurðsson fæddist 11. ágúst 1959. Hann lést 14. september síðastliðinn. Foreldrar hans eru Sigurður Guðmundsson, f. 30. maí 1928 og Geirlaug Jónsdóttir, f. 19. september 1930. Bróðir Gunnars er Birgir Sigurðsson, f. 18. október 1962, maki Sólveig Bjarnþórsdóttir, f. 1. febrúar 1959. Unnusta Gunnars er Helena Christina Vroegop, f. 22. júní 1958.

Útför Gunnars fór fram frá Digraneskirkju 25. september.

Það er með trega sem ég kveð góðan vin minn, Gunnar Bachmann, alltof snemma. Þegar ég frétti af láti hans var ég í fyrstu reið, en nú virði ég ákvörðun hans, þótt ég sé ekki sátt við hana.

Ég kynntist Gunnari fyrir 17 árum síðan þegar við Rikki byrjuðum saman. Í fyrstu fannst mér hann furðulegur og ég var jafnvel hálf hrædd við hann. En svo varð mér ljóst að það var stamið sem gaf manni ranga mynd af Gunnari. Stamið hafði háð Gunnari alla tíð, bæði í skóla og í samskiptum við annað fólk. Gunnar hafði slæmt stam sem olli því að stundum var eins og hann væri farinn að öskra orð sem hann átti erfitt með að ná. Það gat reynt á þolinmæðina að tala við hann, en þegar maður vandist því hafði Gunnar frá mörgu að segja.

Fyrstu árin eftir að ég kynntist Gunnari var hann fyrst og fremst vinur Rikka, við fórum stundum þrjú saman í bíó, en venjulega hélt ég mig í hæfilegri fjarlægð frá þykku vindlareykingaskýi þeirra og oft sérkennilegri tónlist sem þeir hlustuðu saman á og ræddu fram og aftur.

Síðustu árin fórum við Gunnar að tala mun meira saman. Hann sýndi því áhuga sem ég var að fást við hverju sinni og gaf okkur lifandi lýsingar á vinnu sinni á Seltjarnarnesi. Hann var barngóður og þolinmóður að hlusta á frásagnir dætra okkar Rikka. Á þessum árum tók Gunnar þátt í stofnun Málbjargar, samtaka stamara, og leyfði okkur að fylgjast með framgangi félagsins. Sérstakt áhugamál hans var fræðsla og stuðningur við foreldra barna sem stama. Stam hans sjálfs minnkaði mikið eftir fræðslu á vegum samtakanna. Um þetta leyti tók Gunnar þá stóru ákvörðun að flytja að heiman og hann keypti sér íbúð í Smáranum.

Skilnaður okkar Rikka, besta vinar hans, var honum mikið áfall. Ég virti það mikils þegar hann kom til mín og sagðist vilja halda sambandi við okkur bæði, sem hann og gerði. Hann hlustaði þolinmóður á nýju diskana mína og auðvitað vissi hann allt um hljómsveitirnar, enda gangandi alfræðiorðabók um tónlist.

Í lok síðasta árs heyrði ég ekki frá Gunnari í nokkrar vikur og var orðin undrandi. Í ársbyrjun kom hann í heimsókn og sást langar leiðir að hann var breyttur. Hann var ástfanginn upp fyrir haus. Elskan hans var Helen og hann flutti til hennar nokkrum vikum eftir að þau byrjuðu saman. Hann kynnti hana fyrir mér og ég hef sjaldan séð jafnástfangið og samhent par. Ég átti nokkrum sinnum ógleymanlegar stundir með þeim, síðast í júlí þegar þau buðu mér og dætrunum í garðgrillveislu. Ég get eingöngu lýst Gunnari með jákvæðum orðum. Hann var sannur vinur vina sinna, ætíð jákvæður, blíður, einlægur og sá björtu hliðarnar á hlutunum. Ég var farin að taka Gunnari og góða skapinu hans sem sjálfsögðum hlut. Missir okkar allra er mikill. Ég vil senda vinum Gunnars og fjölskyldu innilegustu samúðarkveðjur frá mér og fjölskyldu minni. Mestur er þó missir Helenar og vona ég, að hún muni allt hið jákvæða við Gunnar. Ég kveð Gunnar, þótt ég eigi ennþá von á símtali frá honum með ávarpinu "Sæl. Þetta er G-Gunnar".

Svanhildur Bogadóttir.

Það er með miklum trega að ég kveð Gunnar vin minn í síðasta skipti, sérstaklega þegar þessi kveðja er allt of snemma á ferðinni. Ég hefði gjarna viljað bíða með hana í nokkra áratugi í viðbót. Við kynntumst fyrst í sumarbúðum í Lækjarbotnum þegar við vorum u.þ.b. tíu ára gamlir.

Sameiginleg búseta í vesturbæ Kópavogs tryggði síðan að leiðir okkar héldu áfram að liggja saman og sameiginleg áhugamál tryggðu að við urðum perluvinir næstu þrjá áratugina. Gunnar fékk kassettutæki í fermingargjöf og við það hófst sterkur tónlistaráhugi sem fylgdi honum til æviloka. Hann kom sér fljótlega upp miklu plötusafni sem síðan hélt áfram að vaxa þar til yfir lauk. Þar var ekki verið að festa sig við einstakar tónlistarstefnur þannig að í safninu kenndi margra grasa og fjölbreytnin var ótrúleg. Í hvert sinn sem komið var í heimsókn brást ekki að Gunnar var búinn að fá eitthvað nýtt og spennandi. Fyrir mig varð þetta plötusafn fjársjóður þar sem endalaust var hægt að finna eitthvað nýtt. Stór hluti af vinnu minni felst í því að vita meira um tónlist en flestir aðrir og ég held að fáir geti ímyndað sér hvílíkan bakhjarl ég hafði í Gunnari sem alltaf var óþreytandi við að kanna flest þau svið tónlistar sem ég komst ekki yfir sjálfur og deila með mér uppgötvunum sínum. Þannig gátum við eytt heilu kvöldunum við að hlusta á og tala vítt og breitt um tónlist. Hún var aðaláhugamál okkar beggja og þráðurinn sem hélt okkur sterkast saman í öll þessi ár. Hvað sem gekk á var Gunnar tryggasti vinur minn. Þó ég flyttist nokkrum sinnum erlendis um lengri tíma, tók Gunnar alltaf á móti mér aftur eins og ég hefði aðeins brugðið mér í helgarbíltúr. Ég var farinn að taka því sem gefnum hlut að við yrðum alltaf vinir fram eftir hárri elli. Það var mér því mikið áfall þegar kom á daginn að sú yrði ekki raunin og hefur skapað stórt tómarúm í lífi mínu. Ég verð bara að lifa í voninni um að hann sé einhvers staðar á betri stað og haldi áfram að vaka yfir mér. Einhver yndislegasti hæfileiki Gunnars var takmarkalaus bjartsýni. Það virtist litlu máli skipta hvaða mótlæti hann lenti í, hann sá alltaf björtu hliðarnar á málunum. Eflaust má deila um hversu holl þessi bjartsýni hefur verið honum sjálfum, en hitt er víst að ég hafði gott af henni. Hvenær sem eitthvað bjátaði á hjá mér, þurfti ekki annað en að heilsa upp á Gunnar og smá skammtur af bjartsýni hans kom ástandinu ef ekki í himnalag, þá a.m.k. í mun betra horf. Það var eitt sterkasta persónueinkenni Gunnars að hann virtist vera alveg laus við illar hugsanir. Aldrei nokkurn tíma minnist ég þess að hann hafi sagt illt orð um nokkurn mann í mín eyru. Hann hefði örugglega haft fulla ástæðu til þess miðað við þá meðferð sem hann sætti af hálfu margra, en aldrei varð ég var við að hann sæi nokkuð annað en björtu hliðarnar á þeim samskiptum.

Fyrst og fremst var hann ein af þessum sárasjaldgæfu manneskjum sem voru með hjarta úr gegnheilu gulli. Ég mun alltaf minnast hans sem míns einlægasta og besta vinar og er þess fullviss að þegar ég fer á eftir honum, muni hann taka á móti mér hinum megin og við munum taka þar upp þráðinn eins og ekkert hafi í skorist. Þangað til verðum við að láta hverjum degi nægja sína þjáningu í von um að tíminn lækni öll sár.

Ríkharður H. Friðriksson.

Svanhildur Bogadóttir.