RAGNAR Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs hjá Norðuráli, segir að fyrirtækið vonist eftir því að svör fáist nú í júnímánuði við því hvort hægt verður að ráðast í stækkun verksmiðju fyrirtækisins á Grundartanga.

RAGNAR Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs hjá Norðuráli, segir að fyrirtækið vonist eftir því að svör fáist nú í júnímánuði við því hvort hægt verður að ráðast í stækkun verksmiðju fyrirtækisins á Grundartanga.

Ragnar sagði að þeir tveir fundir sem verið hefðu með stjórnvöldum og Landsvirkjun á miðvikudaginn væru liður í röð funda sem verið hefðu undanfarið og ættu eftir að vera á næstunni. Engin sérstök tímamót hefðu verið í þessum efnum nú að öðru leyti en því að Kenneth Peterson hefði verið á þessum fundum. Hann hefði ekki mikið verið hér á landi undanfarin 2-3 ár og því hefðu fundirnir bæði verið vinnufundir og til upplýsingar fyrir hann um stöðu mála.

Viðræður ganga samkvæmt áætlun

"Það má segja að það séu í raun og veru viðræður í fullum gangi og gangi samkvæmt áætlun en það er ekki komin nein niðurstaða enn þá, hvorki í viðræðum um orkuna né gagnvart hinu opinbera um skattamál og aðstöðu," sagði Ragnar.

Hann sagði að þeir hefðu lagt á það áherslu að meginlínur í þessum efnum gætu legið fyrir helst nú í júní til þess að þeir gætu tekið ákvörðun um hvort það eigi að halda áfram með verkefnið eða ekki. Það sem þeir væru að leita eftir væru forsendur varðandi orkuverð annars vegar og svo skatta- og þjónustumál hins vegar. Þegar þær lægju fyrir væri hægt að leggja mat á arðsemi verkefnisins.

"Ef við metum það svo að arðsemin sé fullnægjandi eða líkur á að við náum ásættanlegri niðurstöðu verður haldið áfram og ef svo er ekki verður ekki haldið áfram," sagði Ragnar.